| Sf. Gutt

Mark spáir í spilin

Það er bara einn leikur á dagskránni hjá Liverpool í þessari páskahrotu. Sá fer fram á sjálfan páskadaginn sem er ekki hefðbundinn leikdagur. Allt á sér sínar orsakir í þessum efnum. Venjulega er leikið bæði á laugardeginum fyrir páska og svo á öðrum degi páska. En nú ber laugardaginn fyrir páska upp á ártíð harmleiksins á Hillsborough. Allt frá því slysið hræðilega átti sér stað árið 1989 hefur Liverpool reynt að sleppa við að leika þann 15. apríl svo stuðningsmenn, forráðamenn og leikmenn liðsins geti sótt minningarsamkomuna sem haldin er árlega á Anfield Road. Hugsanleg þátttaka Liverpool í undanúrslitum Meistaradeildarinnar gerði það að verkum að Liverpool stóð frammi fyrir því að leika á þessum degi og var búið að tímasetja leikinn síðdegis í dag. En þegar Liverpool féll úr Meistaradeildinni fóru forráðamenn félagsins fram á það við þá sem réðu hjá Blackburn að færa leikinn til um einn dag. Var fúslega orðið við þessum óskum Liverpool og eiga ráðamenn hjá Blckburn þakkir skildar. Liverpool átti svo að leika á heimavelli gegn Fulham á öðrum degi páska en þeim leik var flýtt til að hann væri frá ef Liverpool væri að spila í Meistaradeildinni. Því miður er ekki svo en Liverpool vann leikinn 5:1 eins og allir stuðningsmenn félagsins muna.

Leikurinn við Blackburn verður erfiður. Heimamenn á Ewood Park eru í harðri baráttu um Evrópusæti og Evrópumeistararnir þurfa að ná mjög góðum leik til að ná öllum þeim stigum sem eru í boði á páskunum. En heimamenn þurfa líka að ná mjög góðum leik til að leggja Liverpool að velli. Liverpool vann heimaleikinn 1:0 í haust með marki frá Djibril Cissé. Tvöfaldur sigur kæmi sér vel nú þegar Manchester United fataðist flugið í gær. Varalið Liverpool sótti sigur á Ewood Park nú fyrr í vikunni og vonandi nær aðalliðið að fylgja fordæmi þess. Þýðandi spádóma Mark Lawrenson óskar lesendum gleðilegra páska.

Blackburn Rovers v Liverpool

Blackburn hefur átt mjög vel heppnaða leiktíð. og ég á von á því að þetta verði jafn leikur. Það er erfitt að leika gegn liðinu hans Mark Hughes og Craig Bellamy er búinn að leika frábærlega í síðustu leikjum. Hann mun örugglega reynast vörn Liverpool erfiður ljár í þúfu. Mark Hughes virðist hafa náð því besta út úr Craig Bellamy sem hefur blómstrað á Ewood Park.

Úrskurður: Blackburn Rovers v Liverpool 1:1.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan