| Sf. Gutt

Nýliðarnir tryggðu nauman sigur

Nýliðarnir, Craig Bellamy og Mark Gonzalez, tryggðu Liverpool nauman sigur gegn ísraelska liðinu Maccabi Haifa í forkeppni Meistaradeildarinnar í kvöld. Liverpool sneri leiknum sér í hag og vann 2:1 sigur eftir að hafa lent undir. Nestið í seinni leikinn er naumt skammtað og það má ljóst vera að ekkert má bregða út af í seinni leiknum hvar svo sem hann fer fram. Það jákvæðasta við leikinn var framganga þeirra þriggja leikmanna Liverpool sem léku í fyrsta sinn fyrir hönd félagsins. Þeir Craig og Mark skoruðu og Jermaine Pennant var besti maður vallarins. Ekki amaleg byrjun hjá þeim þremenningum.

Bikarmeistararnir byrjuðu rólega þrátt fyrir mikinn og kraftmikinn stuðning áhorfenda sem sungu hástöfum í upphafi leiksins. Kannski var byrjun leikmanna Liverpool svona róleg vegna þess að leikurinn tafðist um tíu mínútur vegna þess að áhorfendur voru venju fremur lengi að koma sér fyrir í Musterinu. Það sköpuðust fá færi framan af og það var ekki fyrr eftir um tuttugu mínútna leik sem Nir Davidovitch þurfti að verja en þá varði hann langskot frá Jamie Carragher. En það kom eins og köld vatnsgusa framan í stuðningsmenn Liverpool þegar gestirnir náðu forystu á 29. mínútu. Gustavo Bokoli slapp þá í gegnum vörn Liverpool og skoraði af öryggi framhjá Jose Reina sem kom á móti honum. Forysta gestanna stóð þó aðeins í fjórar mínútur. Jermaine Pennant tók þá mikla rispu inn á vítateiginn. Hann sendi boltann út á Steven Gerrard sem lagði hann út á Mohamed Sissoko. Malímaðurinn skaut föstu skoti að marki sen Nir varði. Hann hélt ekki boltanum sem barst til Craig Bellamy. Veilsverjinn tók frákastið og skoraði laglega með því senda boltann upp í þaknetið fyrir framan The Kop. Það var sannarlega ekki ónýtt fyrir Craig að skora í sínum fyrsta leik með Liverpool og fögnuður hans sýndi það líka að hann naut þessa augnabliks. Hvaða stuðningsmaður Liverpool myndi ekki vilja skora í sínum fyrsta leik fyrir Liverpool? Ekki náðu leikmenn Liverpool að klekkja frekar á ísraelska liðinu, sem er bísna sterkt, fram að hálfleik.

Leikmönnum Liverpool gekk sem fyrr illa að opna vörn Maccabi Haifa framan að síðari hálfleik. Gestirnir áttu meira að segja gott færi á að komast yfir eftir um það bil klukkutíma leik en þá átti Roberto Colautti skalla sem fór rétt framhjá. Sókn Liverpool fór að ganga betur eftir að þeir Luis Garcia og Peter Crouch komu til leiks. Um stundarfjórðungi fyrir leikslok átti Peter skalla rétt framhjá og litlu síðar átti Jermaine skot úr aukaspyrnu sem fór í varnarvegginn og breytti um stefnu en Nir varði vel. Fimm mínútum fyrir leikslok leysti Mark Gonzalez fyrirliðann af hólmi. Frumraun Chílebúans með Liverpool reyndist ævintýri því aðeins þremur mínútum eftir að hann kom inn á skoraði hann sigurmarkið í leiknum. Xabi Alonso gaf inn á vítateig Maccabi. Boltinn fór yfir Peter að fjærstönginni vinstra megin. Þar náði Mark boltanum og sendi hann í markið úr þröngu færi. Frábærlega vel gert hjá Mark og markinu var skiljanlega fagnað innilega. En sigurinn var ekki í höfn fyrr en Jose Reina var búinn að verja einn á móti einum á lokamínútu leiksins. Sigurinn náðist en hann var í naumasta lagi og leikmenn Liverpool verða að standa vaktina vel í seinni leiknum til að komast í riðalakeppni Meistaradeildarinnar. En nýliðarinir gátu varla byrjað betur og lögðu grunninn að sigrinum.

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Riise,Gerrard (Gonzalez 85. mín.), Sissoko, Alonso, Zenden (Garcia 55. mín.), Pennant og Bellamy (Crouch 65. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek, Kromkamp, Paletta og Peltier.

Mörk Liverpool: Craig Bellamy (33. mín.) og Mark Gonzalez (88. mín.).

Gult spjald: Mohamed Sissoko.

Maccabi Haifa: Davidovitch, Harazi, Olarra, Keinan, Magralishvili, Boccoli, Anderson, Xavier, Masudi (Meshumar 90. mín.), Colautti og Katan (Melicsohn 85. mín.). Ónotaðir varamenn: Al Madon, Kanan, Swan, Hemad og Gazal.

Mark Maccabi Haifa: Boccoli (29. mín.).

Gul spjöld: Magralishvili og Colautti.

Áhorfendur á Anfield Road: 40.058.

Maður leiksins: Jermaine Pennant. Hann átti algeran stórleik í frumraun sinni hjá Liverpool. Hvað eftir annað ruddist hann upp kantinn og lagði til atlögu við bakvörðinn. Sá átti erfiða kvöldstund á Anfield Road enda hrellti Jermaine hann allan leikinn. Frábær leikur hjá útherjanum. 

Rafael Benítez var varkár í yfirlýsingum eftir fyrsta leik leiktíðarinnar. ,,Ég myndi ekki segja að við værum núna líklegri til að fara áfram. En við verðum betri í seinni leiknum. Þá þurfa þeir að sækja á okkur og vonandi vldur það því að við fáum meira pláss. Við stöndum aðeins betur að vígi og þá verðum við komnir í betri æfingu."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan