| Sf. Gutt

Sérstök númer

Það vakti nokkra athygli í derby leiknum um helgina að einn leikmaður í hvoru liði báru númerið 08 á treyjum sínum. Þetta voru þeir Steven Gerrard og James Beattie sem venjulega eru númer 8 í liðum sínu. En hvernig stóð á því að þeir voru númer 08 í þessum leik?

Ástæðan fyrir þessum númerum var sú að fyrir tveimur árum eða svo var Liverpool valinn Menningarborg Evrópu. Varð borgin valinn sem slík á kostnað Newcastle. Liverpool verður sem sagt ein af Menningarborgum Evrópu árið 2008. Allt frá því Liverpool hlaut útnefningu hefur verið unnið að því sleytulaust, á vegum borgarinnar, að skipuleggja dagskrá með alls kyns menningarviðburðum sem eiga að eiga sér stað á árinu 2008. Auðvitað verða Bítlarnir og eitt og annað tengt þeim í brennidepli en víst er að knattspyrnulið borgarinnar koma líka til að vera í sviðsljósinu. Ekki spillti Evrópubikarsigur Liverpool fyrir því að borgin kæmist í sviðsljósið! Ef ég man rétt þá hlaut Reykjavík samskonar útnefningu og Liverpool fyrir nokkrum árum.

Sú nefnd sem stendur fyrir skipulagningu menningarársins fór þess á leit við forráðamenn Liverpool og Everton að minna á ártalið 2008 og það sem því fylgir með því að bæta núlli fyrir framan átta á keppnistreyjum þeirra Steven Gerrard og James Beattie. Félögin fengu svo sérstakt leyfi frá yfirvöldum Úrvalsdeildarinnar til að bera þessi númer. Steven sagði þetta fyrir leikinn. ,,Borgin Liverpool hefur upp á allt að bjóða sem maður þarfnast. Þar eru frábærir staðir til að skoða og margt að sjá. Derby leiknum verður sjónvarpað um allan heim og ég er mjög ánægður með að geta lagt mitt af mörkum til að auglýsa menningarborgina 2008." Auglýsingar Steven naut þó heldur stutt við en það kom ekki að sök! Til stendur að bjóða treyjurnar tvær upp og á ágóðinn að renna til góðgerðarmála.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan