| Sf. Gutt

Af spjöldum sögunnar!


Titilsigrar Liverpool eru allir eftirminnilegir á sinn hátt en sá sem vannst fyrir 40 árum er mörgum sérstaklega ofarlega í minni. Það var á þessu kvöldi fyrir aldarfjórðungi sem Liverpool vann Evrópubikarinn í fjórða sinn eftir að liðið lagði Roma að velli á Olympíuleikvanginum í Róm. Ekki hélt ég að svona mörg ár væru liðin því sigurinn hefði getað verið í gær eða fyrradag miðað við minninguna!

Sigurinn var mikið afrek vegna þess að Liverpool varð að gera sér það að góðu að spila úrslitaleikinn á heimavelli Roma! Knattspyrnusamband Evrópu hafði ákveðið fyrir leiktíðina 1983/84 að úrslitaleikurinn í Evrópukeppni meistaraliða skyldi fara fram á Olympíuleikvanginum í Róm. Þetta þótti mörgum undarleg ákvörðun því Roma var eitt sigurstranlegasta liðið í keppninni. Það kom svo á daginn að Roma komst í úrslit og Liverpool var mótherji heimaliðsins.


Fylgismenn Rauða hersins gátu fagnað snemma því eftir um stundarfjórðung kom Phil Neal Liverpool yfir með marki af stuttu færi eftir mistök í vörn Roma. Heimamenn náðu að jafna undir lok fyrri hálfleiks þegar Roberto Pruzzo skoraði með skalla yfir Bruce Grobbelaar. Ekki voru fleiri mörk skoruð í venjulegum leiktíma og ekkert bættist heldur við í framlengingunni. Það varð því að grípa til vítaspyrnukeppni.


Steve Nicol skaut yfir úr fyrstu spyrnu Liverpool og Agostini Di Bartolomei skoraði fyrir Roma. Phil Neal jafnaði en Bruno Conti misnotaði sína spyrnu. Nú var staðan jöfn og Graeme Souness kom Liverpool yfir. Ubaldo Righetti jafnaði en Ian Rush kom Liverpool í 3:2. Dans Bruce Grobbelaar á línunni kom Francesco Graziani úr jafnvægi og Ítalinn skaut yfir. Þegar hér var komið við sögu gat Alan Kennedy tryggt Liverpool sigur. Honum segist svo frá. 

,,Fæturnir á mér skulfu! Það var ekkert erfitt að hitta markið utan af velli þá þá hafði maður alltaf tíma til að íhuga hvað myndi gerast næst. Nú var annað uppi á teningnum. Ég fór að hugsa um hvert markmaðurinn myndi henda sér og flassljós myndavélanna fyrir aftan markið trufluðu mig. Svo fór ég að hugsa um hvort dómarinn myndi láta endurtaka spyrnuna. Alls konar hugsanir fóru í gegnum huga minn. Ég hafði aldrei verið undir öðru eins álagi áður en þegar upp var staðið náði ég að skjóta boltanum í rétt horn og markmaðurinn skutlaði sér í hitt hornið. Ég náði því að skora!" Vítspyrnukeppninni var lokið með sigri Liverpool 4:2 og Liverpool var Evrópumeistari í fjórða sinn á sjö árum!


Graeme Souness tók við Evrópubikarnum eftir síðasta leik sinn með Liverpool og stuðningsmenn Liverpool fögnuðu öðrum Evrópubikarsigri sínum í Róm! Liverpool vann Evrópubikarinn þar í fyrsta sinn árið 1977. Það er því ekki að undra að Róm skipi stóran sess í hugum stuðningsmanna Liverpool. Öðrum enskum liðum hefur ekki tekist að vinna Evrópubikarinn þar í borg! 


Liverpool: Bruce Grobbelaar, Phil Neal, Alan Kennedy, Mark Lawrenson, Ronnie Whelan, Alan Hansen, Kenny Dalglish (Michael Robinson 95. mín.), Sammy Lee, Ian Rush, Craig Johnston (Steve Nicol 73. mín.) og Graeme Souness. Ónotaðir varamenn: Bob Bolder, David Hodgson og Gary Gillespie.

Roma: Tancredi; Nappi, Bonetti, Cerezo (Strukelj 115. mín.), Righetti; Falcao, Nela, Di Bartolomei, Conti; Pruzzo (Chierico 63. mín.) og Graziani. Ónotaðir varamenn:  Malgioglio, Oddi og Vincenzi.

Áhorfendur á Ólympíuleikvanginum í Róm: 69.693.

Hér er grein um leikinn sem er að finna á Liverpool.is.

Hér eru ýmsar upplýsingar um leikinn af LFChistory.net.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan