| Sf. Gutt

Vandræðalítill sigur

Liverpool vann nokkuð öruggan sigur á Fulham. Ýmsir höfðu talið að Rafael Benítez myndi stilla upp veikara liði en venjulega og liðið gæti þar með lent í vanda gegn Fulham sem er í mikilli fallhættu en Liverpool vann 2:0 án þess að lenda í vandræðum. Með sigrinum tryggði liðið sér svo gott sem fjórða sætið í deildinni. Fyrir ári tapaði Liverpool á þessum velli eftir að Rafael Benítez hafði valið veikara lið en venjulega. Nú gerði hann það sama en Liverpool vann. Þetta sýnir að liðshópur Liverpool er núna sterkari en fyrir ári og það er góðs viti.

Lið Liverpool var nokkuð breytt frá síðustu leikjum. Það var Sami Hyypia sem leiddi Liverpool sem fyrirliði í sínum 300. deildarleik. Javier Mascherano kom inn í liðið eftir leikbann. Eins og búast mátti við þá byrjaðu heimamenn af krafti. Það var þó ekki mikið bit í sóknarleik þeirra og Liverpool var nærri því að brjóta ísinn þegar Peter Crouch skallaði rétt framhjá eftir góða fyrirgjöf frá Jermaine Pennant. Liverpool komst svo yfir á 17. mínútu. Andriy Voronin sendi á Lucas Leiva sem renndi boltanum á Jermaine. Það virtist ekki vera mikil hætta á ferðum þegar hann fékk boltann utan við hægra vítateigshornið. Hann lék svolítið áfram áður en hann skaut að marki. Jermaine hitti boltann vel og hann söng í netinu án þess að Kasey Keller í marki Fulham kæmi nokkrum vörnum við. Boltinn fór upp í þaknetið en Kasey virtist eiga að geta gert betur. Það var eins og hann reiknaði með að skoti færi framhjá. Leikmenn Liverpool fengust ekki um slíkar vangaveltur og fögnuðu. Þetta var annað mark Jermaine á leiktíðinni. Tíu mínútum síðar sendi Jermaine fyrir markið frá hægri. Boltinn fór þvert fyrir markið og yfir að fjærstöng. Þar fékk John Arne Riise boltann en Paul Stalteri skallaði skot hans frá á markteignum. Markið hafði dregið úr kjarki heimamanna og þeir ógnuðu lítið. Undir lok hálfleiksins skallaði þó Brede Hangeland rétt framhjá.

Sami Hyypia kom ekki til leiks eftir leikhlé vegna þess að hann var ringlaður eftir höfuðhögg sem hann fékk. Jamie Carragher leysti hann af. Það gerðist lengi vel lítið í síðari hálfleik. Liverpool hafði yfirhöndina og heimamönnum gekk lítið að skapa sér hættuleg færi. Á 60. mínútu kom fyrsta hættulega færi hálfleiksins. Lucas Leiva lék laglega á einn varnarmann hægra megin og gaf fyrir. Yossi Benayoun fékk boltann í teignum en varnarmaður komst fyrir skot hans við markteiginn. Tíu mínútum seinna gerði Liverpool út um leikinn. Lucas sendi góða sendingu upp að vítateignum á Peter Crouch. Peter lagði boltann vel fyrir sig inn á teiginn og skaut. Boltinn fór undir Kasey og lá í markinu. Aftur hefði markvörðurinn átt að verja en Peter fagnaði tíunda marki sínu á leiktíðinni. Litlu síðar komst Danny Murphy í gott færi en Jose Reina varði vel. Á lokamínútunni munaði tvívegis litlu að heimamenn næðu að minnka muninn en sigur Liverpool var nú kominn í höfn og stuðningsmenn Liverpool, sem hvöttu lið sig frábærlega allan leikinn, fögnuðu sigri.

Fulham: Keller, Stalteri, Hughes, Hangeland, Konchesky, Davies, Bullard, Murphy (Andreasen 78. mín.), Dempsey, Healy (Nevland 76. mín.) og McBride (Kamara 81. mín.). Ónotaðir varamenn: Warner og Bocanegra.

Gult spjald: David Healy.

Liverpool: Reina, Finnan, Skrtel, Hyypia (Carragher 46. mín.), Riise, Pennant, Lucas, Mascherano (Alonso 72. mín.), Benayoun, Voronin (Aurelio 82. mín.) og Crouch. Ónotaðir varamenn: Itandje og Torres.

Mörk Liverpool: Jermaine Pennant (17. mín.) og Peter Crouch (70. mín.).

Áhorfendur á Craven Cottage: 25.311.

Maður leiksins: Jermaine Pennant lék líklega besta leik sinn á leiktíðinni. Hann skoraði fyrra markið snemma leiks og lagði svo það sinna upp með góðri sendingu. Hann lék mjög vel á kantinum.

Álit Rafael Benítez: Það geta allir séð að þetta er að komast í höfn. Við þurfum núna eitt stig og Everton þarf að vinna alla sína leiki. En þetta er knattspyrna og við verðum að fara varlega. Við þurftum að skila góðu verki og núna getum við einbeitt okkur að leiknum á þriðjudaginn.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv...

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan