| Sf. Gutt

Af endurkomu Michael Owen

Endurkoma Michael Owen til Liverpool var mikið til umfjöllunnar fyrir jólin. Miklar vangaveltur voru, fyrir leikinn, um hvernig honum yrði tekið þegar hann myndi snúa aftur. Nú er það vitað. Nokkrir stuðningsmenn Liverpool bauluðu þegar nafn hans var lesið upp fyrir leikinn. Eins mátti heyra svipuð viðbrögð þegar Michael snerti boltann í fyrsta sinn í leiknum.

Þrátt fyrir þessi viðbrögð þá skal tekið fram að mikill meirihluti áhorfenda klappaði fyrir Michael fyrir leikinn. En þrátt fyrir að stuðningsmenn Liverpool séu þekktir fyrir að taka vel á móti fyrrum leikmönnum liðsins þá eru viðbrögðin í gær ekki alveg einsdæmi. Sumir bauluðu til dæmis á Steve McManaman þegar hann sneri aftur á Anfield Road til að leika þar með Manchester City á sínum tíma. 

Newcastle lék í átt að The Kop í fyrri hálfleik og Michael fékk að kenna á stríðni áhorfenda þar. Þegar hann nálgaðist stúkuna frægu í fyrsta sinn í leiknum sungu áhorfendur þar "Hvar varst þú þegar við vorum í Istanbúl?!, "Where were you in Istanbul?" Eins kyrjuðu áhorfendur "Þú hefðir átt að ganga til liðs við stórlið", "You should have joined a big club". Michael fékk þessar glósur til gamans en líka til áminningar því það felst nokkur sannleikur í þessum orðum.

Steven Gerrard var ekki alls kostar ánægður með viðbrögð þeirra stuðningsmanna Liverpool sem bauluðu á Michael fyrir leikinn. Steven hafði þetta að segja eftir leik. "Ég er vonsvikinn. Hann ætti að vera talinn goðsögn hér vegna allra markanna sem hann skoraði fyrir okkur í gegnum tíðina. Honum var misjafnlega tekið. Ég held að það hafi ekki verið baulað ýkja mikið á hann en hann varðskuldar að það hefði verið staðið á fætur og klappað fyrir honum."

Hver stuðningsmaður Liverpool getur svarað fyrir sig hvort það hefði verið við hæfi að baula eða klappa þegar Michael Owen var kynntur til sögunnar á Anfield Road í fyrsta sinn eftir að hann yfirgaf félagið. Hvernig bera að túlka hin ýmsu viðbrögð stuðningsmanna Liverpool á öðrum degi jóla? Þessar eru staðreyndir málsins.

Michael Owen lék 297 leiki með Liverpool og skoraði 158 mörk.

Michael Owen vann fimm titla með Liverpool og varð markakóngur félagsins sjö leiktíðir í röð.

Michael Owen fór til Real Madrid í ágúst 2004. Hann gat verið áfram hjá Liverpool. Hann valdi sjálfur að fara frá Liverpool.

Michael Owen stóð sig nokkuð vel en hann bætti ekki ekki við verðlaunasafn sitt í Madríd. 

Michael Owen fór til Newcastle United í ágúst 2005. Hann gat gengið til liðs við Liverpool. Hann valdi sjálfur að koma ekki aftur til Liverpool.

Frá því Michael Owen yfirgaf Liverpool þá hefur Rafael Benítez leitt Rauða herinn til sigurs í Evrópubikarnum og Stórbikar Evrópu. Eins stýrði hann Liverpool í heimsmeistarakeppni félagsliða þar sem liðið varð í öðru sæti og gat sér gott orð.

Hvað skyldi Michael sjálfum hafa fundist í gær? Hvað hugsaði hann þegar áhorfendur á The Kop spurðu hann hvar hann hefði verið þegar úrslitaleikurinn fór fram í Istanbúl í vor? Kannski hefur hvarflað að honum að hann hefði átt að ganga til liðs við Evrópumeistaranna nú í sumar? Hver veit?

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan