Liverpool rændi þremur stigum á Goodison Park!
Liverpool vann magnaðan baráttusigur 2:1 á Goodison Park um hádegisbilið í dag. Bláliðar komust yfir í fyrri hálfleik og allt virtist stefna í óefni en en þeir Rauðu náðu að snúa við blaðinu og vinna ævintýralegan sigur á síðustu mínútu leiksins. Lánið var óneitanlega með Liverpool í leiknum en ekki skal kvartað yfir því á þessari stundu!
Sólin skein glatt í Liverpool borg þegar þeir Rauðu og Bláu gengu til leiks 206. sinn. Bæði lið byrjuðu auðvitað af miklum krafti. Liverpool lék betur á upphafskaflanum ef eitthvað var og Yossi Benayoun komst í góða stöðu vinstra megin í teginum. Hann hefði getað skotið en lagði boltann þess í stað út á Andriy Voronin. Skot hans var ekki upp á það besta og Tim Howard náði að verja. Hann missti boltann frá sér en varnarmaður Everton bjargaði. Everton fór smá saman að sækja í sig veðrið og margar sóknir þeirra upp vinstri kantinn voru hættulegar. Eins ógnuðu heimamenn eftir föst leikatriði og Victor Anichebe átti skalla rétt fyrir eftir aukaspyrnu þegar um hálftími var liðinn af leiknum. Rétt á eftir átti John Arne Riise skot eftir aukaspyrnu sem fór í varnarmann og rétt framhjá. Það benti ekkert til marka þegar líða tók að leikhléi. En þá kom eitt úr óvæntri átt. Everton átti þá hornspyrnu frá vinstri. Boltinn fór yfir á fjærstöng þaðan sem Alan Stubbs sendi aftur inn á vítateiginn. Sami Hyypia fékk boltann í miðjum teignum og sparkaði honum rakleitt í eigið mark í stöng og inn! Allt gekk af göflunum hjá þeim Bláu og engan þurfti að undra. En það verður líklega aldrei upplýst hvað kom yfir Finnan góða! Þetta stórfurðulega sjálfsmark skildi liðin þegar flautað var til leikhlés. Stuðningsmenn Liverpool veittu Sami hvatningu þegar liðin gengu af leikvelli með því að syngja nafnið hans!
Það mátti greinilega sjá að leikmenn Liverpool voru alveg slegnir út af laginu framan af síðari hálfleik. Stuðningsmenn Liverpool bjuggust við öllu en kannski ekki því sem gerðist á 54. mínútu. Everton átti þá hornspyrnu frá vinstri. Yossi kom boltanum út úr teignum á Andriy sem sendi frábæra sendingu á Steven Gerrard. Hann tók á rás upp að marki Everton frá sínum eigin vallarhelmingi með Tony Hibbert á hælunum. Þeir féllu báðir þegar komið var inn í vítateiginn. Dómarinn dæmdi hiklaust vítaspyrnu en hann virtist hugsa sig aðeins um áður en hann rak Tony af leikvelli. Til að byrja með leit út fyrir að hann ætlaði bara að bóka hann. Dirk Kuyt bauð sig fram til að taka vítaspyrnuna og hann skoraði af miklu öruggi með því að senda boltann út í hægra hornið. Tim kastaði sér í öfugt horn. Stuðningsmenn og leikmenn Liverpool fögnuðu innilega þegar boltinn lá í netinu. Þetta reyndist vera vendipunktur leiksins. Eftir þetta hafði Liverpool frumkvæðið en heimamenn gáfu sig þó hvergi. Rétt eftir markið vildu leikmenn Everton fá vítaspyrnu þegar þeir töldu að Steve Finnan hefði brotið á Joleon Lescott. Dómarinn dæmdi ekkert. Liverpool hefði átt að gera út um leikinn en John Arne skaut yfir fyrir miðju marki eftir að Dirk Kuyt hafði sent boltann til hans. Norðmaðurinn hefði átt að gera betur í þetta sinn. Andriy átti svo skot, eftir harða sókn, sem Tim varði. Boltinn fór út í teig en Dirk skallaði yfir. Á 66. mínútu munaði litlu að Everton næði forystu. Ayegbeni Yakubu átti þá þrumuskot utan vítateigs sem fór rétt framhjá. Rafael Benítez tók nú að skipta inn á mönnum. Fyrst kom Ryan Babel inn fyrir Yossi og nokkrum mínútum síðar var Steven tekinn af velli og Lucas Leiva kom í hans stað. Stuðningsmenn Liverpool skildu ekkert í seinni skiptingunni! Everton átti í vök að verjast eftir því sem nær dró leikslokum. Andriy fékk mjög gott færi inn á teig vinstra megin en skaut framhjá og það sama gerði Mohamed Sissoko hinu megin í teignum. Everton virtist ætla að sleppa með skrekkinn en sem betur fer gerðu þeir það ekki! Liverpool gerði harða hríð að marki Everton þegar komið var fram í uppbótartíma. Lucas fékk boltann í miðjum teig og þrumaði að marki. Boltinn stefndi í markið en Phil Neville bjargaði marki með því að skutla sér og verja með hendi. Dómarinn sæmdi að sjálfsögðu vítaspyrnu og rak Phil af velli. Dirk bauð sig aftur fram til að taka þessa mikilvægu vítaspyrnu. Hollendingurinn spyrnti aftur í sama horn og í fyrri spyrnunni. Tim henti sér í rétt horn en náði ekki að verja þótt hann væri nærri því. Boltinn fór í markið og stuðningsmenn Liverpool trylltust af fögnuði! Það var þó ekki allt búið enn. Löngu innkasti var varpað inn á teig Liverpool. Þar féllu þeir Jamie Carragher og Joleon Lescott saman. Bláliðar voru sannfærðir um að þeir ættu að fá vítaspyrnu og þeir höfðu nokkuð til síns máls. En fleiri vítaspyrnur voru sem betur fer ekki í boði á Goodison Park í dag! Leikmenn Liverpool fögnuðu tryllingslega fyrir framan stuðningsmenn sína eftir leik og fór þar Jamie Carragher fremstur í flokki! Svona stundir eru óborganlegar!
Magnaður viðsnúningur á Goodison Park! Liverpool lék ekki vel en leikmenn gáfu sig ekki og færðu sér þau færi í nyt sem buðust. Sannarlega magnaður sigur og vonandi kemur hann liði Liverpool í almennilgan gang. Í bili njótum við stuðningsmenn Liverpool dagsins!
Everton: Howard, Hibbert, Yobo, Stubbs, Lescott, Arteta, Jagielka, Neville, Osman, Yakubu (McFadden 77. mín.) og Anichebe (Baines 84. mín.). Ónotaðir varamenn: Wessels, Pienaar og Carsley.
Mark Everton: Sami Hyypia sm. (38. mín.)
Gult spjald: James McFadden.
Rauð spjöld: Tony Hibbert og Phil Neville.
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Riise, Gerrard (Leiva 71. mín.), Mascherano, Sissoko (Pennant 88. mín.), Benayoun (Babel 68. mín.), Voronin og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Itandje og Crouch.
Mörk Liverpool: Dirk Kuyt víti (54 og 90. mín.).
Gul spjöld: Dirk Kuyt og Jamie Carragher.
Áhorfendur á Goodison Park: 40.049.
Maður leiksins: Dirk Kuyt. Það þarf mjög hugaðan leikmann til að taka tvær vítaspyrnur í sama grannaslagnum á Goodison Park. Þetta lét Dirk sig hafa og hann kláraði sig með miklum sóma frá þessu erfiða verkefni! Vítaspyrnurnar færðu Liverpool sætan sigur og þess vegna er ekki annað hægt en að velja Dirk!
Álit Rafael Benítez: Mér fannst við verðskulda sigurinn og leikmennirnir stóðu sig frábærlega. Þessi úrslit gætu breytt leiktíðinni fyrir okkur og þau eru gott nesti fyrir erfiða leiki sem við eigum seinna í vikunni gegn Besiktas og Arsenal. Við förum nú í þá leiki fullir sjálfstrausts.
-
| Sf. Gutt
Steven syrgir Sven -
| Sf. Gutt
Harvey Elliott meiddur -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Leikjatilfærslur -
| Sf. Gutt
Fulltrúar Liverpool á EM -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Brighton og Liverpool – Leicester -
| Sf. Gutt
Nýr búningur kynntur -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Frábær úrslit! -
| Sf. Gutt
Merkileg tímamót!