| Sf. Gutt

Robbie þakkar fyrir sig

Það er komið að seinni viðskilnaði Robbie Fowler við Liverpool. Guð þakkar hér fyrir sig og óskar eftir fullkomnum endalokum á ferli sínum hjá Liverpool.

"Þetta verður auðvitað tilfinningaþrunginn dagur fyrir mig. Ég vil þó að allir viti að ég mun beina allri einbeitingu minni að þessum tveimur mikilvægu leikjum sem eru eftir á leiktíðinni. Í fyrsta lagi þá langar mig að spila vel og vinna sigur í leiknum gegn Charlton þannig að við náum þriðja sætinu í deildinni. Svo kemur að undirbúningi fyrir úrslitaleikinn í Meistaradeildinni og vonandi fæ ég tækifæri til að taka þátt í þeim leik. Ég legg hugsanir um önnur málefni til hliðar þar til eftir þann leik því ég vil ekki að neitt valdi truflun fyrir svo mikilvægan leik. Ég vil líka að fólk viti að ég hef ekki hugsað neitt um hvað ég ætla að gera eftir að dvöl minni hjá Liverpool lýkur. Framkvæmdastjórinn útskýrði stöðuna fyrir mér núna í vikunni og ef satt skal segja þá kom hún ekki á óvart. Allir vita að ég hef farið í hvern einasta leik með Liverpool á sama hátt og lagt mig allan fram fyrir liðið. Ég mun gera það sama í síðustu tveimur leikjunum."

Nú er komið að kveðjustund Robbie Fowler í annað sinn. Ólíkt við þann fyrri þá er hann er sáttur við þennan viðskilnað.

"Í þetta sinn fæ ég þó tækifæri til að kveðja almennilega því ég var miður mín yfir því hvernig viðskilnaður minn var síðast. Eftir að ég kom til baka hef ég fengið stórkostlegan stuðning. Hann er jafnvel betri en þegar ég var hér fyrst. Kannski kann maður enn betur að meta hann eftir að hafa verið í burtu og saknað alls hérna svona mikið. Ég mun aldrei gleyma viðtökunum sem ég hef fengið og mun alltaf vera þakklátur fyrir þær. Ég vona bara að ég geti endað með nokkrum mörkum og sigri í Meistaradeildinni. Það yrði fullkominn endir á leiktíðinni."

Það líður að kveðjustund. Líklega geta allir stuðningsmenn Liverpool verið sammála um að endurkoma Robbie Fowler til Liverpool hafi verið vel heppnuð. Margir telja að hann hefði mátt fá fleiri tækifæri á þessari leiktíð. Eftir stendur samt að Robbie fékk tækifæri til að koma aftur heim. Nú fá líka allir að kveðja goðsögnina á viðeigandi hátt!

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan