| HI

Crouch tilbúinn að leiða sókn Englands

Peter Crouch segist reiðubúinn til að vera einn frammi með enska landsliðinuí leiknum mikilvæga gegn Króatíu á miðvikudag. Englendingum nægir jafntefli til að tryggja sér sæti á EM næsta sumar og ef Steve McClaren vill fara varlega í leikinn og nota einn framherja er Crouch tilbúinn til að taka það hlutverk að sér. Í það minnsta verður að teljast afar líklegt að Crouch byrji inná í ljósi þess að Michael Owen og Wayne Rooney eru meiddir.

"Ég hef gert þetta áður í stórleikjum með Liverpool og enska landsliðinu og mér hefur alltaf tekist að ráða við aukna ábyrgð. Ég er viss um að ég mun einnig gera það á miðvikudaginn," segir hann.

Tölfræði Crouch með enska landsliðinu er ótrúleg. Hann hefur skorað 13 mörk í 23 landsleikjum, síðast í 1-0 sigri á Austurríki á föstudag. Þessi þrettán mörk hafa komið í níu leikjum og Englendingar hafa unnið alla leikina sem Crouch hefur skoraði í.  Þrátt fyrir þetta hafa margir enn efasemdir um hann. "Ég hef alltaf þurft að sanna mig, og þannig er það alltaf þegar maður spilar með toppliðum, sama hvort það er Liverpool eða enska landsliðið. Maður verður að sanna sig til að halda sæti sínu í liðinu og vinna leiki."

Þess má geta að ef Englendingar tapa leiknum komast þeir nánast örugglega ekki áfram, því Rússar eiga sigurinn vísann gegn Andorra í síðustu umferð.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan