| Sf. Gutt

Goðsagnirnar unnu!


Goðsagnir Liverpool unnu í dag góðan endurkomusigur 4:2 á goðsögnum Ajax á Anfield Road. Maður dagsins var heiðursgesturinn Sven-Göran Eriksson. Draumur hans til áratuga um að stjórna Liverpool á Anfield varð að veruleika. 

Sven-Göran gekk fyrstur manna til leiks undir dynjandi lófaklappi áhorfenda á Anfield. Hann var greinilega hrærður þegar You´ll Never Walk Alone var sungið fyrir leikinn. Tár var á hvarmi og skyldi engan undra.

Liverpool stillti upp sterku liði. Ryan Babel var í liði Liverpool fyrri hálfleikinn en hann kom svo inn í lið Ajax eftir hlé. Jari Litmanen leiddi Ajax sem fyrirliði. Hann kom svo inn á í búningi Liverpool í síðari hálfleik. 

Ajax byrjaði mun betur og skoraði á annarri mínútu. Leikmenn Liverpool höfðu varla snert boltann. Derk Boerrigter skoraði af stuttu færi eftir gott spil. Ajax bætti við forystuna á 43. mínútu þegar Kiki Musampa skallaði í mark úr vítateignum. Aftur var samleikur Ajax góður. Liverpool hafði milli markanna sótt svo til linnulaust en markmaður Ajax stóð vaktina vel. Reyndar hafði Jerzy Dudek tvívegis bjargaði áður en Ajax skoraði annað mark sitt. 

Eins og venjulega var mörgum skipt inn á í leikhléi. Gregory Vignal hafði komið inn rétt fyrir hálfleik í stað Fabio Aurelio sem meiddist. Það var einmitt Gregory sem kom Liverpool inn í leikinn á 54. mínútu. Mark Gonzalez sendi fyrir á Frakkann sem skoraði með nákvæmu skoti úr vítateignum. Hann hljóp svo og fagnaði með Sven-Göran. Falleg stund!

Nokkrum andartökum áður en Gregory skoraði átti Kiki langskot í þverslá. Liverpool slapp vel þar og skoraði í kjölfarið. Ryan Babel var kominn í Ajax búninginn og fékk tvívegis góð færi á að koma hollenska liðinu aftur tveimur mörkum yfir. Það tókst sem betur fer ekki og Liverpool jafnaði á 74. mínútu. Ajax náði ekki að hreinsa eftir aukaspyrnu. Dirk Kuyt gaf fyrir og Djibril Cissé skallaði í mark af stuttu færi. 

Liverpool réði öllu hér eftir. Tíu mínútum fyrir leikslok náði Djibril að halda lífi í sókn Liverpool með góðri baráttu. Hann kom boltanum liggjandi fram á Nabil El Zhar. Marokkómaðurinn tók sprett inn í vítateiginn hægra megin og skoraði með föstu skoti. Liverpool komið yfir og þegar sex mínútur voru eftir sendi Mark fyrir frá vinsti á Fernando Torres. Spánverjinn renndi sér á boltann og náði að stýra honum í markið af stuttu færi. Loksins náði ,,Strákurinn" að koma boltanum í markið en hann var búinn að reyna mikið til þess. Sigur Liverpool í höfn!


 
Liverpool fyrri hálfleikur: Dudek, Kvarme, Skrtel, Agger, Aurelio (Vignal, 45), Maxi, Sissoko, Spearing, Babel, Gerrard og Torres.

Liverpool síðari hálfleikur: Westerveld (Kirkland, 79), Hyypia, Skrtel (El Zhar, 68), Agger, Gonzalez, Biscan, Gerrard, Vignal, Kuyt, Cisse og Torres (Litmanen, 86).

Áhorfendur á Anfield Road: 59.655. 

Framkvæmdastjóri: Sven-Göran Eriksson.

Aðstoðarmenn: Ian Rush, John Aldridge og John Barnes.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan