| Sf. Gutt

Sæti í úrslitaleiknum tryggt og nýtt félagsmet sett!

Fyrstu hindrun rutt úr vegi. Liverpool tryggði sér, nú um hádegisbilið, sæti í úrslitaleiknum um Heimsmeistaratitil félagsliða eftir 3:0 sigur á Deportivo Saprissa frá Kosta Ríka. Liverpool lék mjög vel í Yokohama og vann öruggan sigur. Á sunnudagsmorguninn leikur liðið svo til úrslita við brasilíska liðið Sao Paulo. En það var ekki nóg með að Liverpool tryggði sér sæti í úrslitaleiknum. Liðið setti um leið nýtt félagsmet. Liverpool lék sinn ellefta leik í röð án þess að fá á sig mark. Metið, sem hefur staðið frá leiktíðinni 1988/87 féll því í Japan af öllum stöðum.

Liverpool fékk óskabyrjun. Strax á 3. mínútu vann Djibril Cissé boltann rétt utan vítateigs. Hann sendi boltann á John Arne Riise. Norðmaðurinn sendi inn á teiginn. Þangað var Djibril kominn og hann lagði boltann fyrir Peter Crouch sem skoraði af öryggi með viðstöðulausu skoti. Fyrsta mark Liverpool í Heimsmeistarakeppni félagsliða hafði litið dagsins ljós í þriðju atrennu. Liverpool tók öll völd í framhaldi af þessu og markvörður Deportivo varði vel skalla frá John Arne Riise. Margar sóknir Liverpool voru hraðar og vel útfærðar. En upp úr þurru fengu Fjólubláu skrímslin upplagt færi á að jafna leikinn. Alvaro Saborio slapp þá í gegnum vörn Liverpool en skaut framhjá. Liverpool refsaði Mið Ameríkumeisturunum grimmilega fyrir þetta því á 32. mínútu skoruðu Evrópumeistararnir sitt annað mark. John Arne Riise sendi þá frábæra sendingu fyrir markið. Steven Gerrard æddi upp að vítateig Deportivo og tók boltann þar viðstöðu laust á lofti og hamraði hann í stöng og inn í markið. Frábært mark hjá fyrirliðanum. Yfirburðir Liverpool voru algerir fram að hálfleik og útlitið var sannarlega gott þegar flautað var til hálfleiks.

Liverpool byrjaði síðari hálfleikinn vel og Djibril Cissé skallaði rétt framhjá úr góðu færi. Á 58. mínútu gerðu Evrópumeistararnir endanlega út um leikinn. Peter Crouch vann þá boltann af varnarmanni Deportivo. Hann lék svo inn í vítateiginn og skoraði af miklu öryggi framhjá markverðinum. Liverpool réði lögum og lofum lengst af en á síðasta stundarfjórðungi leiksins slökuðu liðsmenn á og leikmenn Deportivo Saprissa færðu sig upp á skaftið. Til leiksloka fólst mesta spennan í því hvort Liverpool næði að slá félagsmetið. Jose Reina varði tvívegis vel og varnarmenn Liverpool björguðu nokkrum sinnum á síðustu stundu. Josemi bjargaði til dæmis tvívegis í sömu sókninni. Liverpool átti góðar skyndisóknir og það var vel varið frá Florent Sinama Pongolle. En félagsmetið féll og sigur Liverpool var öruggur.

Liverpool er nú komið yfir fyrri hindrunina á leið liðsins að Heimsmeistaratitli félagsliða. Seinni hindrunin bíður á sunnudaginn og víst verður miklu erfiðara að yfirstíga hana en þá fyrri. En það er vonandi að Liverpool nái að verða heimsmeistari á sunnudaginn. Allt er þegar þrennt er.

En það er ekki að spyrja að stuðningsmönnum Liverpool. Talið er að á annað þúsund stuðningsmenn Liverpool hafi lagt leið sína til Japans! Þeir studdu vel við bakið á liðinu sínu með því að syngja hátt og mikið. Ekki er ólíklegt að það bætist í hóp stuðningsmannanna fyrir úrslitaleikinn á sunnudaginn.

Liverpool: Reina, Josemi, Hyypia (Garcia 72. mín.), Carragher, Traore, Gerrard (Pongolle 64. mín), Sissoko, Alonso (Hamann 79. mín.), Riise, Crouch og Cissé. Ónotaðir varamenn: Dudek, Carson, Finnan, Kewell, Morientes og Warnock.

Mörkin: Peter Crouch (3. og 58. mín.) og Steven Gerrard (32. mín.)

Deportivo Saprissa: Porras, Cordero, Ronald Gonzalez, Jervis Drummond, Badilla, Bennett, Bolanos, Centeno, Azofeifa, Gomez og Saborio. Varamenn: Parks, Aleman, Brenes, Solis, Esquivel, Nunez, Phillip, Lopez, Fausto Gonzalez og Gerald Drummond, Navas, Fonseca.

Áhorfendur í Yokohama: 43.902.

Rafael Benítez var stoltur af liðinu sínu eftir leikinn. "Ég tel að þetta sé mjög gott afrek. Ég er ánægður með úrslitin en ég veit að við þurfum að leika miklu betur í úrslitaleiknum á sunnudaginn."

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan