| Sf. Gutt

Er Michael Owen að fara frá Newcastle United?

Yfirgefur Michael Owen Newcastle United? Þessi spurning er nú ofarlega á baugi í enskum fjölmiðlum. Ekki minnkaði umfjöllunin um málefni Michael Owen við orð framkvæmdastjóra Newcastle United. Sam Allardyce segir að forráðamenn Newcastle geti ekki staðið í vegi fyrir að Michael fari frá félaginu kjósi hann svo. 

"Ef Michael vill fara þá er ekkert sem ég get gert til að koma í veg fyrir það. Sérstaklega ef annað félag kemur til sögunnar og gerir þar með ákvæði í samningi hans, um að hann geti farið, virkt. Við færðum okkur svona ákvæði í nyt þegar við fengum Joey Barton til liðs við okkur en við gætum orðið fyrir barðinu á samskonar ákvæði hvað Michael varðar."

Michael lék aðeins sex leiki á síðustu leiktíð. Þar af helminginn með enska landsliðinu. Hann lék vel með enska landsliðinu og skoraði eina mark sitt á leiktíðinni þegar Englendingar unnu Eista 3:0 í undankeppni Evrópukeppni landsliða á miðvikudagskvöldið. Í heildina hefur Michael aðeins leikið fjórtán leiki með Newcastle og skorað sjö mörk.

Spurningin er nú sú hvað Michael Owen hyggst fyrir. Sem fyrr segir hefur hann aðeins leikið fjórtán leiki með Skjórunum á tveimur leiktíðum. Spurt er? Getur hann hugsað sér að yfirgefa þá eftir tvær leiktíðir og jafn fáa leiki? Aftur er spurt. Myndi Michael vilja koma aftur til Liverpool? Enn er spurt. Er áhugi á Heilögum Mikjáli hjá Rafael Benítez? Síðasta spurningin er þessi. Á Michael Owen eftir að bæta við þá 297 leiki og þau 158 mörk sem hann á á afrekaskrá sinni hjá Liverpool? Ég hugsa að margir stuðningsmenn Liverpool vonist eftir því! 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan