| Sf. Gutt

Maður leiksins

Það er samdóma álit að Mohamed Sissoko hafi verið besti leikmaður vallarins á sunnudaginn þegar Liverpool lagði Chelsea að velli í leiknum um Samfélagsskjöldinn í Cardiff. Eftir leikinn var hann útnefndur Maður leiksins af framkvæmdaaðilum leiksins. Það er ekki oft sem einhver sem ekki hefur skorað eða ráðið úrslitum á annan hátt er valinn besti maður vallarins í úrslitaleikjum. En það var bara ekki annað hægt en að velja Mohamed eftir framgöngu hans á Árþúsundaleikvanginum. Hann átti einfaldlega stórleik á miðjunni hjá Liverpool og leikmenn Chelsea réðu ekkert við hann á köflum. Það er heldur ekki oft sem Rafael Benítez hælir einum manni sérstaklega eftir leik. Það gerði hann þó í þetta skiptið. En hvað hafði Mohmed sjálfur að segja eftir leikinn?

,,Við höfum byrjað vel. Allir lögðust á eitt til að ná þessum sigri og það var mjög mikilvægt. Við lönduðum líka öðrum titli og það skiptir okkur miklu. Chelsea er með gott lið og það eru margir góðir leikmenn í þeirra röðum. En núna vita þeir hversu vel Liverpool getur leikið gegn þeim og þess vegna var þessi leikur mikilvægur.

Ég var ánægður með framgöngu mína en allir leikmennirnir léku vel. Mér gengur enn betur þegar allt liðið leikur vel. Það var gaman að vera valinn Maður leiksins í leik sem við unnum titil í. Þegar stuðningsmennirnir syngja nafnið mitt þá langar mig til að leika alltaf vel fyrir þá. Ég veit ekki af hverju þeim líkar svona vel við mig. Kannski líkar enskum áhorfendum að horfa á leikmenn sem finnst skemmtilegt að vinna boltann í návígjum og leggja hart að sér. Þegar ég fer inn á völlinn er það alltaf aðalmarkmið mitt að gera eins vel og ég get fyrir liðið. Það er alveg frábært þegar svona margir hvetja mig."

Margir sparkspekingar telja Mohamed Sissoko einn efnilegasta miðjumann í heimi. En þessi ungi strákur frá Malí er hógværðin uppmáluð. 

,,Ég tel ekki að ég sé eins góður og Steven Gerrard. Ég fer alltaf á æfingu með það í huga að reyna að læra af þeim Stevie og Xabi Alonso. Þeir eru frábærir miðjumenn. Ég er ennþá bara 21. árs gamall og ég er alltaf að læra eitthvað nýtt. Kannski verð ég, einn góðan veðurdag, talinn álíka góður og þeir."


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan