| Grétar Magnússon

Stefnan sett á titil númer 6

Steven Gerrard setur stefnuna á að hampa sjötta Evrópumeistaratitli Liverpool í Aþenu þann 23. maí en hann var vægast sagt í skýjunum eftir leikinn í gærkvöldi.

Leikmenn fengu að skemmta sér frameftir kvöldi í miðbæ Liverpool eftir að hafa tryggt sér sigurinn á dramatískan hátt gegn Chelsea.

Gerrard sagði að þessi sigur væri betri en sá árið 2005 en hann segist munu gera allt sem í sínu valdi stendur til að tryggja það að þetta tímabil endi á sama hátt og árið 2005.

,,Allir strákarnir eiga svo mikið hrós skilið fyrir afrekið í gærkvöldi", sagði Gerrard.  ,,Fyrir mér var þetta ennþá betra en árið 2005.  Ég man eftir því að við lágum í vörn og börðumst fyrir lífi okkar.  Við gerðum það vissulega núna líka en það var hægt að sjá gæðamuninn á leik okkar í gegnum allt liðið, frá markmanni, í gegnum vörnina, miðjuna og sóknina."

,,Við áttum skilið að vinna í venjulegum leiktíma, við áttum fleiri færi og heilt yfir náðu þeir aldrei að ógna okkur verulega.  Við höfum sýnt miklar framfarir undanfarin tvö ár, við erum miklu hættulegri núna."

,,Að komast áfram eftir vítaspyrnukeppni er alltaf taugastrekkjandi.  En við vitum að í Pepe Reina höfum við besta markmann í heimi í þessari stöðu og hann skilaði sínu aftur.  Og varðandi áhorfendurnar, hvað get ég eiginlega sagt ?  Þeir eru þeir bestu í heimi og þeir sönnuðu það enn og aftur.  Hávaðinn 45 mínútum fyrir leik var orðinn meiri en á flestum öðrum leikvöngum þegar leikir eru spilaðir.  Þeir eru ótrúlegir."

Jose Mourinho sagði eftir leikinn að betra liðið hefði tapað og svaraði Gerrard því á þessa leið:  ,,Mér er í raun alveg sama hvað hver segir um leikinn núna.  Við vissum að okkur var sýnd lítil virðing fyrir leikinn en það eina sem skiptir máli er að hafa komist í úrslit Meistaradeildarinnar í annað skipti á þremur árum."

,,Þetta er ekki aðeins hluti af frábærri sögu félagsins núna, það sem er mikilvægast fyrir mig er að þetta er stór yfirlýsing um nútíð okkar og framtíð."

Gerrard var einnig ánægður með að Rafa Benítez skyldi hafa telft honum fram á miðri miðjunni í þessum leik.

,,Ég var ánægður með að fá tækifæri þarna vegna þess að ég bjóst alveg eins við því að ég myndi byrja hægra megin aftur.  Ég held að frammistaða allra miðjumannana sýndi að stjórinn hafði hárrétt fyrir sér enn og aftur taktískt séð, eins og hann er vanur að gera þegar stórleikir eru."

,,Ég veit að ég get spilað á miðjunni gegn hvaða liði sem er í heiminum og ég mun aldrei missa trúna á getu mína, en það er stjórans að ákveða hvað sé liðinu fyrir bestu.  Ég er bara mjög stoltur af því hvernig strákarnir stóðu sig og með því að hafa endurgoldið Rafa traust sitt á mér með því að setja mig á miðjuna gerir þetta ennþá betra."

Varðandi mótherjana í úrslitunum hafði Gerrard þetta að segja:  ,,Ég bara ánægður með að vera í úrslitunum.  Það er aðalmálið.  Við verðum að fara í þennan leik og vinna.  Þetta snýst bara um það að vinna bikarinn og koma með hann heim.  Eftir að hafa unnið Barcelona og Chelsea þurfum við ekki að óttast liðið sem mætir okkur í úrslitunum."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan