| Sf. Gutt

Efsta sæti riðilsins gulltryggt!

Bikar- og Skjaldarhafar Liverpool tryggðu sér sigur í sínum riðli í Meistaradeildinni í kvöld eftir öruggan sigur á Hollandsmeisturum PSV Eindhoven. Liverpool vann 2:0 og komu bæði mörkin í síðari hálfleik. Þetta var fyrsta tap PSV í fimmtán leikjum. Sigurinn kostaði þó sitt því þrír leikmenn Liverpool meiddust.

Leikurinn var mjög rólegur fram eftir öllum hálfleiknum. Það olli þó áhyggjum í herbúðum Liverpool að Xabi Alonso varð að fara af leikvelli eftir tuttugu mínútur eftir að hafa fengið högg á annað lærið. Það breytti þó ekki því að Liverpool hafði undirtökin frá upphafi en það var ekki fyrr en eftir hálftíma að fyrsta færið skapaðist. Löng sending kom að marki PSV. Peter Crouch lagði boltann fyrir Steven Gerrard en hann skaut framhjá frá vítateig. Bolo Zenden átti svo gott skot utan teigs sem fór beint á Heurelho Gomes. Rétt á eftir var Mark Gonzalez, sem hafði átt góða spretti, borinn af leikvelli eftir að hann tognaði aftan á læri. Á síðustu mínútu hálfleiksins skallaði Peter rétt framhjá eftir góða fyrirgjöf frá Steven Gerrard. Getirnir áttu ekki eitt einasta færi í öllum hálfleiknum.

Gestirnir voru heldur líflegri eftir hlé en gestgjafarnir voru sem fyrr sterkari. En eftir klukkutíma kom fyrsta marktilraun hollenska liðsins þegar langskot Carlos Salcido fór rétt yfir. Fimm mínútum seinna braut Liverpool ísinn eftir fallega sókn upp allan völlinn. Jose Reina hóf hana með sendingu á Steve Finnan. Hann sendi á Dirk Kuyt sem losaði sig frá varnarmanni og gaf frábæra sendingu inn fyrir vörnina. Þar komst Steven Gerrard á auðan sjó við vítateiginn og sendi boltann af miklu öryggi í markið. Frábær sókn og vel afgreitt hjá fyrirliðanum sem átti stórleik á miðjunni. Þetta mun hafa verið fyrsta markið sem PSV hefur fengið á sig í síðustu sjö leikjum. Enn lengdist meiðslalistinn tólf mínútum fyrir leikslok þegar Jermaine Pennant tognaði á læri og var hann borinn af velli. Voru þar með báðir kantmenn Liverpool út leik. Tíu mínútum fyrir leikslok átti Arouna Kone skot sem Jose varði. Hollenska liðið ógnaði þó aldrei verulega og Liverpool gerði út um markið mínútu fyrir leikslok. Bolo Zenden sendi þá góða sendingu út til vinstri á Luis Garcia. Hann sendi fyrir markið á fjærstöngina. Þar stökk Dirk hæst og skallaði þvert fyrir markið á Peter sem skallaði í markið og gulltryggði sigurinn og efsta sætið í riðlinum. Fullkominn endir á góðum leik!

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Agger, Riise, Pennant (Bellamy 78. mín.), Gerrard, Alonso (Zenden 21. mín.), Gonzalez (Garcia 36. mín.), Crouch og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Dudek, Hyypia, Fowler og Paletta.

Mörk Liverpool: Steven Gerrard (65. mín.) og Peter Crouch (89. mín.).

PSV Eindhoven: Gomes, Kromkamp, Da Costa, Alex, Salcido, Mendez (Beerens 81. mín.), Simons, Feher (Tardelli 68. mín.), Afellay, Farfan og Kone. Ónotaðir varamenn: Moens, Reiziger, Cocu, Addo og Lamey.

Áhorfendur á Anfield Road: 41.948.

Maður leiksins: Peter Crouch. Markahæsti leikmaður Liverpool á leiktíðinni átti frábæran leik. Hann barðist eins og ljón, skilaði boltanum mjög vel frá sér, var alltaf ógnandi og rak smiðshöggið á sigurinn með níunda marki sínu á leiktíðinni. Þar af hefur Petr skorað fimm í Evrópukeppninni.

Rafael Benítez var ánægður með sína menn. "Við erum mjög ánægðir með sigurinn. Hann vekur gleði hjá stuðningsmönnunum og félaginu en meiðslin sem okkar menn urðu fyrir spilltu fyrir."

Eftir úrslit kvöldsins liggur allt ljóst fyrir í riðlinum. Liverpool hefur tryggt sér sigur í riðlinum og PSV fylgir með í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar. Í hinum leik riðilsins vann Bordeaux Galatasaray 3:1 í Frakklandi. Þau úrslit þýða að franska liðið fær sæti í Evrópukeppni félagsliða. Galatasaray situr á botninum. Síðasti leikur Liverpool í riðlinum skiptir þar með engu en vonandi nær liðið að sækja sigur til Istanbúl eins og um árið! 

 

 

 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan