| Sf. Gutt

Hugo Ekitike semur við Liverpool

Hugo Ekitike er búinn að semja við Liverpool. Franski sóknarmaðurinn kemur frá þýska liðinu Eintracht Frankfurt. Liverpool borgar 69 milljónir sterlingspunda fyrir Hugo til að byrja með en svo gætu aðrar tíu milljónir bæst við ef tiltekin ákvæði taka gildi. Kaupin gengu fljótt fyrir sig því í raun var það bara núna í mánuðinum sem Frakkinn var fyrst orðaður við Liverpool. Hann gerði sex ára samning við Liverpool. 

Hugo er fæddur 20. nóvember 2002 í Reims í Frakklandi. Hann æfði fyrst sem strákur með Cormontreuil FC en fór svo til Stade de Reims. Hann gerði sinn fyrsta atvinnumannasamning við Reims 2020. Hugo lék sinn fyrsta leik með liðinu á leiktíðinni 2020/21. Í janúar 2021 var hann lánaður til danska liðsins Vejle. Hann skoraði þrjú mörk í 11 leikjum fyrir liðið. Á keppnistímabilinu 2021/22 vakti Hugo fyrst verulega athygli en þá skoraði hann 11 mörk fyrir Reims.

Sumarið 2022 var Hugo lánaður til Paris St Germain. Hann lék þó nokkuð þá sparktíð og varð franskur meistari. Fyrir næstu leiktíð 2022/23 keypti Paris hann. En þá kom hann aðeins við sögu í einum leik áður en hann var lánaður til Eintracht Frankfurt í febrúar 2023. Honum gekk nokkuð vel til vors og skoraði fjögur mörk í þýsku deildinni.

Sumarið 2024 keypti Eintracht Frankfurt Hugo. Frakkinn blómstraði í framlínu þýska liðsins og skoraði 22 mörk í öllum keppnum. Svo vel lék hann að hann var valinn í úrsvalslið deildarinnar í lok leiktíðar.

Hugo Ekitike, sem er stór og fljótur, hefur leikið með franska undir 20 ára landsliðinu og eins undir 21. árs liðinu. Faðir hans er franskur en móðir hans er frá Kamerún. Hann gæti því líka leikið fyrir hönd Kamerún.

Segja má að Liverpool taki nokkra áhættu í því að kaupa Hugo. Í raun hefur hann ennþá sem komið er bara leikið eina verulega góða leiktíð. Liverpool hefur aldrei áður borgað jafn háa upphæð fyrir svona ungan leikmann.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan