| AB

Djibril Cissé farinn til Marseille

Djibril Cissé hefur verið lánaður til Marseille í eitt ár. Marseille hefur kost á að kaupa hann fyrir 8 milljónir punda að þeim tíma liðnum. Það segir sitt um áhuga Marseille að þeir skuli fá hann fótbrotinn til liðs við sig.

Djibril lék 79 leiki fyrir Liverpool og skoraði 24 mörk eftir að hafa verið keyptur fyrir metfé frá Auxerre, 14,5 milljónir punda sumarið 2004. Hann fótbrotnaði tvisvar á stuttum ferli sínum með Liverpool en þess utan náði hann aldrei að sannfæra Rafa Benítez um ágæti sitt þrátt fyrir að hafa verið næstmarkahæsti leikmaður Liverpool á síðasta tímabili með 19 mörk í 54 leikjum.

Lyon og Marseille kepptust um undirskrift hans fyrr í sumar þar til hann fótbrotnaði í vináttuleik franska landsliðsins gegn Kína. Marseille ákvað samt að láta slag standa og hyggst kaupa hann ef Cissé nær sér á strik á þessu tímabili eftir að hafa jafnað sig af meiðslunum.

Djibril Cissé var í Berlín á sunnudaginn og fylgdist þar með úrslitaleiknum á heimsmeistaramótinu. Það mátti sjá honum bregða fyrir úti á vellinum eftir leikinn til að hughreysta félaga sína eftir tapið fyrir Ítölum. Hann gekk við hækju en annars leit hann vel út.

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan