| Sf. Gutt

Allir þurfa að ná sínu besta!

Rafael Benítez segir að leikmenn Liverpool þurfi á öllu sínu að halda ef þeir eigi að geta snúið Chelsea niður og endurtekið afrekið frá 2005. Hann segir að flestir leikmenn Liverpool þurfi að spila töluvert betur en þeir gerðu á Stamford Bridge í síðustu viku

"Við spiluðum ekki vel í útileiknum en fyrst við töpuðum honum bara 1:0 þá veit ég að við getum komist í úrslitaleikinn með því að leika eins og við best getum. En við verðum að spila betur. Við höfum verið að vinna í mistökunum sem við gerðum. Við höfum líka verið að skoða styrk- og veikleika þeirra. Við getum komist áfram en við vitum að við megum ekki fá mark á okkur. Reyndar sögðum við það sama fyrir leikinn við Olympiakos um árið og þá fengum við mark á okkur rétt fyrir leikhlé. Það þýddi að við urðum að skora þrjú mörk í síðari hálfleik og við náðum að gera það. Þetta sýnir að við getum haft okkur fram úr erfiðum aðstæðum. Við vitum að við lékum ekki vel í útileiknum við Chelsea. Þá spiluðu aðeins sex leikmenn eða svo eins vel og þeir geta. Til að allt fari vel þurfa tíu eða ellefu menn að leika upp á sitt besta."

Mikið hefur verið fjallað um orðræður Rafael Benítez og Jose Mourinho fyrir Englandsorrustu Liverpool og Chelsea. Rafael Benítez segir það litlu skipta hvað þeir segi.

"Fólk talar um að þetta snúist um Benítez og Mourinho en maður breytir engu á varamannabekknum ef leikmennirnir ná sér ekki á strik inni á vellinum. Leikmennirnir eru lykillinn að öllu. Framkvæmdastjórarnir geta sagt margt en þeir geta ekki skorað mörk."

Leikmenn Liverpool eru tilbúnir í slaginn og hafa undirbúið sig af kostgæfni fyrir leikinn mikilvæga í kvöld. Þá kemur í ljós hvort þeir ná að snúa  Englandsorrustunni sér í hag og komast til Aþenu.

 

 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan