| Sf. Gutt

Í hnotskurn

Ólán á Old Trafford. Fyrsta tapið í deildinni frá því á fyrsta degi vetrar varð staðreynd. Það var nóg af Evrópubikurum á Old Trafford. Þetta er leikur Liverpool og Manchester United í hnotskurn.

- Sami Hyypia lék sinn 350. leik á ferli sínum með Liverpool.

- Liverpool mátti þola sitt fyrsta deildartap frá því liðið tapaði 2:0 fyrir Fulham í höfuðstaðnum á fyrsta degi vetrar.

- Fyrsti dagur þessa vetrar var 22. október.

- Frá þeim degi höfðu Evrópumeistararnir leikið tólf deildarleiki án taps.

- Það var því kannski ekki skrýtið þótt heimamenn fögnuðu sigrinum trylingslega. En Manchester United slær Liverpool að minnsta kosti ekki út úr Evrópukeppninni á þessari leiktíð!

- Í taplausu leikjunum tólf hafði Jose Reina aðeins fengið á sig þrjú mörk.

- Þótt Liverpool hafi ekki gegnið nógu vel á Old Trafford í gegnum tíðina þá hefur liðið unnið þrjá sigra þar í síðustu sex heimsóknum.

- Danny Murphy tryggði alla þessa þrjá sigra sællar minningar!

- Liverpool tapaði 2:1á Old Trafford á síðustu leiktíð. Mörk heimamanna í þeim leik höfðu sömu uppskrift og markið í þessum leik. Varnarmaður skoraði ódekkaður eftir fast leikatriði. Þá skoraði Mikael Silvestre bæði mörkin. Ég held að það verði að gæta varnarmanna Manchester United vel á þessum velli á næstu leiktíð. 

- Það kom kannski ekki alveg á óvart að Liverpool skyldi ekki ná að skora mark á Old Trafford. Liðsmönnum Liverpool hefur ekki tekist að skora meira en eitt mark í síðustu tíu heimsóknum sínum á þennan völl.

- Varnarleikur Liverpool hefur verið með miklum ágætum á vetrinum. Jose Reina hefur haldið hreinu í tíu af síðustu þrettán leikjum.

- Dómarinn lék hefja leikinn aftur því einn leikmanna heimamanna var kominn inn á vallarhelming Liverpool áður en upphafsspyrnan var tekin.

- Harry Kewell fékk högg á andlitið í fyrri hálfleik svo það blæddi úr nefi hans. Hann fór af velli og kom til leiks aftur í nafnlausri peysu númer 50. Peysan sem hann byrjaði í var orðin blóðug. Eftir leikhlé var hann kominn í nýja peysu með sínu nafni.

- Mohamed Sissoko gaf ekkert eftir í baráttunni. Undir lokin var hann orðin að hluta til hvítur í framan. Hann hafði greinilega lent með andlitið á einhverja af línum vallarins.

- Stuðningsmönnum Liverpool leiddist ekki að minna heimamenn á Evrópubikarsigur sinna manna á liðnu vori. Fjöldi stuðningsmanna Liverpool var með uppblásna Evrópubikara með sér og var þeim óspart hampað.

Manchester United: Van der Sar, Neville, Ferdinand, Brown, Evra, Giggs, Fletcher, O´Shea (Saha 45. mín.), Richardson, Rooney og van Nistelrooy. Ónotaðir varamenn: Howard, Vidic, Silvestre og Rossi.

Mark Manchester United: Rio Ferdinand (90. mín.)

Gul spjöld: Kieron Richardson og Wayne Rooney.

Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Carragher, Riise, Gerrard, Alonso, Sissoko (Kromkamp 89. mín.), Kewell, Crouch (Morientes 59. mín.) og Cissé (Pongolle 75. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek og Traore.

Gul spjöld: Mohamed Sissoko, Xabi Alonso og Steven Gerrard.

Áhorfendur á Old Trafford: 67.874.

Maður leiksins: Jamie Carragher. Þessi magnaði varnarmaður var eins og klettur í vörninni. Það reyndi svo sem kannski ekki mikið á vörnina lengst af. En Jamie var líka óþreytandi við að drífa félaga sína áfram.

Jákvætt :-) Liverpool sýndi góðan styrk lengst af leiknum. Liðsmenn voru grimmir og stjórnuðu gangi mála lengst af í síðari hálfleik. En samt hefði liðið kannski átt að spila enn grimmari sóknarleik. Þessi leikur hefði átt að geta unnist miðað við þau góðu tök sem Liverpool hafði lengst á honum.

Neikvætt :-(  Einbeitingarleysi í vörninni kostaði tap. Gamall draugur frá síðustu leiktíð lét á sér kræla. Liðið fékk á sig mark eftir fast leikatriði. Það hefur sem betur fer ekki gerst oft á þessari leiktíð en þarna gerðist það á versta tíma. Var einhver þörf á að skipta Mohamed Sissoko út af? Mér fannst óþarfi að gera það alveg í lokin og kannski riðlaði það stöðu manna í vörninni. Jan Kromkamp var líka ekki alveg kominn í takt þegar markið dýrkeypta kom. Eins var ömurlegt að horfa upp á dómarann dæma aukaspyrnuna sem gaf markið. Það var ekkert til að dæma á. Djibril Cissé fór hroðalega að ráði sínu þegar hann fékk þetta fína dauðafæri. Það var næstum óskiljanlegt að hann skyldi ekki ná að skora. Liverpool átti aldrei að tapa þessum leik.

Umsögn Liverpool.is um leikinn: Jafnt var á með liðunum í fyrri hálfleik en það var hart barist úti um allan völl og leikmenn fengu lítinn tíma til að athafna sig með boltann. Liverpool byrjaði þó að ná yfirhöndinni á lokakafla hálfleiksins. Djibril Cissé hitti ekki boltann í góðu færi einn gegn markverði heimamanna eftir frábæra sendingu frá Steven Gerrard. Wes Brown komst svo fyrir skot frá Peter Crouch sem var vel staðsettur eftir að Djibril hafði skallað boltann vel til hans. Marki Liverpool var vart ógnað svo heitið gæti í hálfleiknum. En Evrópumeistararnir tóku völdin í upphafi síðari hálfleiks og stjórnuðu gangi mála langt fram í hálfleikinn. Eini gallinn var að það gekk illa að skapa einhver marktækifæri. Besta færi leiksins kom eftir um það bil klukkutíma leik. Eftir fyrirgjöf Mohamed Sissoko bjargaði Rio Ferdinand á marklínu frá Djibrils Cissé. Boltinn barst til Harry Kewell sem þrumaði að marki Edwin van der Sar varði vel en hélt ekki boltanum. Boltinn lenti við fætur Djibril sem mokaði boltanum yfir úr dauðafæri. Frakkinn fær líklega ekki betra færi það sem eftir er þessarar leitkíðar. Heimamenn sem höfðu leikið illa lengst af náðu besta leikkafla sínum síðustu tíu mínúturnar eða svo. Ruud Van Nistelrooy átti máttlítið skot beint á Jose Reina og Wayne Rooney átti gott langskot sem fór rétt framhjá. Undir lokin sparkaði Wayne Florent Sinama Pongolle viljandi niður þegar Frakkinn var við að komast í hættulega stöðu í skyndisókn. Ekkert hefði verið hægt  að segja við því ef Waynne hefði verið rekinn úf velli því ásetningur hans var svo augljós. Á lokamínútunni fékk Manchester United ódýra aukaspynu á vinstri kantinum á móts við vítateignn. Persónulega þá fannst mér þessi aukaspyrna út í bláinn en dæmt var á bakhrindingu Steve Finnan á einum leikmanna Manchester United. Ryan Giggs tók aukaspyrnuna. Rio Ferdinand komst óhindraður að boltanum og skallaði í markið. Jose Reina hafði hendur á boltanum en náði ekki að verja. Varnarmenn Liverpool sváfu illa á verðinum og niðurstaðan varð í hæsta máta ósanngjörn!

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan