| Sf. Gutt

Lykilleikur

Jermaine Pennant gæti fengið tækifæri til að spila gegn sínum fyrrum félögum á morgun þegar Arsenal kemur í heimsókn til Liverpool. Hann telur leikinn algeran lykilleik í baráttunni um þriðja sætið í deildinni. Fyrir leikinn munar einu stigi á Arsenal og Liverpool. Arsenal leiðir og á að auki leik til góða. Liverpool þarf því nauðsynlega á sigri að halda.

"Liðið sem vinnur þennan leik mun enda í þriðja sætinu. Þess vegna er þetta einn mikilvægasti leikur okkar á leiktíðinni. Fyrir utan þennan leik þá held ég að hvorugt liðið eigi erfiða leiki eftir. Af þeim sökum skiptir þessi leikur gríðarlega miklu máli. Þeir þurfa að koma til Anfield. Fyrir utan leikinn við Man United í deildinni hefur Anfield verið okkur mikið virki. Ef við leikum eins og við best getum þá getum við náð ákjósanlegum úrslitum. Þeir hafa unnið okkur nokkrum sinnum á þessari leiktíð svo það er kominn tími til að við náum sigri."

Jermaine Pennant var í fréttunum fyrr í vikunni þegar hann sagðist vera orðinn svolítið argur yfir því að vera ekki valinn í enska landsliðið. Sumum þótti sem hann hefði nú átt að sleppa því að láta þetta sagt því hann eigi enn eftir að sanna sig hjá Liverpool. Ian Rush ráðlagði honum í vikulegum pistli sínum í staðarblaðinu Echo að láta verkin frekar tala inni á vellinum heldur en að vera með yfirlýsingar. Jermaine fær líklega tækifæri til þess á morgun og vonandi grípur hann það!

 

 

 

 

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan