| Grétar Magnússon

Xabi vongóður

Xabi Alonso er vongóður um að hann geti tekið þátt í úrslitaleik FA bikarsins á laugardaginn en segir að biðin eftir því að fá grænt ljós á að leika sé martröð líkust.

Xabi yfirgaf Fratton Park, heimavöll Portsmouth, með umbúðir um ökklan eftir að hafa meiðst í lok fyrri hálfleiks.  Ekki leit vel út með að hann gæti spilað á laugardaginn þegar hann var borinn útaf en Alonso segir þetta ekki eins alvarlegt og það leit út fyrir að vera.

,,Mér líður ekki illa og ég vona að þetta séu ekki alvarleg meiðsli," sagði Alonso sem verður skoðaður á Melwood í dag.

,,Ég veit ekkert fyrr en búið er að skoða mig og ég hef krosslagða putta þangað til eitthvað kemur í ljós."

,,Þegar þetta gerðist var ég mjög áhyggjufullur en ég er bjartsýnni núna.  Ég er mjög bjartsýnn á að ég geti leikið á laugardaginn."

,,Þessi sólarhringur verður martröð en ég verð að vera rólegur og bíða.  Ég get ekkert gert annað en að bíða eftir skoðuninni og vona að útkoman verði í lagi."

Meiðsli Alonso skyggðu á góðan sigur á Portsmouth.  Liverpool hefur ekki náð svo mörgum stigum í deild síðan Úrvalsdeildin var stofnuð árið 1992 og markið sem Peter Crouch skoraði var hundraðasta mark Liverpool í öllum keppnum á tímabilinu.

Ekki tókst að tryggja sjálfkrafa sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar en Alonso segir að liðið hafi bætt sig gríðarlega frá síðasta tímabili og gefur það góð fyrirheit um næsta tímabil.

,,Við getum verið ánægðir því við höfum bætt okkur mikið og við erum mun heilsteyptara lið.  En við viljum ekki hætta núna, við viljum halda áfram að bæta okkur."

,,Hvað sem gerist á laugardaginn þá hefur þetta verið gott tímabil en það hefði getað verið enn betra.  Við vildum vinna Heimsmeistarakeppni félagsliða og komast lengra í Meistaradeildinni."

,,Við eigum hinsvegar úrslitaleikinn í FA bikarnum eftir og auðvitað erum við áfjáðir í að vinna þann leik."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan