| Sf. Gutt

Í hnotskurn

Fyrsta viðureign Liverpool og þeirra Konunglegu í allri sögu ensku knattspyrnunnar. Sjö mörk í grenjandi rigningu og Liverpool fór áfram í Deildarbikarnum. Fjórir leikmenn Liverpool léku í fyrsta sinn.

- Þetta var fyrsta viðureign Liverpool og Reading í sögu ensku knattspyrnunnar.

- Það má merkilegt teljast að liðin hafi ekki leikið saman fyrr því Liverpool var stofnað árið 1892 og Reading árið 1871.

- Fjórir leikmenn Liverpool léku í fyrsta sinn fyrir hönd félagsins. Þetta voru þeir Gabriel Paletta, Lee Peltier, Danny Guthrie og James Smith. Markvörðurinn David Martin var svo í fyrsta sinn í aðalliðshópnum en hann vermdi varamannabekkinn.

- Þeir Lee Peltier, Danny Guthrie og James Smith eru allir uppaldir hjá Liverpool.

- Robbie Fowler var fyrirliði Liverpool í fyrsta sinn frá því árið 2001.

- Þetta var í fyrsta sinn sem Robbie leiddi Liverpool sem fyrirliði í Deildarbikarleik frá því hann tók við Deildarbikarnum sem fyrirliði Liverpool eftir að Rauði herinn lagði Birmingham City í úrslitaleiknum árið 2001!

- Robbie skoraði sitt 28. mark í Deildarbikarnum og er nú næst markahæsti leikmaður Liverpool í keppninni.

- Ian Rush er markahæsti leikmaður Liverpool í Deildarbikarnum með 48 mörk.

- John Arne Riise skoraði þriðja mark sitt á leiktíðinni.

- Gabriel Paletta varð fyrsti Argentínumaðurinn til að skora fyrir Liverpool. Reyndar varð hann um leið fyrstur leikmanna frá Suður Ameríku til að skora fyrir Liverpool.

- Það er óvanalegt að varnarmaður skori í sínum fyrsta leik en Gabriel Paletta afrekaði það.

- Peter Crouch skoraði sjöunda mark sitt á leiktíðinni. Þetta var tuttugasta mark hans fyrir Liverpool.

- Þeir Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson voru í liði Reading. Þetta var í annað sinn sem tveir Íslendingar leika gegn Liverpool í sama leiknum í ensku knattspyrnunni. Brynjar Björn og Heiðar Helguson voru i liði Watford sem lék gegn Liverpool í undanúrslitum Deildarbikarsins 2005.

Jákvætt:-) Liverpool komst áfram í Deildarbikarnum. Liðið lék sóknarleik leikmenn liðsins reyndu alltaf að bæta við mörkum. Fjórir ungir og efnilegir leikmenn fengu tækifæri. Robbie Fowler kom í liðið eftir nokkurt hlé og lét að sér kveða með fallegu marki og góðum leik.   

Neikvætt:-( Varnarleikur Liverpool var ekki góður á lokakafla leiksins og leikmenn Reading náðu að skora þrjú mörk.

Þrír bestu leikmenn Liverpool samkvæmt Liverpoolfc.tv:

1. Robbie Fowler. Hann lét af sér vita á endurkomu sinni í liðið eins og hann gerir best. Sem sagt með því að skora frábært mark. Með markinu komst hann fram upp yfir Kenny Dalglish og er nú næst markahæsti leikmaður Liverpool í Deildarbikarnum. Hann átt líka þátt í tveimur mörkum og var mjög sprækur.

2. Jermaine Pennant. Þetta var besti leikur hans í rauðu peysunni fram að þessu. Hann var mjög líflegur og ógnaði vörn Reading allt kvöldið. Jermaine var fullur sjálfstrausts og sýndi virkilega hvað í honum býr.

3. John Arne Riise. Spilaði vinstra megin á miðjunni og gaf liðinu gott jafnvægi. Hann skoraði að auki fallegt mark.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan