| HI

Markalaust í skemmtilegum leik

Liverpool sótti stig á White Hart Lane í skemmilegum leik í gær. Bæði lið fengu góð færi til að skora en ekkert löglegt mark leit dagsins ljós. Peter Crouch kom í byrjunarlið Liverpool og það var ánægjulegt að Rafael skyldi stilla upp tveimur sóknarmönnum. Sjö af leikmönnunum sem byrjuðu Stórbikarleikinn hófu þennan leik.

Leikurinn byrjaði frekar rólega. Hraðinn jókst þó þegar leið á hálfleikinn. Fá færi komu í fyrri hálfleik. Peter Crouch skallaði þó rétt yfir en Tottenham fékk besta færi hálfleiksins. Jose Reina varði þá frábærlega fasta aukaspyrnu frá Edgar Davids. Pólverjinn Grzegorz Rasiak tók frákastið en skalli hans datt ofan á þverslána.

Í síðari hálfleik æstist leikurinn. Liverpool byrjaði mjög vel. Enski landsliðsmarkvörðuinn Paul Robinson mátti hafa sig allan við að verja tvö föst langskot frá þeim Djibril Cissé og John Arne Riise. Litlu síðar átti John Arne viðstöðulaust bylmingsskot sem fór í þverslána og niður. Þetta hefði orðið sannkallað glæsimark. Af og til sést eitthvað nýtt í knattspyrnunni. Bæði lið skoruðu áþekk mörk sem voru dæmd af fyrir sömu sakir og það sjaldgæfar. Fyrst skoraði Grzegorz Rasiak með skalla eftir hornspyrnu. Línuvörðurinn veifaði flaggi sínu til merkis um að boltinn hefði farið aftur fyrir endalínu. Hinn línuvörðurinn dæmdi svo það sama hinu megin á vellinum þegar Peter Crouch skoraði eftir hornspyrnu. Ekkert mark var því skorað en það var nóg af færum. Jafntefli var nokkuð sanngjörn niðurstaða.

Liverpool náði ekki að skora og liðið hefur nú aðeins skorað eitt mark í þremur fyrstu deildarleikjunum. Á móti kemur að Jose Reina hefur haldið markinu hreinu í deildinni hingað til.

Tottenham: Robinson, Stalteri, King, Gardner, Lee, Lennon (Brown 82. mín.), Jenas, Carrick, Davids, Rasiak (Keane 82. mín.) og Defoe. Ónotaðir varamenn: Cerny, Naybet og Reid.

Gult spjald: Edgar Davids.

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Warnock (Alonso 69. mín.), Garcia, Hamann (Sissoko 45. mín.), Gerrard, Riise, Cissé og Crouch (Traore 77. mín.). Ónotaðir varamenn: Carson og Josemi.

Gult spjald: Sami Hyypia.

Áhorfendur á White Hart Lane: 36.148.

Rafael Benítez var ánægður með frammistöðu Liverpool gegn Tottenham en fannst þó að með heppni hefði liðið getað farið með sigur af hólmi.

„Ég vel alltaf lið í þeim tilgangi að ná þremur stigum og við hefðum getað unnið leikinn með þeim marktækifærum sem við sköpuðum. Riise var óheppinn að skjóta í þverslána og við fengum fleiri tækifæri, en við héldum líka hreinu aftur og erum að sýna meiri stöðugleika á útivelli núna.

Mér fannst Crouch og Cisse spila vel saman frammi og þeir voru óheppnir að skora ekki. Cissé kemur með hlaupin á meðan Crouch vinnur skallabolta og heldur boltanum. Crouch mun hjálpa okkur að vinna bolta sem við unnum ekki á síðasta tímabili og hann mun bæta sóknina.

Tottenham er gott lið með góðan hóp og góðan framkvæmdastjóra. Þeir stefna að því að vera meðal fjögurra efstu liða eins og við en við viljum stefna mun hærra.“

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan