| Sf. Gutt

Lygileg atburðarás!


Óhætt er að segja að lygileg atburðarás hafi átt sér stað þegar Liverpool mátti þola ósanngjarnt 2:1 tap fyrir Tottenham. Löglegt mark var tekið af Liverpool og hreint hneyksli átti sér stað stað varðandi dómgæsluna í leiknum. 

Liðin höfðu ekki tapað leik þegar leikmenn þeirra gengu til leiks og því var mikil spenna í loftinu. Liðin skiptust á að sækja. Sóknir Tottenham voru kannski heldur hættulegri. Liverpool fékk þó tvö færi í sömu sókninni á 13. mínútu. Fyrst var varið frá Cody Gakpo og svo Andrew Robertson. 

En á 26. mínútu dró til tíðinda þegar Curtis Jones var rekinn af velli. Hann fékk reyndar gult til að byrja með en dómarinn var svo látinn skoða sjónvarpið og niðurstaðan varð sú að gula spjaladið var dregið til baka og hann þess í stað rekinn af velli. Dómurinn verður að teljast harður því fótur Curtis fór af boltanum og í fótlegginn á mótherja. Algjört óvinjaverka en menn hafa verið reknir af velli fyrir svipuð brot. Súrt í broti!

Þrátt fyrir að Liverpool væri manni færri komust þeir yfir á 34. mínútu þegar Mohamed Salah sendi inn fyrir á Luis Díaz. Hann slapp fram hægra megin og skoraði neðst í fjærhornið. Línuvörðurinn dæmdi rangstöðu en í sjónvarpinu sást strax að sá dómur var rangur. Á hinn bóginn var rangur dómur látinn standa. Gersamlega lygilegt því sjónvarpsdómararnir hefðu átt að grípa inn í atburðarásina!

Spurs komst svo yfir tveimur mínútum seinna. Richarlison komst í góða stöðu vinstra megin og gaf fyrir á Son Heung-Min sem skoraði af stuttu færi. Þrefalt kjafshögg fyrir Liverpool. Fyrst rautt spjald, svo löglegt mark tekið af Liverpool og svo allt í einu marki undir. 

En Liverpool gafst ekki upp og þegar viðbótartími fyrri hálfleiks var að renna út jafnaði Cody með skoti af stuttu færi eftir að Virgil van Dijk hafði skallað til hans. Vel gert hjá Liverpool að jafna manni færri!

Illur grunur var staðfestur þegar leikmenn komu til leiks eftir hlé. Cody hafði þurft að fara af velli en hann lá eftir í kjölfar þess að hann jafnaði metin. Diogo Jota leysti hann af. 

Tottenham hóf síðari hálfleik af krafti. Á 49. mínútu varði Allisson Becker mjög vel gott skot frá James Maddison og tveimur mínútum seinna átti Son þrumuskot að marki en aftur varði Alisson meistaralega. Liverpool reyndi að sækja þegar færi gafst og á 65. mínútu braust Mohamed Salah fram. Hann náði boltanum af varnarmanni og var sloppinn í mjög gott færi þegar dómarinn dæmdi aukaspyrnu á Mohamed og bókaði hann svo fyrir að mótmæla röngum dómi! Algjörlega út í hött!

Þremur mínútum seinna fékk Diogo gult spjald sem ekkert vit var í. Hugsanlega strauk hann leikmann Tottenham sem flækti sig svo í eigin fótum og datt. Vont versnaði svo mínútu seinna eða svo þegar Diogo fékk annað gult spjald fyrir að fella leikmann Spurs. Þetta spjald var rétt en Diogo átti aldrei að vera farinn af velli. Á hinn bóginn átti Diogo ekki að renna sér á eftir manninum fyrst hann var búinn að fá gult spjald. 

Liverpool aðeins með níu menn inni á vellinum og rúmlega 20 mínútur eftir. Sókn Tottenham var skiljanlega hörð en leikmenn Liverpool börðust eins og ljón. Í raun gekk þeim ótrúlega vel að verjast sóknum Tottenham og hver sóknin á fætur annarri rann út í sandinn. Viðbótartíminn var við að renna út þegar Pedro Porro sendi fyrir frá hægri. Joel Matip, sem var frábær, ætlaði að hreinsa í horn en þess í stað hafnaði boltinn í markinu hans. Tottenham vann og ekki er annað hægt að segja að sigurinn hafi verið ósanngjarn!

Leikmenn Liverpool lögðu allt í sölurnar en máttu þola grátlegt en hetjulegt tap. En upp úr stendur dómgæsla sem var algjörlega óboðleg og segja má að Liverpool hafi verði rænt stigi! 


Mörk Tottenham: Son Heung-Min (36. mín.) og Joel Matip, sm, (90. mín).

Gul spjöld: Destiny Udogie, Yves Bissouma, Cristian Romero, Pedro Porro og Alejo Véliz.


Mark Liverpool: Cody Gakpo (45. mín.). 

Rauð spjöld: Curtis Jones og Diogo Jota. 

Gul spjöld: Alexis Mac Allister, Mohamed Salah, Diogo Jota, Andrew Robertson og Virgil van Dijk.

Maður leiksins: Joel Matip. Hann átti algjörlegan stórleik í hjarta varnar Liverpool! 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan