| Sf. Gutt

Liverpool herjaði fram sigur á utandeildarliðinu!

Liverpool er komið áfram í F.A. bikarnum eftir mikla Waterloo orrustu sem lengi vel var tvísýn! Leikmenn Liverpool máttu sannarlega hafa fyrir því að komast áfram í 4. umferð gegn utandeildarliðinu Havant & Waterlooville sem náði tvívegis forystu á Anfield Road. Liverpool hafði að lokum 5:2 sigur og má segja að þrenna Yossi Banayoun hafi komið Liverpool áfram! Utandeildarliðið á sannarlega heiður skilinn fyrir frábæra framgöngu og það voru leikmenn Haukanna sem voru hetjur dagsins!

Liverpool átti frá upphafi fullt í fangi með utandeildarliðið. Liverpool hefði þó átt að ná forystu strax í byrjun þegar Yossi Benayoun skallaði yfir úr dauðafæri eftir fyrirgjöf frá Jermaine Pennant. Það ótrúlega gerðist svo á 8. mínútu að Havant komst yfir. Richard Pacquette skoraði þá óvaldaður með skalla eftir hornspyrnu. Áhorfendur á Anfield Road trúðu vart sínum eigin augum en þeir sem voru komnir með Havant gengu berserksgang af fögnuði. Liverpool hóf að sjálfsögðu mikla sókn en hún skilaði fáum færum. Havant fékk svo dauðafæri til að komast tveimur mörkum yfir en Neil Sharp skaut yfir úr upplögðu færi. Liverpool refsaði fyrir þetta á 27. mínútu. Lucas Leiva skoraði þá með glæsilegu bogaskoti efst í fjærhornið utan vítateigs. Fyrsta mark Brasilíumannsins fyrir Liverpool og það var sannarlega vel þegið! Frábært mark og líklega áttu nú flestir von á að leikmenn Liverpool myndu nú ganga á lagið. Það var þó öðru nær og á 31. mínútu komust gestirnir aftur yfir! Slóvakinn Martin Skretl, sem var að leika sinn fyrsta leik í byrjunarliði Liverpool, skoraði þá sjálfsmark þegar hann stýrði skoti frá Alfie Potter í eigið mark! Enn trúðu stuðningsmenn Havant ekki sínum eigin augum og það gerðu stuðningsmenn Liverpool reyndar ekki heldur!

Enn reyndu leikmenn Liverpool að herða sóknina og hún bar árangur á 44. mínútu. Yossi Benayoun jafnaði þá metin með góðu skoti eftir sendingu frá Jermaine Pennant. Ekki urðu mörkin fleiri í fyrri hálfleik og leikmönnum Havant var vel fagnað þegar flautað var til leikhlés. Leikmenn Liverpool voru á hinn bóginn alvarlegir í bragði þegar þeir gengu til búningsherbergja. Ótrúleg staða!

Leikmenn Liverpool komu mjög ákveðnir til leiks eftir leikhlé og náðu loksins að hrista af sér slenið. Hver sóknin á fætur annarri buldi á vörn Havant og á 56. mínútu náði Liverpool loksins forystu í leiknum. Jermaine Pennant sendi fyrir markið á Yossi sem tók boltann niður og þrumaði boltanum í þverslá og inn. Þremur mínútum seinna fullkomnaði Ísraelsmaðurinn þrennu sína. Ryan Babel átti þá skot að marki sem Kevin Scriven varði. Hann náði ekki að halda boltanum og Yossi kom frákastinu í markið. Stuðningsmenn Liverpool gátu nú loks andað léttar.

Sigri Liverpool var ekki ógnað héðan af og aðeins var spurning um hvort liðið næði að skora fleiri mörk. Yossi hefði getað skorað fjórða mark sitt en markvöður Havant kom í veg fyrir það. Dirk Kuyt, sem kom inn fyrir Yossi, fékk gott færi þegar átta mínútur voru eftir en skalli hans, eftir fyrigjöf frá Jermaine, fór í jörðina og þaðan í þverslá. Hollendingurinn getur bara ekki skorað þessar vikurnar! Rétt á eftir skaut Peter Crouch framhjá eftir að markvöður Havant hafði ekki náð að halda skoti frá Dirk. Charles Itandje var vel á verði litlu síðar og kom í veg fyrir að Haukarnir minnkuðu muninn þegar hann varði skalla frá Tom Jordan með tilþrifum.

Þeir Jamie Carragher og Steven Gerrard komu inn á lokakaflanum og það var Steven sem lagði upp síðasta mark leiksins. Liverpool náði þá bestu sókn sinni í leiknum. Boltinn gekk manna á milli upp völlinn. Sóknin endaði með því að Steven lagði boltann fyrir fætur Peter Crouch sem skoraði af stuttu færi. Sjónarvottar töldu Peter rangstæðan en ekkert var dæmt. Sigur Liverpool var í höfn en það voru leikmenn Havant sem voru hylltir sem hetjur í leikslok. Stuðningsmenn þeirra klöppuðu fyrir þeim en það gerðu stuðningsmenn Liverpool líka. Hver einasti áhorfandi á Anfield Road stóð upp og klappaði fyrir leikmönnum Haukanna! Þeir áttu hyllinguna sannarlega skilið. Þessari dagstund á Anfield Road munu þeir aldrei gleyma!

Liverpool: Itandje, Finnan, Skrtel, Hyypia (Carragher 84. mín.), Riise, Pennant, Mascherano (Gerrard 87. mín.), Lucas, Benayoun (Kuyt 72. mín.), Crouch og Babel. Ónotaðir varamenn: Martin og Torres.

Mörk Liverpool: Lucas Leiva (27. mín.), Yossi Benayoun (44., 56. og 59. mín.) og Peter Crouch (90. mín.).

Havant and Waterlooville: Scriven, Smith, Jordan, Sharp, Warner (Taggart 40. mín.), Harkin, Wilkinson (Oatway 74. mín.), Collins, Potter, Pacquette (Slabber 57. mín.) og Baptiste. Ónotaðir varamenn: S. Gregory og Taylor .

Mörk Havant and Waterlooville: Richard Pacquette (8. mín.) og Martin Skretl, sm. (31. mín.).

Gult spjald: Shaun Wilkinson.

Áhorfendur á Anfield Road: 42.566.

Maður leiksins: Yossi Benayoun. Það voru ekki margir leikmenn Liverpool sem stóðu fyrir sínu í dag en Ísraelinn lagði grunninn að harðsóttum sigri Liverpool með því að skora þrennu. Yossi lék þar fyrir utan mjög vel. Þetta er önnur þrennan sem hann skorar á þessari leiktíð og hann hefur sannarlega staðið fyrir sínu.

Álit Rafael Benítez: Við töluðum um það að skora snemma en ekki að fá mark á okkur! Það kom okkur í opna skjöldu og við þurfum að læra af þessu. Það er ekki fyrirfram hægt að segja að eitthvað lið verði auðveldur andstæðingur. Við þurftum að leggja verulega hart að okkur og við lékum miklu betur í síðari hálfleik. Þá lékum við á köflum góðan og hraðan sóknarleik. Það var góð stemmning á leiknum og það var virkilega gaman fyrir þá að skora tvö mörk. Þeir fara héðan með góðar minningar."

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv...

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan