| Sf. Gutt

Mark spáir í spilin

Hugleiðing þýðanda: Þá er landsleikjahrotan að baki og komið að því sem mestu máli skiptir. Það er að veiða stig í deildinni. Liverpool heldur á suðurströndina í þeim tilgangi í fyrramálið. Það verður þó ekkert áhlaupaverk að sækja þrjú stig á Fratton Park. Portsmouth er sterkt á heimavelli. Liverpool þarf líka að gera betur gegn Pompey en liðið hefur gert í síðustu þremur leikjum gegn því. Liverpool náði ekki að vinna sigur á Portsmouth á síðustu leiktíð. Liðin mættust svo í úrslitaleik Asíubikakarsins í Hong Kong í sumar og þá hafði Portsmouth betur í vítaspyrnukeppni. Segja mætti að Liverpool ætti harma að hefna úr þeim leik því það er aldrei gott að missa af bikar ef slíkur gripur er í boði.

Það er með ólíkindum að stuðningsmönnum Liverpool sé ætlað að vera komnir suður til Portsmouth fyrir hádegi á morgun. Burt séð frá því að leikmenn Liverpool hafa verið að tínast saman úr öllum áttum eftir landsleikjahrotuna þá er alveg makalaust að þeir sem raða niður leikjunum í ensku Úrvalsdeildinni geti ekki borið hagsmuni stuðningsmanna liðanna fyrir brjósti. Fyrst þennan leik þarf að endilega sýna beint í sjónvarpi af hverju er þá ekki hægt að hafa hann síðdegis? Það er um langan veg að fara frá Liverpool til Portsmouth. Að ætla stuðningsmönnum Liverpool að vera komnir þangað fyrir hádegi er í besta falli tillitsleysi. En tillitsleysi sem þetta er ekkert einsdæmi og stuðningsmenn Liverpool eru ekki einir um að vera teymdir um England þvert og endilangt á vitlausustu tímum sólarhrings.

Stuðningsmenn Liverpool hafa virt fyrir sér stigatöfluna í ensku Úrvalsdeildinni, með mikilli ánægju, síðasta hálfa mánuðinn. Ástæðan fyrir þeirri gleði er auðvitað sú að Liverpool hefur skipað efsta sæti deildarinnar frá síðustu umferð í deildinni. Þegar á toppinn er komið eru aðeins tveir möguleikar í stöðunni. Að vera þar áfram sem er miklu betri kostur. Hinn er sá að falla af toppnum. Sá kostur er auðvitað miklu lakari. Liverpool þarf að vinna sigur á morgun til að hafa vissu fyrir því að halda efsta sætinu.

Liverpool gegn Portsmouth á síðustu sparktíð: Liðin léku á Fratton Park undir lok síðustu leiktíðar. Liverpool hafði þá tryggt sér sæti í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og því lét Rafael Benítez það eftir sér að tefla ekki fram sínu sterkasta liði. Það voru ekki allir framkvæmdastjórar í deildinni ánægðir með þá ákvörðun Rafael eins og allir muna! Liverpool tapaði leiknum.

Spá Mark Lawrenson

Portsmouth v Liverpool

Liverpool hefur byrjað leiktíðina prýðilega. Þeir Ryan Babel og Fernando Torres hafa verið fastamenn í liðinu og nærvera þeirra virðist hafa aukið broddinn og hraðann í sóknarleiknum. Ég hugsa að í herbúðum Portsmouth verði ánægja þegar þessi leikur er liðinn því þá er liðið búið að spila við fjögur sterkustu liðin í þeim sex deildarleikjum sem hafa verið á dagskrá. Það er mjög erfitt að sækja Pompey heim á Fratton Park. Ég held því að liðið muni ná einhverju út úr þessum leik.

Úrskurður: Portsmouth v Liverpool. 1:1.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan