| Sf. Gutt

Jólatörninni lauk með jafntefli gegn Bolton

Jóla- og áramótatörninni lauk með 2:2 jafntefli á útivelli gegn Bolton síðdegis í gær á níunda degi jóla. Liverpool lenti tvívegis undir en náði jöfnu. Liverpool náði þar með tíu stigum af tólf mögulegum nú yfir hátíðarnar. Evrópumeistararnir hefðu átt að ná sigri en kannski var jafntefli ekki ósanngjarnt því leikmenn Bolton börðust eins og ljón allan leikinn.

Evrópumeistararnir voru daufir í byrjun leiks en heimamenn voru þeim mun grimmari og þeir komust yfir á 10. mínútu. Markið kom eftir mikil mistök hjá hinum trausta Jose Reina sem er búinn að vera svo öruggur síðustu vikurnar. Hann náði ekki að grípa auðvelda fyrirgjöf eftir aukaspyrnu. Spánverjinn reyndi að ná boltanum aftur en misskilningur milli hans og Sami Hyypia gaf Túnisbúanum Radhi Jaidi færi á að skalla í markið. Þessi mistök í vörninni komu mjög á óvart eftir hið mikla öryggi sem hún hefur sýnt síðustu tvo mánuðina. Leikmenn Liverpool hresstust eftir að hafa lent undir og Jussi Jaaskelainen varði vel fast langskot frá Dietmar Hamann. Heimamenn voru svo nærri búnir að auka forystuna þegar Radhi Jaidi komst í gott færi en Steve Finnan komst fyrir skot hans á síðustu stundu. Enn bjargaði Jussi heimamönnum þegar hann sló bylmingsskot Djimi Traore yfir á snilldarlegan hátt. Heimamenn voru því enn yfir þegar hálfleiknum lauk. Mikill hiti var í mönnum á köflum og nokkur umdeild atvik áttu sér stað. Til dæmis vildu heimamenn fá vítaspyrnu eftir brot Jamie Carragher. Eitthvað var líklega til í þeirri kröfu.

Liverpool átti síðari hálfleikinn eins og hann lagði sig. Það var þó ekki fyrr en á 67. mínútu að liðið náði að jafna. Steven Gerrard ruddist þá inn í vítateig heimamanna. Þar klippti Joey O´Brien hann niður. Að sjálfsögðu var dæmd vítaspyrna. Steven tók spyrnuna sjálfur og skoraði af miklu öryggi. Fyrsta mark Liverpool á árinu 2006 leit þar með dagsins ljós. Allt virtist nú stefna í að Liverpool ætti að geta herjað fram sigur á lokakafla leiksins. En Bolton komst aftur yfir upp úr þurru á 71. mínútu. Kevin Davies slapp þá upp vinsti kantinn og gaf fyrir. Þar kom Senegalinn El Hadji Diouf og náði af öllum mönnum einhvern vegin að koma boltanum í markið af markteig. Varnarmenn Liverpool og Jose voru ekki vel á verði frekar en í fyrra markinu. Leikmenn Liverpool voru óánægðir með markið því þeir töldu Kevin hafa verið rangstæðan þegar hann slapp í gegn. Virtust þeir hafa rétt fyrir sér í þeirri kröfu. En El Hadji fagnaði markinu, gegn sínu gamla félagi, af miklum móð. Hann átti stuttu eftir markið skot í hliðarnetið úr góðu færi. En leikmenn Liverpool létu ekki slá sig út af laginu og héldu áfram að sækja. Á 82. mínútu bar sóknin árangur. Xabi Alonso sendi inn á teiginn á landa sinn Luis Garcia. Hann tók boltann frábærlega niður með brjóstkassanum og hamraði hann svo viðstöðulaust í markið. Glæsilegt mark hjá Luis sem þarna náði að fagna marki á Reebok leikvanginum eftir að réttmætt mark var dæmt þar af honum á síðustu leiktíð. Leikmenn Liverpool reyndu að ná öllum stigunum en það tókst ekki. Þeir voru nærri því búnir að ná sigurmarkinu þegar Djibril Cissé skallaði hárfínt framhjá undir lok leiksins.  Jafntefli var kannski nokkuð sanngjarnt í þessum mikla baráttuleik. 

Bolton: Jaaskelainen, O´Brien, Jaidi, N´Gotty, Gardner, Faye, Nolan, Giannakopoulos, Speed (Fadiga 90. mín.), Diouf (Ben Haim 83. mín.) og Davies. Ónotaðir varamenn: Walker, Borgetti og Vaz Te.

Mörk Bolton:  Radhi Jaidi (10. mín.) og El Hadji Diouf (71. mín.). 

Gul spjöld: Abdoulaye Faye og Kevin Nolan

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Traore, Gerrard, Hamann (Alonso 64. mín.), Sissoko (Cissé 83. mín.), Kewell, Pongolle (Garcia 62. mín.) og Crouch. Ónotaðir varamenn: Carson og Riise.

Mörk Liverpool: Steven Gerrard, víti (67. mín.) og Luis Garcia (82. mín.).

Gul spjöld: Peter Crouch, Jamie Carragher og Mohamed Sissoko.

Áhorfendur á Reebok leikvanginum: 27.604.

Rafael Benítez var ósáttur við að Liverpool skyldi ekki ná að vinna leikinn. "Við gerðum mistök þegar fyrsta markið í leiknum kom en við stóðum okkur vel í síðari hálfleik. Það voru nokkrir leikmanna okkar þreyttir og við reyndum að nota óþreytta menn. Þeir Luis Garcia og Xabi Alonso unnu vel að jöfnunarmarkinu. En ég er mjög vonsvikinn yfir því að við skyldum ekki ná að vinna leikinn."

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan