| Sf. Gutt

Áhorfendur léku stórt hlutverk

Tólfti maðurinn lét sannarlega til sín taka þegar Liverpool lagði Inter Milan að velli á þriðjudagskvöldið. Það vakti til dæmis athygli að You´ll Never Walk Alone var sungið óvenjulega lengi og kröftuglega fyrir leikinn. Þjóðsöngurinn var kyrjaður löngu eftir að leikmenn liðanna voru komnir inn á völlinn og slíkt er óvanalegt. Jamie Carragher telur áhorfendur á Anfield Road hafa leikið stórt hlutverk í sigrinum.

"Evrópukvöldin hérna eru alltaf kyngimögnuð og þetta var það sannarlega. Við reynum alltaf að byrja vel í Evrópuleikjum á heimavelli. VIð ráðumst strax til atlögu og spilum hratt. Áhorfendur spila stórt hlutverk í þessu.

Ég held að við höfum skotið Inter Milan skelk í bringu á fyrstu 15 til 20 mínútunum og áhorfendur áttu jafn mikinn þátt í því og við. Ég er eiginlega að verða uppiskroppa með orð til að lýsa stuðningsmönnunum en þeir sönnuðu þarna enn einu sinni að þeir eru bestir í Evrópu."

Þess má geta að fyrsta Evrópukvöldið á Anfield Road, sem svo er skilgreint, átti sér stað vorið 1965 þegar Liverpool lék gegn Inter Milan í undanúrslitum Evrópukeppni meistaraliða. Liverpool vann þá 3:1 sigur og áttu áhorfendur á Anfield Road stóran hlut í þeim sigri. Fram til þessa leiks hafði aldrei önnur eins stemmning myndast á Anfield Road og sagt var að ítalska liðið, sem þá var talið besta félagslið í heimi, hefði algerlega verið slegið út af laginu! Inter vann seinni leikinn 3:0 og komst áfram en við vonum að ekkert slíkt gerist í seinni leik liðanna núna.

Stuðningsmenn Inter settu líka sinn svip á leikinn og þeir komu þakklátir til leiks. Þeir höfðu með sér borða sem á stóðu þakkarorð til Liverpool fyrir að hafa unnið granna þeirra AC Milan í úrslitaleiknum um Evrópubikarinn í Istanbúl árið 2005! Það eru sannarlega engir kærleikar milli grannanna í Mílanó!

Hér  og hér má sjá stemmninguna fyrir leikinn...

 

  

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan