| Sf. Gutt

Ládeyða í Manchester

Það var ládeyða yfir öllu í Manchester í dag þegar Liverpool mætti Bláliðum þeirrar borgar. Ekkert mark var skorað í hitanum en í dag var heitasti dagur ársins á Bretlandseyjum. Fór hitinn yfir tuttugu stig.

Leikmenn beggja liða báru sorgarbönd í tilefni þess að á morgun eru átján ár liðin frá harmleiknum á Hillsborough. Joey Barton, leikmaður Manchester City, hljóp að stúkunni þar sem stuðningsmenn Liverpool voru fyrir leikinn og lagði blómsveig þar. Þetta var fallega gert hjá Joey. Hann þekkir líka vel til þess sem gerðist á Hillsborough enda fæddur í Liverpool og stuðningsmaður Liverpool.

Liverpool byrjaði vel og Jermaine Pennant komst í gott færi eftir fimm mínútur. Hann komst inn á teig eftir sendingu frá Steven Gerrard og náði aðþrengdur skoti að marki sem Svínn Andreas Isaksson varði. Reyndar virtist sem að brotið væri á Jermaine en ekkert var dæmt. Fimm mínútum síðar átti Emile Mpenza skalla rétt framhjá. Eftir tæplega tuttugu mínútur var Xabi Alonso ekki fjarri því að skora frá sínum vallarhelmingi en skot hans fór yfir. Eftir hálftíma leik fékk Liverpool hornspyrnu frá vinstri. Jermaine tók hana og sendi fyrir markið. Boltinn fór þvert fyrir markið án þess að neinn næði honum þar til að hann hafnaði hjá Jamie Carragher við fjærstöngina. Jamie náði föstu skoti að marki sem hafnaði í hliðarnetinu. Ekkert mark leit því dagsins ljós í fyrri hálfleik. Liverpool var sterkari aðilinn og sótti meira en heimamenn biðu átekta og vörðust.

Það var boðið upp á sömu uppskrift í síðari hálfleik sem var mjög tíðindalítill. John Arne Riise átti gott skot rétt framhjá frá vítateig snemma í hálfleiknum. Það var svo varla að færi skapaðist fyrr en stundarfjórðungur var eftir. Heimamenn fengu þá hornspyrnu frá hægri. Jose Reina sló boltann frá. Boltinn fór stutt frá markinu og féll fyrir fætur DaMarcus Beasley sem lék framhjá einum leikmanni Liverpool og skaut góðu bogaskoti að marki. Sem betur fer small boltinn í þverslánni og fór yfir. Þar munaði litlu. Bláliðar vildu fá vítaspyrnu þegar fimm mínútur voru eftir þegar boltinn fór í hendi Jamie Carragher. Dómarinn dæmdi ekkert en vissulega hefði átt að dæma vítaspyrnu. Það var því ekkert mark skorað og kannski má segja að helsti vandi Liverpool hafi komið fram í þessum leik. Liðið skorar ekki nóg af mörkum þegar það hefur yfirhöndina í leikjum. Líklega hefðu einhverjir stuðningsmenn Liverpool frekar viljað vera heima í Liverpool og horfa á Grand National veðreiðarnar!

Manchester City: Isaksson, Onuoha, Dunne, Distin, Ball, Jihai, Vassell (Corradi 82. mín.), Barton, Johnson, Beasley og Mpenza (Ireland 62. mín.). Ónotaðir varamenn: Weaver, Samaras og Trabelsi.

Gult spjald: Joey Barton.

Liverpool: Reina, Finnan, Agger, Carragher, Arbeloa, Pennant (Crouch 75. mín.), Alonso, Mascherano (Zenden 85. mín.), Riise (Gonzalez 65. mín.), Gerrard og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Dudek og Hyypia.

Gul spjöld: Xabi Alonso og Steve Finnan.

Áhorfendur á Manchster leikvanginum: 45.883.

Maður leiksins: Javier Mascherano. Argentínumaðurinn stóð sig vel á miðjunni og sýndi enn einu sinni að það er mikill fengur að honum. Hann spilar boltanum vel og einfalt. Hann er líka snjall í að vinna boltann og verjast. Þetta allt gerði hann vel í þessum leik.

Rafael Benítez var ekki sáttur við niðurstöðuna. "Ég er vonsvikinn með úrslitin. Við hófum leikinn vel. Við spiluðum boltanum vel, sóttum og fengum góð opin færi. Við vorum miklu meira með boltann í fyrri hálfleik en við þurftum að skora mark. Undir lok leiksins var sótt að okkur með löngum innköstum og aukaspyrnum en ég held að þeir hafi ekki fengið nein opin marktækifæri." 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan