Sannfærandi sigur!

Liverpool vann sannfærandi 1:0 sigur á Real Madrid á Anfield Road í kvöld. Þó einungis eitt mark skildi liðin voru Englandsmeistararnir miklu betri allan tímann.
Florian Wirtz kom inn í byrjunarliðið en annars var liðið óbreytt frá því í sigurleiknum á móti Aston Villa. Segja má að Evrópukvöld hafi legið í loftinu fyrir leikinn því stuðningsmenn Liverpool sungu þjóðsönginn á þunga og bauluðu af krafti á söng keppninnar. Segja má að það sé orðin hefð eftir sirkusinn í París fyrir úrslitaleikinn í Meistaradeildinni 2022.
Fyrsta afgerandi færi leiksins kom á 28. mínútu. Florian sendi á Dominik Szoboszlai sem komst inn í vítateiginn þar sem hann reyndi að sneiða boltann framhjá Thibaut Courtois en Belginn varði með frábæru úthlaupi. Rétt á eftir átti Dominik bylmingsskot sem fór í hendina á Aurélien Tchouameni. Fyrst dæmdi dómarinn aukaspyrnu rétt utan vítateigs. Svo fór hann að horfa á sjónvarpið og áttu flestir von á að hann myndi breyta dómnum í víti enda hendinn fyrir innan vítateig. Þess í stað dæmdi hann hvorugt og Real fékk boltann. Frekar undarlegt!
Á 43. mínútu náði Dominik þrumuskoti rétt utan teigs en Thibaut varði glæsilega með því að henda sér til hægri. Tveimur mínútum seinna fékk Real sitt fyrsta færi. Giorgi Mamardashvili varði þá með fæti frá Jude Bellingham sem komst í væri við markteiginn vinstra megin. Sókn Real hélt áfram og Arda Guler skaut utan teigs en Georgíumaðurinn varði aftur. Vel gert hjá honum. Í viðbótartímanum varði Thibaut vel fast skot frá Alexis Mac Allister Ekkert mark í hálfleik en Liverpool búnir að að vera stórgóðir!
Liverpool hélt áfram á sömu braut eftir hlé. Á 48. mínútu skallaði Virgil van Dijk eftir horn frá vinstri en Belginn varði. Rétt á eftir varði hann aftur og enn nú skalla frá Hugo Ekitike. Frakkinn átti svo aftur skalla eftir hornið sem fylgdi en nú fór boltinn rétt framhjá. Líklega hugsuðu margir stuðningsmenn Liverpool til úrslitaleiksins í París þegar Thibaut vann Evrópubikarinn með ótrúlegum markvörslum.
En á á 61. mínútu kom hann ekki vörnum við. Dominik tók aukaspyrnu utan við hægra vítateigshornið. Hann sendi fast fyrir markið og hitti beint á Alexis sem hamraði boltann í markið með höfðinu. Skallinn fór baint á Thibaut en hann var svo fastur að ekkert var við ráðið.
Þegar 15. mínútur voru eftir fékk Kylian Mbappe skotfæri í vítateignum en hann hitti ekki markið. Sex mínútum seinna var Trent Alexander-Arnold skipt inn fyrir Arda. Óhætt er að segja að hann hafi fengið að heyra það frá stórum hluta stuðningsmanna Liverpool! Einhverjir klöppuðu þó fyrir honum.
Þremur mínútum fyrir leikslok lagði Mohamed Salah upp færi fyrir varamanninn Cody Gakpo en skot hans fór beint á Thibaut. Mohamed náði frákastinu en einn leikmanna Real komst fyrir skot hans. Stuðningsmenn Liverpool gátu sannarlega fagnað í leikslok. Fyllilega sanngjarn sigur í alla staði!
Liverpool hélt áfram þaðan sem frá var horfið gegn Aston Villa. Liðið spilaði stórvel og þetta var án nokkurs vafa besti leikur liðsins á leiktíðinni. Áfram með smjörið!
Maður leiksins: Alexis Mac Allister. Argentínumaðurinn er útnefndur fyrir að skora sanngjarnt sigurmark. Hann er búinn að eiga erfitt uppdráttar það sem af er leiktíðar en nú sýndi hann sitt rétta andlit. Það munar um minna.
Áhorfendur á Anfield Road: 59.916.
Fróðleikur
- Alexis Mac Allister skoraði fyrsta mark sitt á leiktíðinni.
- Alexis skoraði líka gegn Real á síðustu sparktíð þegar Liverpool vann 2:0 á Anfield.
- Aldrei áður í sögunni hafa verið fleiri áhorfendur á Evrópuleik á Anfield.
- Þetta var í 13. skipti sem liðin hafa leitt saman hesta sína í keppni þeirra bestu í Evrópu.
-
| Sf. Gutt
Varð bara að skalla boltann! -
| Sf. Gutt
Mun alltaf elska Liverpool! -
| Sf. Gutt
Óheppnasti leikmaður í heimi? -
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Verðum að leggja harðar að okkur! -
| Sf. Gutt
Jeremine Frimpong meiddur -
| Sf. Gutt
Vildi sýna öllum virðingu -
| Sf. Gutt
Alisson meiddur -
| Sf. Gutt
Curtis með met! -
| Sf. Gutt
Stórsigur í Þýskalandi!

