| Sf. Gutt

Af umhyggju og hugrekki

Peter Crouch var borinn af leikvelli gegn Sheffield United á laugardaginn. Hann nefbrotnaði eftir að Robert Hulse sóknarmaður United sparkaði í hann. Peter reyndi að komast í boltann og skalla hann að marki Sheffield en sú tilraun hans endaði ekki vel. Liverpool fékk þó vítaspyrnu í þessari sókn þó ekki væri hún fyrir þetta atvik. Robert Hulse var umhugað um Peter og vildi huga að honum eftir leikinn.

"Maður vill vera laus við að sjá svona nokkuð. Boltinn kom fyrir eftir hornspyrnu og hann beygði sig niður til að skalla að marki. Um leið reyndi ég að sparka viðstöðulaust frá en spakaði í boltann og höfuðið á honum. Ég sá strax að hann hafði meiðst nokkuð illa og svo var hann auðvitað borinn af leikvelli. Ég fór í búningsherbergið hjá Liverpool eftir leikinn til að hitta hann en hann var þá farinn. Ég talaði við þjálfarana en þeir sögðu mér að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur því þetta væri í lagi. Þeir sögðu að þetta væri bara eitt af því sem gæti gerst í knattspyrnu og að það væri allt í lagi með Peter.

Að leikmaður sé tilbúinn að láta höfuðið vaða á undan sér á ákveðnum svæðum sýnir kappið í mönnum. Stuðningsmenn vilja sjá svona hugrekki en ekki að leikmenn hlífi sér. Auðvitað er ekki gaman að sjá svona hluti gerast en því miður getur svona gerst í knattspyrnu. Maður á það á hættu að fá svona högg."

Sem fyrr segir nefbrotnaði Peter og það þurfti að sauma nokkur spor í skurð sem hann fékk. Engar fréttir hafa borist af því hvort hann verði eitthvað frá vegna þessara meiðsla.

 

 

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan