Evrópumeistararnir teknir í gegn!
Segja má að Liverpool hafi tekið Evrópumeistara Real Madrid í gegn á Anfield Road í kvöld. Liverpool vann 2:0 og er enn með fullt hús í efsta sæti Meistaradeildarinnar.
Það vantaði ekkert upp á stemmninguna í Musterinu þegar leikmenn Liverpool og Real Madrid gengu til leiks. Segja mátti að Liverpool hefði harma að hefna enda ekki unnið Real í síðustu átta leikjum. Eitt jafntefli hafði verið í þessum átta leikjum en hina sjö vann Real. Þar af tvo úrslitaleiki ósanngjart!
Liverpool byrjaði af krafti og fyrsta færið kom eftir fjórar mínútur. Liverpool sneri vörn í sókn. Mohamed Salah sendi fram á Darwin Núnez. Hann komst inn í vítateiginn hægra megin og skaut út í vinstra hornið. Thibaut Courtois varði vel en hélt ekki boltanum sem rakst í varnarmanninn Raul Asencio. Boltinn fór af Raul og stefndi í markið en hann náði að bjarga á línu á allra síðustu stundu.
Liverpool tók völdin og átti góðar sóknir. Á 23. mínútu var atgangur í vítateig Real. Boltinn hrökk til Darwin sem náði skoti af stuttu færi en boltinn fór beint á Thibaut sem bjargaði. Rúmum tíu mínútum seinna var Darwin enn ágengur. Alexis Mac Allister lyfti boltanum inn í vítateiginn á Darwin sem náði að skalla framhjá Belganum í markinu en boltinn fór hárfínt framhjá fjærstönginni. Góður skalli hjá Darwin og hann var óheppinn að skora ekki. Markalaust í hálfleik.
Liverpool sótti að Kop stúkunni eftir hlé og boltinn hafnaði í markinu fyrir framan þessa frægu stúku þegar sjö mínútur voru liðnar. Alexis fékk boltann fyrir utan vítateiginn og spilaði þríhyrning við Conor Bradley. Argentínumaðurinn fékk boltann inn í teiginn til hægri og sendi hann svo neðst út í fjærhornið. Nú átti Thibaut ekki möguleika. Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu ógurlega og full ástæða til.
Þvert gegn gangi leiksins fékk Real tækifæri til að jafna eftir klukkutíma þegar dæmt var víti á Andrew Robertson sem talinn var hafa brotið á Lucas Vázquez. Reyndar var dómurinn mjög harður því Lucas lét sig detta eftir litla snertingu. Kylian Mbappé tók vítið og sparkaði út í hægra hornið en Caoimhin Kelleher henti sér í rétt horn og varði af öryggi. Annar leikurinn í röð sem Írinn ver víti. Algjörlega magnað hjá honum!
Tíu mínútum seinna felldi Ferland Mendy Mohamed inni í vítateig Real og víti dæmt. Mohamed tók vítið og skaut út til vinstri. Það lá nærri að áhorfendur fögnuðu en boltinn fór í utanverða stöngina og framhjá. Það var varla hægt að trúa því að boltinn hefði ekki farið í markið.
Cody Gakpo skipti við Darwin á 67. mínútu og níu mínútum seinna skallaði hann boltann í markið eftir frábæra fyrirgjöf frá Andrew sem hitti beint á Hollendinginn. Andrew tók stutt horn frá hægri og gaf á Curtis Jones. Skotinn fékk boltann aftur og sendi þá fyrir. Góð fyrirgjöf og góður skalli!
Sigur Liverpol var öruggur eftir markið hjá Cody. Liverpool hafði áfram yfirburði eins og allan leikinn. Kraftur Rauða hersins var ótrúlegur frá upphafi til enda og liðið tók Evrópumeistarana einfaldlega í gegn. Gleði stuðningsmanna Liverpool var mikil í leikslok og full ástæða til!
Þetta var besti leikur Liverpool á leiktíðinni. Hver einasti leikmaður Liverpool spilaði stórvel. Áhorfendur hvöttu liðið til dáða. Þegar þetta tvennt fer saman stendur fátt í vegi fyrir Rauða hernum! Það er gömul saga og ný!
Mörk Liverpool: Alexis Mac Allister (52. mín.) og Cody Gakpo (76. mín.).
Gul spjöld: Darwin Núnez, Ryan Gravenberch og Alexis Mac Allister.
Gul spjöld: Raul Asencio, Ferland Mendy og Dani Ceballos.
Áhorfendur á Anfield Road: 59.546.
Maður leiksins: Conor Bradley. Það hefði næstum verið hægt að velja hvern einasta leikmann Liverpool. En Norður Írinn fær útnefninguna. Það væri bara hægt að velja hann fyrir stórkostlega tæklingu á Kylian Mbappé sem var fagnað eins og marki!
Arne Slot: ,,Það var margt sem gladdi mig í leiknum. Mér finnst alltaf gott að vinna leiki. Sérstaklega stórleiki á móti liðum sem hafa svona marga góða leikmenn í sínum röðum.
Fróðleikur
- Þetta var fyrsti sigur Liverpool á Real Madrid eftir átta leiki án sigurs gegn spænska liðinu.
- Liverpool hefur unnið alla fimm leiki sína í Meistaradeildinni og leiðir deildina.
- Alexis Mac Allister skoraði í annað sinn á leiktíðinni.
- Cody Gakpo skoraði sjöunda mark sitt á keppnistímabilinu.
- Caoimhin Kelleher varði víti annan leikinn í röð!
- Alexis var bókaður og verður í leikbanni í næsta Evrópuleik.
-
| Sf. Gutt
Af samningamálum Mohamed Salah -
| Sf. Gutt
Af spjöldum sögunnar! -
| Sf. Gutt
Grannarimmunni frestað! -
| Sf. Gutt
Síðasti grannaslagurinn á Goodison Park! -
| Sf. Gutt
Jafntefli í ótrúlegum leik! -
| Sf. Gutt
Leikjatilfærslur -
| Sf. Gutt
Nýt hverrar mínútu hérna! -
| Sf. Gutt
Darwin tryggði sigur í blálokin! -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Uppskrift að Evrópukvöldi!