Dirk Kuyt í viðtali
Faðir Dirk Kuyt var á Anfield til að sjá son sinn spila fyrir Liverpool í fyrsta skipti og hann brást ekki föður sínum gegn Villa (myndin til hliðar er einmitt úr þeim leik).
Það eru tveir mánuðir síðan draumur hans rættist. Hollenski framherjinn Dirk Kuyt spjallar um liðsfélaga sína, eigin fatalínu og ótta sinn um að veikur faðir hans myndi aldrei heimsækja Anfield. Að lokum var rætt um hvernig honum gengi að læra "tungumálið" í Liverpool.
Þú hefur verið hér í tvo mánuði. Ertu búinn að koma þér fyrir?
Fólkið sem starfar hjá félaginu hefur komið einstaklega vel fram við okkur, sumir hafa verið að hjálpa okkur við að finna hús og ýmislegt annað, þannig að ég er búinn að koma mér mjög vel fyrir. Konan mín og dóttir eru hérna með mér og við erum í íbúð sem félagið fann handa mér. Við erum nýbúin að finna hús hérna í sunnanverðri Liverpool og við ættum að flytja þar inn eftir eina til tvær vikur.
Hvaða leikmenn hafa hjálpað þér að aðlagast nýju umhverfi og nýjum aðstæðum?
Allir leikmennirnir hafa lagt sitt af mörkum og þá aðallega heimamennirnir Carra og Gerrard sem og Hollendingurinn Bolo Zenden. Ég og Craig Bellamy keyrum líka saman á æfingar því hann var líka að bíða eftir að húsið hans yrði tilbúið en nú er það fullklárað þannig að ég fer einn núna. Stundum fáum við okkur drykk saman eftir leik og það er frábært.
Hvað gerir þú í frítímanum þínum?
Ég hef nú bara verið að reyna að finna húsnæði. Maður hefur ekki mikinn tíma vegna þess að þegar þú ert að spila marga leiki þá ertu alltaf að einbeita þér að leiknum. Þegar það er aflögu fer ég gjarnan á góð veitingahús. Mér finnst borgin mjög fín, fólkið er mjög vinalegt og veitingahúsin eru frábær.
Hefurðu lært eitthvað í "tungumáli" borgarinnar?
Þegar heimamenn tala rólega þá skil ég þá. Mér líkar vel við að borgin hafi sitt eigið tungumál eins og í heimaþorpinu mínu. Það er mjög erfitt að skilja þegar Gerrard, Carra og Robbie eru að tala saman en það er verst að skilja Carra.
Hefur félagið staðið undir þeim væntingum sem þú bjóst við?
Félagið er mjög stórt en ég vissi það fyrir, mér finnst líka frábært að sjá hvað allir eru nátengdir hver öðrum hjá svona stóru félagi. Þetta er eins og fjölskylduklúbbur en maður hefur einmitt heyrt að í svona stórum félögum séu ekki svo mikil tengsl manna á milli en það er ekki svoleiðis hérna. Þeir hafa líka stuðningsmenn um allan heim, það er ótrúlegt. Þegar ég lék með Hollandi í Írlandi sá ég mikið af Liverpoolstuðningsmönnum og ég veit að það er mikið um stuðningsmenn Liverpool í Hollandi. Í hverri viku þegar ég næ í fjölskyldu eða vini á flugvöllinn sé ég Liverpoolaðdáendur koma frá Hollandi.
Hvernig voru viðbrögðin í Hollandi þegar þú skiptir um félag?
Þeim finnst ég hafa tekið góða ákvörðun og að Liverpool sé frábært félag. Margir Feyenoord aðdáendur hafa sagt að þeir vilji koma hingað og sjá mig spila. Ég er viss um að þegar þeir hafa horft á einn leik og þá sérstaklega á Anfield að þá verði þeir Liverpool aðdáendur.
Er það rétt að þú sért með þína eigin fatalínu í Hollandi? Ef svo er hvenær mega þá Liverpool aðdáendur eiga von á því að koma höndum yfir nýjustu hönnunina frá Dirk Kuyt?
Það er nokkuð sem heitir Dirk Kuyt stofnunin sem er til að hjálpa fátæku fólki. Við höfum okkar fatalínu og allur peningurinn fer í þessa stofnun. Þegar þú ert leikmaður sem er alltaf í sviðsljósinu þá er gott að nýta það til að hjálpa öðrum og ég hef áhrif á fullt af fólki. Ég tel það mikilvægt að allir leggi sitt af mörkum í heiminum, kannski mun ég flytja inn föt til Englands en það er eitthvað sem þarf bara að skoða síðar.
Finnurðu fyrir pressu vegna stærðar klúbbsins og vegna fjárhæðarinnar sem var greidd fyrir þig?
Nei. Þegar þú ert atvinnumaður hjá hvaða liði sem er, þá er alltaf pressa á þér. Það var pressa í Feyenoord og nú er ég hjá Liverpool þar sem menn vilja vinna hvern einasta leik. Þetta er eðlilegt og líka ein ástæða fyrir því að leikurinn er svona skemmtilegur.
Hvaða leikmenn þekktirðu áður en þú komst til Liverpool?
Ég þekkti alla leikmennina enda enska úrvalsdeildin mjög vinsæl í Hollandi. Ég horfði gjarnan á leiki með Liverpool og man sérstaklega eftir úrslitaleiknum í Meistaradeildinni. Það var ótrúlegur leikur. Ég horfði á leikinn með samherjum mínum úr landsliðinu. Þetta er einn af bestu leikjum sem ég hef nokkurn tíma séð. Stundum kemur lið til baka eftir að hafa verið undir 3-0 í hálfleik en að afreka það gegn svona sterku liði eins og AC Milan, einu besta liði Evrópu, er frábært. Ég trúi þessu ekki ennþá.
Hvaða leikmaður talar mest í búningsklefanum fyrir leiki?
Allir leikmenn bera mesta virðingu fyrir Stevie, Carra og Robbie af því að þeir eru mikilvægir fyrir Liverpool. Þeir eru frábærir leikmenn og frábærar manneskjur. Allir reyna að hjálpa hver öðrum fyrir leik en Carra og Stevie eru mjög mikilvægir.
Hvað sagði Rafa við þig áður en þú fórst inná völlinn í þínum fyrsta leik fyrir Liverpool?
Hann sagði mér bara að fara og gera það sem ég geri og ekkert meira eða minna. Ég reyndi að gera það sem ég gerði fyrir Feyenoord og þetta var stór stund fyrir mig. Ég gat varla beðið eftir þessum leik. Fjölskyldan mín var hérna á vellinum og þetta var sérstök stund fyrir okkur öll.
Og hvernig tilfinning var að skora þitt fyrsta mark fyrir Liverpool?
Það var æðisleg tilfinning. Þegar maður skorar mark þá er það sérstök tilfinning og þú getur varla beðið eftir því að skora fleiri. Það er frábært að skora hérna á Anfield.
Eftir að þú skorar mark þá kyssirðu hendina þína tvisvar. Hvers vegna?
Ég gerði það alltaf í Hollandi, ég kyssi þar sem ég myndi hafa giftingarhringinn, einu sinni fyrir konuna mina og einu sinni fyrir dóttur mína.
Er það rétt að Arjen Robben og Ruud van Nistelrooy sannfærðu þig um að fara til Liverpool?
Ég talaði við fullt af leikmönnum úr hollenska landsliðinu sem hafa spilað á Englandi. Ég talaði við Ruud, Robben, Van Der Saar og Van Persie. Þeir sögðu mér allir að Úrvalsdeildin myndi vera frábær fyrir mig og þeir bættu því við að Liverpool væri mjög fínt félag.
Hefur Úrvalsdeildin verið eins og þú bjóst við?
Mér líkar vel við að spila í hverjum leik gegn frábærum leikmönnum. Í Hollandi spilar þú gegn góðum andstæðingi þegar þú spilar gegn Ajax og PSV en hérna mætirðu sterku liði í hverjum einasta leik. Þú verður að vera á tánum í 90 mínútur til að vinna leik en í Hollandi getur þetta verið ögn léttara.
Fólk er þegar byrjað að bera þig saman við Mark Hughes og Kevin Keegan. Hvað finnst þér um það?
Ég þekki nöfnin en ég hef ekki séð mikið til þeirra. Ég held að þeir hafi verið mjög mikilvægir menn hérna í Englandi á sínum tíma þannig að það er frábært að fólk sé að líkja mér við þá. Ég reyni bara að vinna mina vinnu og gera eins vel og ég get fyrir liðið og skapa mörk. Ég kom ekki til Liverpool fyrir sjálfan mig, ég kom til þess að verða hluti af liðsheild.
Hvaða leikmanns leistu mest upp til þegar þú varst yngri?
Marco van Basten, Ruud Gullit og Frank Rijkaard voru sannar hetjur fyrir mér þegar þeir léku með AC Milan. Ég horfði á mörk með Van Basten um hverja helgi.
Þegar Rafa fékk þig til liðs við sig sagði hann Liverpool aðdáendum að þú mundir koma jafnt með mörk sem stoðsendingar. Er það sambærilegt að leggja upp mark og að skora mark?
Mark gefur þér frábæra tilfinningu en það er mjög mikilvægt að gefa boltann þegar annar leikmaður er í betri stöðu. Það fylgir því líka góð tilfinning að leggja upp mörk en fyrir mér er mikilvægast að vinna leiki.
Hefur þú þurft að aðlaga leik þinn eftir því hvort þú spilar með Craig, Peter eða Robbie?
Allir leikmenn eru misjafnir en við þekkjum hvern annan mjög vel enda æfum við mikið saman þannig að við höfum lært inná hvern annan. Ég held að ég og Bellamy höfum sannað að við náum vel saman og líka ég og Peter í leiknum gegn Galatasaray. Það skiptir ekki máli fyrir mig því við þurfum alla þessa í hópinn ef við ætlum að vinna bikara.
Er það rétt að ferill þinn hefði getað farið út um þúfur?
Ég kem úr fiskiþorpi. Faðir minn var sjómaður sem og menn systra minna. Ég átti að verða sjómaður en knattspyrna var það sem mér líkaði mest við. Þegar ég var 10 ára gamall sagði faðir minn við mig að ég yrði að taka ákvörðun. Hann sagði að ég ætti að gera það sem mig langaði til að gera og ef ég væri sjómaður gæti ég ekki stundað knattspyrnu. Ég held að ég hefði orðið góður sjómaður en ég held samt að ég hafi tekið rétta ákvörðun!
Það eru ekki margir aðdáendur sem vita það að faðir þinn er að berjast við krabbamein í Hollandi. Hvernig hefur hann það og hefur hann séð þig leika fyrir Liverpool?
Hann hafði krabbamein frá maga upp í háls. Hann gekk undir stóra skurðaðgerð fyrir þrem vikum og allt gengur mjög vel núna. Læknarnir segja okkur að þeir hafi náð að hreinsa í burt allt krabbameinið úr líkama hans en við verðum en að biðja og vonast til að þetta hafi heppnast fullkomlega. Hann er að koma til Englands og kemur á Anfield í fyrsta skipti á laugardaginn og sér mig spila gegn Aston Villa (laugardaginn 28. okt). Þetta verður sérstök stund fyrir okkur því fyrir aðgerðina vissum við ekki hvort hann fengi nokkurn tíma að sjá mig spila fyrir Liverpool. Faðir minn hefur haft mikil áhrif á mig og þremur dögum fyrir aðgerðina var ég tilnefndur besti leikmaður ársins í Hollandi og hann mætti þar til að sjá mig. Ég sagði honum hversu mikils virði það hefði verið fyrir mig.
Að lokum Dirk, hver er metnaður þinn hjá Liverpool?
Að vinna bikara. Ég vil spila hérna í mörg ár. Ég hef bara verið hér í tvo mánuði og mér líður strax mjög vel hérna.
Það má lesa af þessu viðtali að Dirk Kuyt er ótrúleg manneskja ekki síður en góður leikmaður. Faðir hans hefur örugglega heyrt á Villa-leiknum þegar Kop söng Dirk til heiðurs gamla Bob Dylan slagarann um Mighty Quinn sem var áður helgaður Emlyn Hughes. "Come all without, come all within, you aint seen nothing like the mighty Kuyt."
Nokkrir áhugaverðir hlekkir:
http://www.youtube.com/watch?v=sUeH-Ce443Y = Faðir hans mætir á verðlaunaafhendinguna hjá syninum
http://www.youtube.com/watch?v=-1xCPgskPDU = Dirk tekur lagið á verðlaunaafhendingunni!
http://www.dirkkuyt.com = Opinber heimasíða Dirk Kuyt
-
| Sf. Gutt
Steven syrgir Sven -
| Sf. Gutt
Harvey Elliott meiddur -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Leikjatilfærslur -
| Sf. Gutt
Fulltrúar Liverpool á EM -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Brighton og Liverpool – Leicester -
| Sf. Gutt
Nýr búningur kynntur -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Frábær úrslit! -
| Sf. Gutt
Merkileg tímamót!