| Sf. Gutt

Harry Kewell semur við Galatasaray

Tilkynnt var nú um helgina að Harry Kewell hefði gert þriggja ára samning við tyrknesku meistarana Galatasaray. Harry fékk ekki nýjan samning við Liverpool í vor og því gat hann samið við hvaða félag sem hann vildi. Hann var orðaður við nokkur félög á Englandi en lengi þótti líklegast að hann færi til Roma. Það kom því nokkuð á óvart þegar tilkynnt var að hann hefði samið við Galatasaray.

Harry Kewell lék 139 leiki með Liverpool á a´runum 2003 til 2007 og skoraði 16 mörk. Harry vann tvo titla á ferli sínum með Liverpool. Hann varð Evrópumeistari 2005 og F.A. bikarmeistari 2006. Eftir að hann yfirgaf Liverpool í vor sagðist Harry ætla að sýna Rafael Benítez að það hefðu verið mistök að hjá honum að gera ekki nýjan samning við hann. Nú er að sjá hvort Ástralinn stendur við stóru orðin í Tyrklandi! Við óskum honum góðs gengis hjá Gala.

Margir stuðningsmenn Leeds United eru æfir við Harry vegna þess að hann skuli hafa gengið til liðs við Galatasaray. Ástæðan er sú að tveir stuðningsmenn Leeds voru stungnir fyrir Evrópuleik Galatasaray og Leeds í Istanbúl árið 2000. Báðir létust af sárum sínum. Mörgum stuðningsmönnum Leeds finnst nú að Harry hafi vanvirt minningu þeirra sem létust í Istanbúl með því að ganga til liðs við tyrkneska liðið. Hann hefur sjálfur gefið út yfirlýsingu um málið og biður stuðningsmenn Leeds að skilja þá ákvörðun sína að fara til Tyrklands og reyna sig í nýju umhverfi. Hann segir að ekki sé rétt að kenna Galatasaray um harmleikinn sem átti sér stað um árið. Þetta er athyglisvert mál og þá sérstaklega í samhengi við hvernig stuðningsmenn Liverpool hafa haldið minningu þeirra sem létust á Hillsborough á lofti. Mörg önnur félög hafa nefnilega sínar sorgir. En þetta var nú reyndar útúrdúr.

 

 

 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan