| Sf. Gutt

Scott Carson setti landsleikjamet

Scott Carson setti landsleikjamet í leik enska undir 21. árs liðsins við Serba í gærkveldi. Scott lék þá sinn 28. landsleik í þessum aldursflokki. Hann lék mjög vel í leiknum og hélt markinu hreinu í þessum metleik sínum.

Scott sagðist, í viðtali við vefsíðu Enska knattspyrnufélagsins, lítið hugsa um metið. "Það var frábært að ná að leika einn leik með liðinu. Ég er því vissulega hæstánægður með að hafa leikið svona marga leiki. Ég er þó ekki að einbeita mér að hversu leikirnir eru margir og þess konar hlutum. Ég er bara að einbeita mér að því að komast sem lengst í þessari keppni og vonandi náum við að vinna hana. Það er heiður að spila fyrir hönd Englands. Við höfum átt mjög góðar stundir síðustu þrjú árin og náð frábærum úrslitum."

Scott Carson lék sinn fyrsta leik með enska undir 21. árs liðinu í febrúar 2004. Enska liðið vann 3:2 sigur á Hollendingum í þeim leik. Scott lék þá með Leeds United. Sem fyrr segir hefur hann nú leikið 28 leiki. Hann á þó aðeins möguleika á að fara með met sitt upp í 30 leiki. Enska landsliðið er nú komið í undanúrslit Evrópukeppni landsliða undir 21. ára og gæti komist í úrslit. Eftir keppnina telst Scott of gamall til að spila í þessum aldursflokki. Ekki er víst að hann eigi metið lengi því James Milner er aðeins einum leik á eftir honum og hann getur leikið lengur með liðinu.

Scott hefur að auki leikið tvo landsleiki með enska B landsliðinu. Hann hefur nokkrum sinnum verið valinn í enska aðallandsliðið. Scott var til dæmis einn markvarða enska landsliðsins í Heimsmeistarakeppninni í Þýskalandi síðasta sumar. Enn hefur hann þó ekki leikið með því aðallandsliðinu en líklegt má telja að hann eigi eftir að gera það fyrr en seinna.

Þeir Jamie Carragher, félagi Scott hjá Liverpool, og Gareth Barry, fyrirliði Aston Villa, deildu gamla metinu sem var 27 leikir. Jamie skoraði eitt mark í þessum leikjum. Hér að neðan er listi yfir leikjahæstu leikmenn í sögu undir 21. árs liðs Englands.

Scott Carson (Leeds United og Liverpool) 28 leikir

Jamie Carragher (Liverpool) 27 leikir

Gareth Barry (Aston Villa) 27 leikir

James Milner (Leeds United og Newcastle United) 27 leikir

David Prutton (Nottingham Forest og Southampton) 25 leikir

Jermaine Pennant (Arsenal) 24 leikir

Jermain Defoe (West Ham United) 23 leikir

Gary Owen (Manchester City og West Bromwich Albion) 22 leikir

Shola Ameobi (Newcastle United) 20 leikir

David Dunn (Blackburn Rovers) 20 leikir

Þess má að lokum geta að þeir Alan Sherarer og Francis Jeffers deila markametinu í þessum aldurflokki. Þeir hafa skorað 13 mörk.

 

 




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan