| Grétar Magnússon

Kuyt ánægður með frumraunina

Dirk Kuyt var ánægður með frammistöðu sína í sínum fyrsta leik með Liverpool.  Hann hefði þó viljað skora en sagði að sigurinn hefði verið það mikilvægasta þegar upp var staðið.

Kuyt kom inná fyrir Peter Crouch snemma í síðari hálfleik gegn West Ham á laugardaginn og þótti standa sig mjög vel.  Hann var baráttuglaður, kom sér í færi og var duglegur að spila uppi samherja sína.  Því miður náði hann ekki að skora og þar með gulltryggja sigur Liverpool en hann sýndi áhangendum Liverpool hvers er að vænta af honum í framtíðinni.

Kuyt hafði þetta að segja eftir leikinn:  ,,Það hefði verið gaman að skora en sigurinn er það sem skiptir máli."

,,Það var frábært að spila minn fyrsta leik á Anfield og mjög gaman að vinna leikinn."

,,Það hefði verið gaman að skora en það verður að bíða aðeins.  Það mikilvæga í dag var að vinna leikinn og ná í þrjú stig.  Ég er mjög ánægður með að við náðum að klára það."

,,Við erum með frábært lið hér með góðum leikmönnum og það lítur allt út fyrir að við munum eiga gott tímabil."

Rafa Benitez hafði þetta að segja um frammistöðu Kuyt:  ,,Ég held að það sé alltaf tækifæri til að bæta sig.  En þegar maður skoðar frammistöðu hans þá spilaði hann í 40 mínútur og átti þrjú eða fjögur marktækifæri sem er ekki slæmt fyrir sóknarmann.  Ég þurfti ekki að segja honum neitt fyrir leikinn.  Hann er reyndur leikmaður og ég hef trú á honum.  Hann veit hvað þarf að gera.  Hugmynd mín var að hann myndi skjóta á markið og skapa sér færi og hann gerði nákvæmlega það í leiknum.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan