| Sf. Gutt

Undanúrslitasætið innsiglað!

Liverpool innsiglaði undanúrslitasæti sitt í Meistaradeildinni með 1:0 sigri gegn PSV Eindhoven á Anfield Road í kvöld. Leikmenn Liverpool fóru sér að engu óðslega og komust örugglega í undanúrslit. Sigurinn framkallar Bretlandsorrustu við Chelsea eins og 2005!

Rafael Benítez notaði tækifærið eftir öruggan sigur Liverpool í Hollandi í síðustu viku og hvíldi nokkra lykilmenn. Til dæmis gátu þeir Steven Gerrard og Jamie Carragher slappað af á varamannabekknum. Það kom því í hlut Sami Hyypia að leiða Liverpool til leiks. Það var greinilegt að leikmenn PSV Eindhoven ætluðu sér að standa sig betur en þegar liðið tapaði 3:0 á heimavelli fyrir Liverpool í síðustu viku. Strax í upphafi leiks átti Jefferson Farfan skalla sem Jose Reina sló frá. Liverpool varð fyrir áfalli eftir rétt rúman stundarfjórðung þegar Craig Bellamy var borin til búningsherbergis eftir að hafa orðið fyrir hnjámeiðslum. Robbie Fowler leysti hann af hólmi við góðar viðtökur áhorfenda. Liverpool ógnaði loks marki gestanna um miðjan hálfleikinn þegar Peter Crouch náði að teygja sig í fyrirgjöf frá Jermaine Pennant en Heurelho Gomes náði að verja með því að slá boltann yfir. Frábær markvarsla. Undir lok hálfleiksins átti Boudewijn Zenden góða aukaspyrnu sem fór rétt framhjá.

Gestirnir byrjuðu síðari hálfleikinn vel eins og þann fyrri. Jose Reina varði tvívegis á upphafskafla hálfleiksins. Tíðindalaust var að mestu fram á 64. mínútu þegar Dirk Marcellis var rekinn af leikvelli fyrir að brjóta á Boudewijn Zenden. Sá dómur var í harðasta lagi og hefði gult spjald dugað. Dirk setti þó sólann í Boudewijn. Liverpool beið ekki boðanna með að færa sér liðsmuninn í nyt. Fjórum mínútum seinna sendi John Arne Riise fasta sendingu inn á vítateiginn. Varnarmaður PSV renndi sér á boltann sem tók snarpa stefnu að marki. Heurelho náði að verja og boltinn hrökk til vinstri. Robbie Fowler var vel vakandi. Hann náði boltanum við endamörkin og sendi fyrir markið. Peter Crouch var fyrstur að átta sig og renndi boltanum í markið frá markteignum. Þetta þriðja mark Peter gegn PSV á leiktíðinni innsiglaði undanúrslitasæti Liverpool endanlega. Liverpool hefði getað bætt við mörkum á lokakafla leiksins. Peter skallaði yfir í góðu færi. Undir lokin komst Jermaine Pennant í upplagt færi inn á vítateiginn. Markvörður PSV varði vel frá honum en Jermaine náði frákastinu. Aftur skaut hann að marki en það fór á sömu leið og markvörðurinn varði. Þar fór Jermaine illa með upplagt færi. Það kom þó ekki að sök og stuðningsmenn Liverpool gátu fagnað sæti í undanúrslitum Evrópubikarsins í áttunda sinn! Það bíður gamall kunningi frá þeim slóðum!

Liverpool: Reina, Arbeloa, Hyypia, Agger (Paletta 78. mín.), Riise, Pennant, Sissoko, Alonso (Gonzalez 72. mín.), Zenden, Crouch og Bellamy (Fowler 17. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek, Gerrard, Mascherano og Carragher.

Mark Liverpool: Peter Crouch (68. mín.). 

PSV Eindhoven: Gomes, Marcellis, Simons, Addo, Salcido, Feher (Sun 62. mín.), Cocu, Vayrynen, Culina, Farfan (Kluivert 62. mín.) og Kone (Van Eijden 71. mín.). Ónotaðir varamenn: Moens, Da Costa, Tardelli og Ter Horst.

Rautt spjald: Dirk Marcellis (64. mín.).

Gult spjald: Salcido.

Áhorfendur á Anfield Road: 41.447.

Liverpool vann samanlagt 4:0 og mætir Chelsea í undanúrslitum!

Maður leiksins: Jermaine Pennant. Hægri útherjinn var mjög duglegur og ógnaði vörn gestanna við hvert tækifæri. Hann átti nokkrar góðar fyrirgjafir sem sköpuðu hættu.

Rafael Benítez er auðvitað ánægður með að hafa tryggt sæti í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. "Þetta var ekki neinn glansleikur en við gerðum það sem gera þurfti. Mér fannst þetta vera erfiður leikur. Þeir voru mikið með boltann en við höfðum stjórn á öllu. Þetta varð svo allt auðveldara fyrir okkur þegar leikmaður þeirra var rekinn af leikvelli. Peter Crouch skoraði svo aftur fyrir okkur. Ég vona að hann haldi áfram að skora alla leiðina í úrslitin í Meistaradeildinni. Við erum mjög ánægðir með að vera komnir í undanúrslit Meistaradeildarinnar og ég hef mikla trú á mínum mönnum gegn Chelsea." 

 

 

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan