| Sf. Gutt

Liverpool með kennslustund!


Óhætt er að segja að Liverpool hafi boðið upp á kennslustund á Anfield Road í kvöld. Liverpool spilaði besta leik sinn á leiktíðinni og vann öruggan 4:1 sigur á Chelsea. Frábært kvöld í hafnarborginni!

Liverpool og Chelsea höfðu fyrir þennan leik gert jafntefli í síðustu sjö leikjum. Sögulegt met í ensku knattspyrnunni. Fyrir leikinn sungu stuðningsmenn Liverpool You´ll Never Walk Alone af óvenjumiklum krafti. Eftir að Jürgen Klopp tilkynnti um brottför sína hefur hann talað um að leikirnir sem eftir eru af leiktíðinni eigi ekki að snúast um hann. Stuðningsmenn Liverpool eigi að styðja liðið af öllum krafti en ekki eyða þeim í að syngja um gamla manninn á hliðarlínunni. Það vantaði ekkert upp á að stuðningmenn Liverpool fylktu sér að baki liðinu í leiknum. Reyndar var líka sungið um gamla manninn!

Leikmenn Liverpool komu eins og stríðsmenn til leiks. Nákvæmlega eins Jürgen talaði um að hann vildi hafa það um daginn. Þeir æddu um allan völl, pressuðu andstæðingana og barist var um boltann hvar svo sem hann var að finna. 

Darwin Núnez fékk fyrsta færið á 8. mínútu. Alexis Mac Allister sendi á Darwin Núnez. Hann tók við boltanum og þrumaði að marki. Djordje Petrovic rétt náði að snerta boltann og verja. Boltinn strauk svo slána og fór yfir. Tíu mínútm seinna gaf Imrahima Konate langa sendingu fram á Darwin. Hann fékk boltann vinstra megin og náði góðu skoti en Djordje henti sér til vinstri og varði boltann í stöng.

Liverpool braut vörn Chelsea á bak aftur á 23. mínútu. Conor Bradley vann boltann og gaf hann fram og Diogo Jota. Portúgalinn stakk sér á milli tveggja varnarmanna og inn í vítateiginn þaðan sem hann skoraði af öryggi. Frábært einstaklingsframtak hjá Diogo! Liverpool sótti linnulaust og Chelsea komst varla fram fyrir miðju. Á 31. mínútu fékk Curtis Jones boltann frá Joe Gomez og lék sig í skotfæri. Skot hans var fast og stefndi niður í hægra hornið en markmaður Chelsea varði vel. 

Sex mínútum fyrir hlé komst Liverpool tveimur mínútum yfir. LuisDíaz gaf fram á Conor. Strákurinn tók á rás, lék inn í vítateiginn og smellti boltanum svo neðst út í vinstra hornið. Allt gekk af göflunum og það var ekki að undra að Conor skyldi brosa út að eyrum þegar hann renndi sér út að hægri hornfánanum til að fagna!

Á  lokamínútu hálfleiksins var troðið á Diogo inni í vítateignum og dæmt víti. Darwin tók vítið og sendi markmanninn í vitkaust horn en því miður hafnaði skotið í stönginni og gestirnir sluppu. Tvö mörk í forystu í hálfleik en hefðu átt að vera fjögur eða fleiri. Chelsea vildi reyndar fá víti í fyrri hálfleik eftir viðskipti Virgil van Dijk og sóknarmanns en ekkert var dæmt. Víti hefði kannski einhvern tíma verið dæmt en snertingin var lítil. 

Yfirburðir Liverpool voru jafnir og áður eftir hlé. Reyndar fékk Chelsea dauðafæri eftir fimm mínútur. Eftir hraða sókn kom sending fyrir frá hægri á  Mykhailo Mudryk  en Úkraínumaðurinn mokaði boltanum hátt upp í stúku frír í vítateignum. Fyrsta færi Chelsea í leiknum.  

Liverpool jól forystuna á 65. mínútu. Virgil sendi hátt og langt fram frá vinstri til hægri á Conor sem braust fram og gaf fyrir markið. Hann hitti beint á Dominik Szoboszlai sem skallaði í markið af stuttu færi fyrir framan Kop stúkuna. Önnur stoðsending Conor!

Sex mínútum seinna lagaði Chelsea stöðuna. Christopher Nkunku fékk boltann í vítateignum og náði að snúa af sér varnarmann áður en hann skoraði neðst í hægra hornið. Liverpool svaraði þessu með harðri sókn fimm mínútum seinna. Varamaðurinn Andrew Robertson gaf fyrir frá vinstri á Darwin sem átti fastan skalla sem small í þverslánni. Áfram hélt sókninn og Harvey Elliott, sem lika kom inn á, átti fast skot við vítateignn sem markmaður gestanna varði naumlega þó skotið færi beint á hann. Darwin var núna búinn að hitta slána tvisvar og báðar stangirnar. Ótrúleg óheppni!

Liverpool geirnegldi sigurinn á 79. mínútu.  Eftir fallegt samspil sendi Alexis inn fyrir vörnina út til vinstri á Darwin. Hann gaf þvert fyrir markið á Luis sem henti sér fram til að stýra boltanum í mark af stuttu færi. Enn og aftur var vel fagnað á Anfield. Fyrirgjöfin hjá Darwin var frábær og hann var ekki neitt að hengja haus þó tréverkið væri búið að ræna hann marki. Öruggur sigur!

Óhætt er að segja að Liverpool hafi boðið upp á kennslustund í kvöld. Hver einasti leikmaður Liverpool lék frábærlega og þar af leiðandi liðið allt. Besti leikurinn á keppnistímabilinu hingað til!

Liverpool: Alisson, Bradley (Alexander-Arnold 68. mín.), Konaté, van Dijk, Gomez (Robertson 69. mín.), Szoboszlai (Elliott  69. mín.), Mac Allister, Jones (Clark 83. mín.), Jota (Gakpo 68. mín.), Núnez og Díaz. Ónotaðir varamenn: Kelleher, Gravenberch, McConnell og Quansah.

Mörk Liverpool: Diogo Jota (23. mín.), Conor Bradley (39. mín.), Dominik Szoboszlai (65. mín.) og Luis Díaz (79. mín.).

Gult spjald: Darwin Núnez og Ibrahima Konate.

Chelsea: Petrovic, Disasi, T. Silva, Badiashile, Chilwell (Gusto 45. mín.), Caicedo (Chukwuemeka 66. mín.), Fernández, Madueke (Mudryk 45. mín.), Gallagher (Nkunku 45. mín.), Sterling og Palmer (Casadei 85. mín.). Ónotaði varamenn: Broja, de Souza Eugenio, Gilchrist og Bergström.

Mark Chelsea: Christopher Nkunku  (71. mín.).

Gul spjöld: 
Moisés Caicedo, Enzo Fernández, Ben Chilwell og Axel Disasi.

Áhorfendur á Anfield Road:  57.524.

Maður leiksins: Conor Bradley. Norður Írinn átti draumaleik. Hann skoraði fyrsta mark sitt fyrir Liverpool og lagði upp tvö mörk. 

Jürgen Klopp: ,,Ég er rosalega ánægður með leik liðsins. Við þurftum að yfirvinna nokkur vandamál, gerðum það og áttum fullt af stórgóðum rispum."

Fróðleikur

- Diogo Jota skoraði 13. mark sitt á leiktíðinni.

- Conor Bradley opnaði markareikning sinn fyrir Liverpool. 

- Dominik Szoboszlai skoraði þriðja mark sitt á keppnistímabilinu. 

- Luis Díaz er kominn með átta mörk.

- Fyrir þenann leik höfðu Liverpool og Chelsea gert sjö jafntefli í röð í öllum keppnum. 

- Trent Alexander-Arnold spilaði sinn 300. leik með Liverpool. Hann er búinn að skora 18 mörk og leggja upp 78.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan