| Sf. Gutt

Landsliðsfréttir

Það gekk mikið á í undanúrslitaleik Hollendinga og Englendinga í Evrópukeppni undir 21. árs í kvöld. Liðin skildu jöfn 1:1 eftir venjulegan leiktíma og framlengingu. Leroy Lita, leikmaður Reading, kom Englendingum yfir í fyrri hálfleik þegar hann skoraði þriðja mark sitt í keppninni. Allt stefndi í að enska liðið kæmist í úrslit en heimamenn sóttu mjög undir lokin og Marceo Rigters náði að jafna mínútu fyrir leikslok. Hollendingar þjörmuðu að Englendingum í framlengingunni. Enska liðið lék þá manni færri en einn leikmaður þess var farinn af velli vegna meiðsla og annar haltraði um. Stuart Pearce, þjálfari liðsins, var búinn að nota alla varamenn sína. Englendingar héldu út og við tók vítaspyrnukeppni.

Maraþonvítaspyrnukeppni er ekki annað hægt en að kalla þá keppni. Svo fór að Hollendingar unnu 13:12! Scott Carson stóð fyrir sínu í vítaspyrnukeppninni. Hann varði þó aðeins eina vítaspyrnu af þeim sextán vítaspyrnum en hann skoraði úr sjöundu spyrnu enska liðsins! Það var svo í sextándu umferð þegar Anton Ferdinand skaut í þverslá og Hollendingar skoruðu að úrslit réðust loksins. Þetta var önnur vítaspyrnan sem Anton tók en hann skoraði úr þeirri fyrri. Nokkrir leikmenn urðu að taka tvær spyrnur. Anton hefur ekki haft heppnina með sér í vítaspyrnukeppnum því Jose Reina varði vítaspyrnu frá honum í úrslitum F.A. bikarsins í Cardiff í fyrra. Sú spyrna réði úrslitum um að Liverpool vann F.A. bikarinn! 

Hollendingar leika til úrslita við Serba sem unnu Belga 2:0 nú í kvöld. Úrslitaleikurinn fer fram á laugardaginn og víst verða heimamenn að teljast sigurstranglegri. Öll liðin fjögur sem léku til undanúrslita hafa unnið sér þátttökurétt á næstu Olympíuleikum sem fara fram í Kína á næsta ári.

Ef ég veit rétt þá var þetta síðasti landsleikur Scott Carson í þessum aldurflokki. Mér skilst að ekki sé spilað um þriðja og fjórða sætið í keppninni. Eftir keppnina er Scott orðinn of gamall í undir 21. árs liðið. Leikurinn í kvöld var 29. leikur hans með undir 21. árs liðinu og er það landsmet.

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan