Sven-Göran Eriksson látinn
Í dag bárust fréttir um að Sven-Göran Eriksson væri látinn. Sænski knatspyrnuþjálfarinn var búinn að eiga í baráttu við krabbamein. Hann var 76 ára að aldri.
Sven starfaði við framkvæmdastjórn frá 1977 til 2019 með litlum hléum. Hann byrjaði hjá Degerfors í Svíþjóð og endaði sem þjálfari landsliðs Filippseyja. Sven þjálfaði í tíu löndum, stýrði fjórum landsliðum og 13 félagsliðum. Hann náði víða stórgóðum árangri og vann titla í Svíþjóð, Portúgal og Ítalíu.
Í janúar sagði Sven frá því að hann væri kominn með ólæknandi krabbamein og ætti trúlega ekki nema um eitt ár eftir ólifað. Lengi hefur verið vitað að Sven væri mikill aðdáandi Liverpool og hann sagði einhvern tíma að hann hafi lengi átt sér þann draum að stýra Liverpool.
Í framhaldi af þeim sorglegu fréttum að Sven væri alvarlega veikur fór af stað umræða um að rétt væri að bjóða Sven til Liverpool. Umræðan jókst og úr varð að forráðamenn Liverpool buðu Sven að vera einn af stjórnendum goðsagnaliðs Liverpool þegar það mætti Ajax á Anfield Road 23. mars. Jürgen Klopp bætti svo við boðið og bauð Sven að vera gestur hans á æfingasvæði Liverpool. Sannkallað góðverk og fallega hugsað.
Draumur Svíans til áratuga um að stjórna Liverpool á Anfield varð að veruleika. Sven-Göran gekk fyrstur manna til leiks undir dynjandi lófaklappi áhorfenda. Hann var greinilega hrærður þegar You´ll Never Walk Alone var sungið fyrir leikinn. Tár var á hvarmi og skyldi engan undra.
Eftir leikinn sagði Sven meðal annars þetta. ,,Þessi minning verður með þeim sem hæst standa í lífi mínu. Þetta var svo fallegt. Það hefur verið draumur allt mitt líf að vera á bekknum hjá Liverpool og stjórna liðinu. Nú rættist sá draumur. Þessi dagur var svo fallegur á allan hátt. Áhorfendur, leikurinn, leikmennirnir og allt saman alveg frábært. Ég þakka Liverpool innilega fyrir að gefa mér þetta tækifæri og bjóða mér að vera hérna á þessum mikilvæga leik. Auðvitað var ekki um stig að ræða en mikilvægi svona leiks er gríðarlega mikið."
,,Það voru miklar tilfinningar í gangi og tárin streymdu. Mig hefur dreymt um þetta alla ævi. Meira að segja þegar ég var þjálfari Englands þá hélt ég með Liverpool. En þá gat ég ekki látið það uppi. Það var gott að enda með því að stjórna Liverpool. Það gat ekki verið betra!"
Hvíl í friði Sven-Göran Eriksson.
-
| Sf. Gutt
Steven syrgir Sven -
| Sf. Gutt
Harvey Elliott meiddur -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Leikjatilfærslur -
| Sf. Gutt
Fulltrúar Liverpool á EM -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Brighton og Liverpool – Leicester -
| Sf. Gutt
Nýr búningur kynntur -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Frábær úrslit! -
| Sf. Gutt
Merkileg tímamót!