| Sf. Gutt

Umsagnir

Það er alltaf gaman að lesa umsagnir fjölmiða um leikmenn. Leikmenn Liverpool fengu þessar umsagnir, fyrir framgöngu sína í leiknum gegn Chelsea, á vefsíðunni Timesonline. Rafael Benítez fékk að sjálfsögðu líka umsögn.

José Manuel Reina: Hetjudáðir Jerzy Dudek unnu Meistaradeildina árið 2005. Spánverjinn gæti gert enn betur. Hann átti mikilvægar markvörslur þegar hann varði frá Didier Drogba og Frank Lampard áður en hann varði tvær vítaspyrnur. Einkunn: 8.

Steve Finnan: Kom aftur í liðið eftir meiðsli á hálsi. Lék mikilvægt hlutverk bæði í vörn og sókn. Hann náði að koma í veg fyrir að Salomon Kalou fengi marktækifæri á 25. mínútu. Stóð sig vel í að sækja fram. Einkunn: 6

Jamie Carragher: Hann líkti José Mourinho við Del Boy og Rodney Trotter áður en hann sannaði að þessi mikli vinnuhestur er enginn kjáni. Hápunktur þrotlausrar vinnu hans í leiknum var þegar hann hreinsaði frá áður en Didier Drogba náði boltanum. Einkunn: 7.

Daniel Agger: Sneri dæminu við, eftir að hafa fengið að kenna á því hjá Dider Drogba í fyrri leiknum, og skoraði í þessum leik. Það kom virkilega á óvart að hann skyldi skora. Hann smellhitti boltann eftir að Steven Gerrard hafði gefið á hann úr aukaspyrnu. Hann stóð svo fyrir sínu hinu megin á vellinum. Einkunn: 7.

John Arne Riise: Hann var lýstur gjaldþrota á dögunum. Þúsundir Liverpool búa myndu gjarnan lána honum peninga eftir þessa framgöngu hans. Átti mikilvæga atlögu að John Obi Mikel þannig að hann náði ekki skoti. Einkunn: 6.

Jermaine Pennant: Gerði gott betur en að réttlæta val sitt í liðið á kostnað Xabi Alonso. Hann gaf tóninn þegar Liverpool hafði yfirhöndina framan af leiknum. Beitti hraða sínum til að koma Ashley Cole í vanda og átti nákvæmar fyrirgjafir. Einkunn: 7.

Steven Gerrard: Besti leikmaðurinn úti á vellinum. Hann tók völdin á miðjunni af miklum myndugleik og hljóp gersamlega út um allan völlinn. Snjöll aukaspyrna hans skóp markið sem Daniel Agger skoraði. Einkunn: 8.

Javier Mascherano: Það að bæði Alan Pardew og Alan Curbishley skyldu ekki velja Argentínumanninn í lið sín ætti að setja blett á það sem eftir er af starfsferlum þeirra. Staðreyndin er sú að Javier heldur áfram að sýna hversu gríðarlega góður leikmaður hann er. Hafði algera yfirburði í baráttunni við Claude Makelele. Einkunn: 7.

Boudewijn Zenden: Hann var heppinn að halda stöðu sinni eftir að hann hafði lítið látið að sér kveða í fyrri leiknum. Kom endurfæddur til þessa leiks. Gaf Liverpool góða vídd á kantinum. Einkunn: 6.

Peter Crouch: Það er ekki eins mikil ógn af honum í loftinu eins og af er látið. Chelsea átti þó í vandræðum með hann og hann fékk tækifæri til að skapa öðrum leikmönnum pláss og vinna þeim tíma. Petr Cech varði vel frá honum rétt áður en klukkutími var liðinn af leiknum. Einkunn: 6.

Dirk Kuyt: Vann þrotlaust og það endaði með því að hann uppskar laun erfiðisins. Hann var nærri búinn að skora sigurmarkið þegar þegar hann átti skalla í þverslá og svo var mark dæmt af honum. Það var vafasamur dómur. Það endaði þó með því að hann skoraði úr vítaspyrnunni mikilvægu sem réði endanlega úrslitum. Einkunn: 7

Varamenn:

Xabi Alonso, leysti Jermaine Pennant af á 78. mínútu. Treysti völdin á miðjunni. Einkunn: 6.

Craig Bellamy, leysti Peter Crouch af á 105. mínútu.

Robbie Fowler, leysti Javier Mascherano af á 118. mínútu.

Ónotaðir varamenn: Daniele Padelli, Álvaro Arbeloa, Sami Hyypia og Mark González.

Rafael Benítez:

Leikaðferð:

Kom á óvart með því að láta Xabi Alonso, sem á að vera uppáldssonur hans, vera á bekknum. Í stað þess að láta hann leika þá tefldi hann fram tveimur útherjum. Þetta gekk upp því þeir Jermaine Pennant og Boudewijn Zenden sóttu án afláts um leið og leikurinn hófst. Steven Gerrard naut þess að spila inni á miðri miðjunni. Það fullkomnaði hina snilldarlegu leikaðferð sem Rafael lagði upp.

Skiptingar:

Þar sem leikaðferðin sem hann lagði upp fyrir leikinn gekk svo upp þá þurfti Spánverjinn ekki að breyta miklu. Xabi Alonso kom inn fyrir hinn líflega Jermaine Pennant á 78. mínútu. Þessi skipting styrkti miðjuna og reynsla Xabi hafði róandi áhrif á heimamenn áður en hraði Craig Bellamy teygði á vörn gestanna í framlengingunni.

Einkunn: 8.

 

 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan