| Sf. Gutt

Niðurtalning - 7. kapítuli

Komið er að sjöunda og síðasta kapítula niðurtalningarinnar. Í þeim kapítula ætlum við að rifja upp alla úrslitaleiki Liverpool í Deildarbikarnum. 

+ 1978. Liverpool:Nottingham Forest. 0:0. 
Aukaleikur á Old Trafford. Liverpool:Nottingham Forest. 0:1. 
Liverpool átti báða leikina með húð og hári en ungur markvörður Chris Woods, sem lék í stað Peter Shilton og seinna varð landsliðsmarkvörður, átti stórleik og bjargaði Forest frá tapi. Hann varði ótrúlega í báðum leikjunum. Í aukaleiknum á Old Trafford var dæmt mark af Terry McDermott vegna hendi sem aldrei átti sér stað. Sigurmarkið kom svo eftir að Phil Thompson felldi einn leikmanna Forest utan vítateigs. Dæmt var víti sem John Robertson skoraði úr.
 

+ 1981. Liverpool:West Ham United. 1:1. 
Aukaleikur á Villa Park. Liverpool:West Ham United. 2:1. 
Liverpool var sterkari aðilinn en komst ekki yfir fyrr en þremur mínútum fyrir leikslok í framlengingu. Alan Kennedy skoraði þá með bylmingsskoti utan teigs með hægri fæti. En West Ham fékk víti á síðustu mínútu framlengingar. Terry McDermott varði þá frábærlega með hendi á marklínu. Ray Stewart jafnaði úr vítaspyrnunni. Á Villa Park komst West Ham yfir snemma leiks með skallamarki Paul Goddard. Liverpool sneri taflinu við fyrir hálfleik. Fyrst jafnaði Kenny Dalglish með stórkostlegu marki og Alan Hansen skoraði svo sigurmarkið með skalla eftir hornspyrnu. Liverpool hélt sínu og vann Deildarbikarinn í fyrsta skipti. Ian Rush vann verðlaunapening í fyrsta leik sínum með aðalliði Liverpool. 

+ 1982. Liverpool:Tottenham Hotspur. 3:1. 
Liverpool lenti undir snemma leiks þegar Steve Archibald skoraði. Liverpool tók öll völd en Ray Clemence fyrrum markvörður Liverpool hélt Tottenham á floti. Það voru aðeins þrjár mínútur eftir þegar hinn ungi Ronnie Whelan, sem var að leika í fyrsta skipti á Wembley, jafnaði með skoti utan úr teignum. Leikmenn Tottenham voru alveg ganglausir í framlengingunni og Liverpool gerði út um leikinn. All snemma framlengingar skoraði Ronnie Whelan, úr miðjum vítateignum, sitt annað mark eftir hárnákvæma sendingu Kenny Dalglish. Á lokamínútu framlengingar skoraði Ian Rush af stuttu færi eftir eldsnögga skyndisókn og gulltryggði sigurinn. 


+ 1983. Liverpool:Manchester United. 2:1. 
Aftur lenti Liverpool undir snemma leiks þegar Norman Whiteside skoraði. Eins og gegn Tottenham árið áður náði Liverpool undirtökunum þegar á leið. Þegar fimmtán mínútur voru eftir jafnaði Alan Kennedy með nákvæmu skoti utan vítateigs. Liverpool átti framlenginguna enda leikmenn Manchester United lúnir. Annað árið í röð lék Ronnie Whelan stórt hlutverk og skoraði sigurmarkið með glæsilegu bogaskoti yfir Gary Bailey. Magnaður sigur. Graeme Souness fyrirliði Liverpool lét Bob Paisley fara fyrir liðinu upp í heiðursstúkuna og taka við bikarnum í leikslok. Framkvæmdastjóri hafði aldrei tekið við bikar áður á Wembley. 

+ 1984. Liverpool:Everton. 0:0. 
Aukaleikur á Maine Road. Liverpool:Everton. 1:0. 
Aldrei höfðu lið frá sömu borginni, utan Lundúna, spilað til úrslita um stórtitil. Mikil stemming á Wembley í rigningunni og áhorfendur sungu "Merseyside! Merseyside!" svo bergmálaði í höfuðborginni. Drottningarmóðirin var heiðursgestur. Tíðindalítið var í leiknum. Ian Rush fékk besta færi Liverpoool en stuðningsmenn Everton vildu fá víti. Maine Road var troðfullur í aukaleiknum. Hart barist í jöfnum leik og fá færi sköpuðust en Liverpool hafði betur. Fyrirliðinn magnaði Graeme Souness skoraði eina markið með glæsilegu þrumuskoti utan vítateigs. Liverpool hafði þar með unnið keppnina fjögur ár í röð. Slík sigurganga var einstök í stórkeppni á Englandi. Liverpool vann þessa leiktíð Þrennu, undir stjórn Joe Fagan, sem ekki hefur unnist fyrr eða síðar. Englandsmeistari, Deildarbikarmeistari og Evrópumeistari! 

+ 1987. Liverpool:Arsenal. 1:2. 
Liverpool hafði lengst af betur og Ian Rush kom Liverpool yfir eftir hraða sókn. Allt stefndi vel en Skotinn Charlie Nicholas skoraði tvö heppnismörk sem tryggðu Arsnal sigur. Þetta var í fyrsta skipti sem Liverpool tapaði leik sem Ian Rush skoraði í og þessi breyting kom á versta tíma.
 


+ 1995. Liverpool:Bolton Wanderes. 2:1. 
Roy Evans leiddi Liverpool út á Wembley í fyrsta sinn. Liverpool var sterkari aðilinn allan tímann. Steve McManaman, sem hafði frjálst hlutverk, átti stórleik og var valinn maður leiksins. Hann skoraði sitt markið í hvorum hálfleik. Bæði mörkin voru stórglæsileg og skoruð eftir einleiksspretti. Steve lék vörn Bolton grátt allan leikinn. Alan Thompson hélt Bolton inni í leiknum þegar hann skoraði með þrumuskoti mínútu eftir annað mark Steve. Guðni Bergsson varð fyrsti Íslendingurinn til að leika í úrslitaleik á Englendi þegar hann kom inn á sem varamaður í sínum fyrsta leik fyrir Bolton. Ian Rush tók við bikarnum í leikslok og um leið fimmta verðlaunapening sínum í keppninni.

+ 2001. Liverpool:Birmingham City. 1:1. 5:4 eftir vítaspyrnukeppni. 
Fyrsti úrslitaleikur Liverpool á nýrri öld í fyrsta úrslitaleiknum sem leikinn var utan Englands. Robbie Fowler kom Liverpool yfir með frábæru skoti í fyrri hálfleik. Liverpool hafði yfirhöndina lengst af en á lokamínútunni náði Birmingham að jafna þegar Darren Purse skoraði úr vítaspyrnu. Ekkert var skorað í framlengingunni. Þá tók vítaspyrnukeppni við og leikmenn Liverpool sýndu mikið öryggi. Þeir Gary McAllister, Nick Barmby, Christian Ziege, Robbie Fowler og Jamie Carragher skoruðu. Dietmar Hamann mistókst að skora en Sander varði eitt og Liverpool fór með Deildarbikarinn heim. 


+ 2003. Liverpool:Manchester United. 2:0. 
Liverpool hafði átt erfitt uppdráttar vikurnar fyrir úrslitaleikinn en leikmenn liðsins mættu til leiks eins og grenjandi ljón og liðið spilaði einn besta leik sinn á leiktíðinni. Steven Gerrard kom Liverpool yfir með þrumuskoti utan vítateigs þegar farið var að styttast til hálfleiks. Leikmenn Manchester United reyndu hvað þeir gátu til að jafna en Jerzy Dudek stóð sig eins og hetja í markinu. Undir lok leiksins náði Liverpool frábærri skynisókn og Michael Owen gulltryggði sigurinn. Gríðarlegur fögnuður fylgdi í kjölfarið. Frábær sigur á þessum fornu keppinautum. 

+ 2005. Liverpool:Chelsea. 2:3. 
Liverpool fékk óskabyrjun þegar John Arne Riise skoraði eftir 46 sekúndur. Markið virtist ætla að duga þar til Steven Gerrard var fyrir því óláni að skora sjálfsmark þegar 11 mínútur voru eftir. Didier Drogba og Mateja Kezman komu Chelsea í góða stöðu í framlengingunni. Antonio Nunez minnkaði muninn en Liverpool náði ekki að jafna þrátt fyrir góða viðleitni. 


+ 2012. Liverpool:Cardiff City. 2:2. 3:2 eftir vítaspyrnukeppni. 
Kenny Dalglish leiddi Liverpool til leiks í fyrsta skipti á nýja Wembley. Joe Mason kom Cardiff sem lék í næst efstu deild yfir. Martin Skrtel jafnaði í síðari hálfleik en það þurfti að framlengja. Varamaðurinn Dirk Kuyt náði forystu og allt leit úr fyrir að það dygði en Ben Turner jafnaði þegar tvær mínútur voru eftir af framlengingunni. Það var því ekki um annað að gera en að grípa til vítaspyrnukeppni. Liverpool hafði betur eftir að Steven Gerrard og Charlie Adam mistókst að skora úr fyrstu tveimur spyrnum Liverpool. Jose Reina varði enga spyrnu en Liverpool vann samt 3:2. Dirk Kuyt, Stewart Downing og Glen Johnson skoruðu. Áttundi titillinn vannst!


+ 2016. Liverpool:Manchester City. 1:1. 1:3 eftir vítaspyrnukeppni.
Manchester City var sterkara liðið framan af og fékk góð færi. Fernandinho kom City yfir snemma í síðari hálfleik. Eftir því sem leið á hálfleikinn sótti Liverpool í sig veðrið og Philippe Coutinho náði að jafna þegar sjö mínútur voru eftir. Bæði lið fengu færi í framlengingu en ekki var meira skorað. Emre Can skoraði úr fyrstu spyrnu Liverpool og City misnotaði sína fyrstu. Eftir það mistókst Lucan Leiva, Philippe Coutinho og Adam Lallana að skora úr sínum spyrnum. City náði að skora úr þremur og versta vítaspyrnukeppni Liverpool kom á versta tíma.  




+ 2022. Liverpool:Chelsea. 0:0. Ekkert var skorað í venjulegum leiktíma og ekki heldur í framlengingu. Ekki vantaði færin og svo voru einhver mörk dæmd af. Það var háspenna í vítaspyrnukeppninni. Allir leikmenn beggja liða tóku víti. Caoimhin Kelleher, markmaður Liverpool, skoraði úr 11. spyrnu Liverpool. Kepa Arrizabalaga, félagi hans í marki Chelsea, gat jafnað en skaut boltanum upp í stúku. Liverpool vann því Deildarbikarinn!   

+ 2024. Liverpool:Chelsea. ????


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan