| Sf. Gutt

Harry Kewell fær ekki nýjan samning

Samkvæmt staðarblaðinu Daily Post þá mun Harry Kewell ekki fá nýjan samning við Liverpool. Samningur Harry rennur út núna í lok leiktíðar og forráðamenn Liverpool hafa greinilega ekki trú á að Ástralinn muni ná sér á strik á nýjan leik eftir þrálát meiðsli. Ferill hans hjá félaginu er þar með á enda. Harry lék 139 leiki með Liverpool. Hann skoraði 16 mörk. Harry vann tvo titla á ferli sínum með Liverpool. Hann varð Evrópumeistari 2005 og F.A. bikarmeistari 2006.

Það voru bundnar gríðarlega miklar vonir við Harry þegar hann kom frá Leeds United sumarið 2003. Hann lék vel á sinni fyrstu leiktíð en eftir það hefur hann aldrei náð sér verulega á strik vegna meiðsla. Reyndar lék hann vel á leiktíðinni 2005/2006 en þá virtist svo sem Harry væri búinn að hrista meiðsladrauginn af sér. Harry lék 15 leiki á þessari leiktíð en ljóst var í flestum þeirra að hann var aðeins svipur hjá sjón miðað við þegar hann var upp á sitt besta hjá Leeds. Því miður gerðu hin ýmsu meiðsli út um feril hans hjá Liverpool. Harry yfirgefur því Liverpool með það orðspor að hafa valdið vonbrigðum og ekki náð að uppfylla þær væntingar sem til hans voru gerðar. Segja má að það sé nokkuð táknrænt að síðasti leikur Harry fyrir Liverpool var óheillaleikurinn gegn Barnsley. Hann kom þá inn sem varamaður og átti meðal annars skot í þverslá. Harry mun nú leita á önnur mið og vonandi vegnar honum vel á þeim.

Það er reyndar nýjast að frétta af Harry Kewell að hann er nú leikfær á nýjan leik eftir meiðsli. Hann hefur æft með Liverpool að undanförnu.

 

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan