| Sf. Gutt

Góður kostur

Fernando Morientes er farinn til Spánar en hann var ekki tilbúinn að yfirgefa Liverpool fyrir hvaða lið sem er. En Valencia, gamla liðið hans Rafael Benítez, uppfyllti það sem hann vildi. Ekki hefur enn verið gefið upp hvað Liverpool fær í sinn hlut við söluna en einhverjar heimildir telja að söluverðið hafi verið um þrjár milljónir sterlingspunda.

,,Það er klárt að ég hefði ekki farið nema félag á borð við Valencia varð valkostur. Ég vildi þetta. Ég átti tvö ár eftir af samningi mínum við Liverpool en þessi möguleiki kom inn í myndina og ég var ekki í vafa um að þetta var eini valkosturinn. Þetta er frábært félag og það er mikið tækifæri fyrir hvaða atvinnumann sem er að fá að spila með liðinu. Þetta er áskorun fyrir mig og ég vil vinna titla með Valencia. Það voru mikil vonbrigði fyrir mig að vera ekki valinn í hópinn sem tekur þátt í heimsmeistaramótinu en ég held að það að ganga til liðs við Valencia hafi læknað þau sárindi."

Fernando varð bikarmeistari í síðasta leik sínum með Liverpool. Hann hefði getað skorað með síðasta sparki sínu með Liverpool því hann átti að taka fjórðu vítaspyrnu liðsins í vítaspyrnukeppninni gegn West Ham United. En landi hans Jose Reina varði spyrnu Anton Ferdinand og Nando slapp því við að taka vítaspyrnuna. Jose sagði eftir leikinn að Nando hefði þakkað honum fyrir að verja svo hann þyrfti ekki að taka vítaspyrnuna!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan