| Sf. Gutt

Til hamingju!

Í gær lék Írinn Steve Finnan sinn eitthundraðasta leik fyrir hönd Liverpool. Það fer lítið fyrir Steve en hann er mjög traustur og hann vinnur sín verk af samviskusemi. Hann kom til Liverpool frá Fulham sumarið 2003. Hann byrjaði vel en eftir meiðsli fann hann sig ekki og missti um tíma stöðu sína. Sumarið 2004 var talið mjög líklegt að hann yrði seldur en Steve setti undir sig hausinn og náði að festa sér stöðu hægri bakvarðar. Hann fann sig mjög vel í stöðunni og það var mál sparkspekinga að hann hefði verið besti hægri bakvörður í Bretaveldi á síðustu leiktíð. Sú leiktíð endaði svo með Evróputitli og Steve átti sannarlega sinn þátt í þeim titli.

Í þeim eitthundrað leikjum sem Steve hefur spilað með Liverpool hefur hann náð að skora eitt mark. Steve er fastamaður í írska landsliðshópnum. Hann hefur spilað 38 landsleiki.

Það fer jafnan lítið fyrir Steve en hann hefur sýnt að hann býr yfir viljastyrk. Kannski er stöðugleiki helsta einkenni hans. Hann á kannski sjaldan stjörnuleiki en það er líka sjaldgæft sem hann stendi ekki fyrir sínu. Nú um stundir er hann besti kostur í stöðu hægri bakvarðar hjá Evrópumeisturunum. Hann hefur líka sýnt að hann getur leikið hægra megin á miðjunni. Það er þó ekki staða sem er Íranum eiginleg. Steve, sem hefur að auki leikið með Welling, Birmingham City, Notts County og Fulham, hefur þá merkilegu ferilsskrá að hafa orðið deildarmeistari í þremur deildum á Englandi. Úrvalsdeildina vantar í safnið og vonandi nær Steve að fullkomna safnið áður en hann yfirgefur Liverpool!

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan