| Sf. Gutt

Jan gæti snúið aftur til Liverpool

Jan Kromkamp hafði vistaskipti fyrir helgina og hélt heim til Hollands eftir ferðalag í gegnum Spán og England. Það gæti þó verið að hann væri ekki búinn að segja sitt síðasta orð á Anfield Road. Jan gæti nefnilega snúið aftur til Liverpool þegar PSV Eindhoven kemur þangað til að leika í Meistaradeildinni í haust. Jan gleðst yfir því að vera kominn heim en er ánægður með að hafa fengið tækifæri til að leika með Liverpool.

"Ég er ánægður með að vera kominn hingað. Það hefur margt gerst á meðan á dvöl minni erlendis hefur staðið og hún hefur verið lærdómsrík. Sumt hefur gengið vel þó svo allt hafi ekki gengið eins og til stóð. Ég mun aldrei gleyma úrslitaleiknum í F.A. bikarnum og ég er stoltur yfir að hafa leikið fyrir hönd Liverpool. En það er gott að vera kominn hingað. PSV hefur gott orð á sér og ég held að ég muni falla vel inn í myndina þar. PSV mun spila í Meistaradeildinni og hefur sterkum liðshópi á að skipa. Ég er heill heilsu og get ekki beðið eftir að byrja að spila."

Liverpool og PSV Eindhoven eru, sem fyrr segir, saman í riðli í Meistaradeildinni. Jan getur leikið gegn Liverpool í leikjum liðanna því hann spilaði ekki gegn Maccabi Haifa í undankeppninni. Hollenskur blaðamaður spurði Jan hvort hann myndi ljóstra upp einhverjum leyndarmálum úr herbúðum Liverpool. Jan svaraði þessu til og mun hafa glott við tönn. "Kannski fræði ég þjálfarann okkar um eitthvað!"

Jan lék 18 leiki með Liverpool og vann einn tiltil með félaginu. Hann varð enskur bikarmeistari á liðnu vori. Hann kom inn sem varamaður gegn West Ham United í síðari hálfleik og lék einn sinn besta leik af þeim leikjum sem hann lék með Liverpool. Hin stutta dvöl hans í Liverpool var því ekki til einskis. Hann hafði að minnsta kosti gullpening heim með sér til Hollands!



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan