| Sf. Gutt

Rán á Anfield Road!

Á óskiljanlegan hátt tókst Manchester United að vinna sigur 1:0 á Anfield Road í dag. Liverpool var miklu sterkari aðilinn en tapaði samt. Eina markið kom á lokamínútu leiksins. Réttlætinu var sannarlega ekki fullnægt í þetta sinn!

Leikmönnum liðanna gekk illa að ná saman framan af leiknum og flestir þeirra virtust vera mjög spenntir. Daniel Agger átti fyrstu marktitraunina en fast skot hans utan teigs fór yfir. Cristiano Ronaldo átti skot framhjá hinu megin eftir laglegan samleik. Eftir stundarfjórðung átti Mark Gonzalez skalla að marki gestanna en boltinn fór of nærri Edwin Van der Sar sem varði. Eftir rúmlega tuttugu mínútur átti Cristiano skot yfir eftir snöggan samleik. Eftir þetta má segja að Liverpool hafi tekið leikinn í sínar hendur. Á 27. mínútu munaði hársbreidd að John Arne Riise næði forystu. Liverpool fékk aukaspyrnu rétt utan teigs. Boltanum var rennt á John Arne en fast skot hans strauk stöngina og fór framhjá. Ekki löngu seinna braust Craig Bellamy inn í vítateiginn en Dirk Kuyt rétt missti af fyrirgjöf hans. Á 35. mínútu varði Edwin vel skot frá Mark Gonzalez. Hálfleikurinn endaði svo á því að Jamie Carragher bjargaði á síðustu stundu þegar Wayne Rooney var við það að komast í færi. Markalaust í hálfleik.

Liverpool byrjaði síðari hálfleikinn af gríðarlegum krafti. Strax í upphafi átti Steven Gerrard skot framhjá og rétt á eftir komst Craig í gott færi eftir góða sendingu frá Dirk en Edwin náði naumlega að verja skot hans. Á fimmtu mínútu hálfleiksins skoraði svo Craig Bellamy af stuttu færi en hann var dæmdur rangstæður. Var það líklega rétt dæmt en þó mátti litlu muna. Í næstu sókn átti John Arne bylmingsskot sem fór rétt yfir. Liverpool réði lögum og lofum og löngu fyrir leikslok var ljóst að Manchester United var að spila upp á jafntefli því liðið reyndi ekki að sækja. Kannski gat liðið það ekki?

Þegar tólf mínútur voru eftir vildi Louis Saha fá vítaspyrnu eftir að hann og Daniel höfðu lent í samstuði. Dómarinn dæmdi ekkert og gerði rétt í því. Fjórum mínútum fyrir leikslok var Paul Scholes rekinn af velli fyrir að slá í áttina til Xabi Alonso. Paul kom ekki við Xabi þannig að það var kannski óþarfi að reka hann af velli. Rétt á eftir virtist boltinn ætla að enda í marki United. Dirk sendi fyrir frá hægri. Peter Crouch, sem kom inn sem varamaður, náði að leggja boltann fyrir sig og koma skoti á markið en Edwin náði að krafla í boltann á síðustu stundu. Í stað þess að Liverpool ynni sanngjarnan sigur stálu gestirnir honum. United fékk aukaspyrnu vinstra megin við vítateiginn. Cristiano Ronaldo skaut að marki. Jose Reina varði en hélt ekki boltanum. Varamaðurinn John O´Shea náði frákastinu og skoraði. Algert rán og ein ósanngjörnustu úrslit í manna minnum urðu að sárum veruleika!

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Agger, Riise, Gerrard, Alonso, Sissoko (Crouch 79. mín.), Gonzalez (Aurelio 60. mín.), Kuyt og Bellamy (Pennant 69. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek og Hyypia.

Gul spjöld: Xabi Alonso og Jamie Carragher.

Man Utd: Van der Sar, Neville, Ferdinand, Vidic, Evra (Silvestre 63. mín.), Ronaldo, Carrick, Scholes, Giggs, Rooney (O´Shea 73. mín.) og Larsson (Saha 67. mín.). Ónotaðir varamenn: Kuszczak og Brown.

Mark Manchester United: John O´Shea (90. mín.).  

Rautt spjald: Paul Scholes.

Gul spjöld: Michael Carrick og Gary Neville.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.403.

Maður leiksins: Steven Gerrard. Fyrirliðinn átti kraftmikinn leik. Hann var mjög sterkur á miðjunni og átti þátt í mörgum góðum sóknum Liverpool.

Rafael Benítez skildi ekki hvernig Liverpool tapaði leiknum. "Ég ætti í erfiðleikum með að útskýra hvernig við fórum að því að tapa á spænsku. Mér er það ömögulegt á ensku. Við réðum lögum og lofum og áttum fullt af sóknum. Stundum snýst knattspyrna bara um heppni."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan