| Sf. Gutt

Lygileg endalok!


Liverpool vann í dag lygilegan 4:3 sigur á Tottenham Hotspur á Anfield Road. Eftir stórkostlega byrjun þegar Liverpool komst í 3:0 fór allt í vitleysu. Gestirnir jöfnuðu í viðbótartíma en samt náði Liverpool að vinna. Einn lygilegustu endalok í leik á Anfield og þá er mikið sagt! 

Ibahima Konaté kom inn í liðið eftir að hafa misst af leiknum við West Ham United vegna meiðsla. Luis Díaz var í byrjunarliðinu í fyrsta sinn eftir meiðslin slæmu. Harvey Elliott byrjaði í fyrsta sinn í nokkurn tíma. 

Liverpool fékk fullkomna óskabyrjun og komst yfir á 3. mínútu. Eftir gott samspil sendi Trent Alexande-Arnold frá hægri yfir á fjærstöng á Curtis Jones. Hann tók boltann á lofti og stýrði honum örugglega með markið með innanfótarskoti. Tvær mínútur liðu. Mohamed Salah fékk boltann hægra megin og gaf inn í vítateiginn. Cody Gakpo rétt náði til boltans við endalínuna og gaf fyrir markið á Luis Díaz sem tók boltann á lofti og skaut honum fallega í markið. Kólumbíumaðurinn fagnaði innilega og signdi sig í miklu þakklæti eftir meiðsin slæmu. 

Liverpool réði lögum og lofum og sundurspilaði Tottenham. Tíu mínútur liðu. Eftir fallegt spil fékk Cody boltann inn í vítateiginn. Þar kom Cristian Romero og sparkaði hann niður. Dómarinn dæmdi víti. Einhver umræða hafði verið um að Liverpool myndi skipta um vítaskyttu eftir að Mohamed hafði mistekist að skora úr tveimur vítum í röð. En Mohamed var treyst. Hann sendi boltann örugglega upp undir þverslána. Liverpool komið í 3:0 eftir stundarfjórðung!

Óhætt er að segja að Liverpool hafi farið á kostum fyrsta hálftímann í leiknum en svo fóru menn að slaka á klónni. Á 39. mínútu komst Son Heung-Min í dauðafæri í vítateignum eftir mistök í vörn Liverpool. Hann kom boltanum framhjá Alisson Becker en Virgil van Dijk var til varnar og bjargaði. Mínútu síðar skoraði Tottenham. Ivan Perisic fékk langa sendingu fram vinstri kantinn. Hann lék auðveldlega á Virgil og gaf svo fyrir markið á Harry Kane sem skoraði dauðafrír af stuttu færi. Í næstu andrá missti Andrew Robertson boltann til Dejan Kulusevski. Hann lék að markinu og skaut en Alisson náði að teygja sig í boltann og verja með vinstri fætinum. Allt í einu frá því að Liverpool hafði verið að sundurspila Tottenham voru gestirnir komnir með von þegar gengið var til leikhlés. 

Kæruleysi Liverpool hélt áfram eftir hlé. Son braust fram völlinn á 54. mínútu og skaut utan teigs en boltinn fór í stöngina. Rétt á eftir kom sending inn í vítateiginn. Cristian teygði sig í boltann og náði að stýra honum að markinu en aftur bjargaði tréverkið. Enn sótti Tottenham og á 57. mínútu átti Pedro Porro gott skot utan vítateigs sem Alisson varði vel með því að slá boltann yfir.

Umskiptin í leiknum voru ótrúleg og þau áttu eftir að verða meiri! Á 77. mínútu sendi Cristian góða sendingu fram á Son sem slapp einn í gegn og skoraði framhjá Alisson sem kom út á móti honum. Nú gat allt gerst!

Níu mínútum fyrir leikslok vildu stuðningsmenn Tottenham að varamaðurinn Diogo Jota fengi rautt spjald eftir að hann sparkaði í höfuð Oliver Skipp. Um óviljaverk var að ræða en ekki hefði verið hægt að segja neitt þó spjaldið hefði verið rautt en ekki gult! Þremur mínútum seinna vildu stuðningsmenn Tottenham fá víti eftir að viðskipti Ibrahimo og varmannsins Richarlison sem var nýkominn til leiks. Ekkert var dæmt. 

Sex mínútum var bætt við. Tvær mínútur voru komnar yfir venjulegan leiktíma þegar Tottenham fékk aukaspyrnu rétt framan við miðju. Son sendi boltann inn í vítateiginn. Þar náði Richarlison á ótrúlegan hátt að koma höfðinu í boltann og stýra honum í markið. Allt trylltist hjá Tottenham utan vallar sem innan á meðan stuðningsmenn Liverpool voru sem steinrunnir!

Staðan jöfn en það voru nokkrar mínútur eftir. Alisson fékk boltann og sparkaði honum í átt að vítateig Spurs. Boltinn fór beint á Lucas Moura sem var nýkominn inn sem varamaður. Hann gaf aftur og ætlaði boltann félaga sínum en þess í stað fór boltinn beint á Diogo Jota. Hann lét ekki happ úr hendi sleppa, lék að markinu og skoraði með hnitmiðuðu skoti neðst í hægra hornið fyrir framan Kop stúkuna! Stuðningmenn Liverpool gengu af göflunum. Sama má segja um Jürgen Klopp sem æddi að fjórða dómaranum í fögnuði sínum en tognaði við það aftan í læri! Allt var með hreinum ólíkindum. Fögnuðurinn var gríðarlegur þegar leikurinn var flautaður af!

Liverpool sýndi sitt besta og versta í leiknum. Fyrsta hálftímann spilaði liðið stórkostlega. En svo var gestunum hleypt inn í leikinn með kæruleysi og einbeitingarskorti á háu stigi. En eins og svo oft áður gerast ótrúlegir hlutir á Anfied! Leikur sem hafði algjörlega snúist í höndunum á þeim Rauðu hafði unnist eftir allt saman á lygilegan hátt! 

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Konaté, van Dijk, Robertson, Elliott (Henderson 63. mín.), Fabinho, Jones (Milner 86. mín.), Salah, Gakpo (Núnez  73. mín) og Díaz (Jota  63. mín) Ónotaðir varamenn: Kelleher, Gomez, Tsimikas, Carvalho og Matip.

Mörk Liverpool: Curtis Jones (3. mín.), Luis Díaz (5. mín.), Mohamed Salah, víti, (15. mín.) og Diogo Jota (90. mín.).

Gul spjöld: Ibrahima Konaté, Diogo Jota og James Milner. 


Tottenham Hotspur: Forster, Romero, Dier, Davies, Porro (Lucas Moura 90. mín.), Skipp (Richarlison 84. mín), Højbjerg, Perisic (Danjuma 90. mín.), Kulusevski (Sarr 66. mín.), Son Heung-min og Kane. Ónotaðir varamenn: D. Sánchez, Danjuma, Tanganga, Lenglet, Austin og Devine. 

Mörk Tottenham Hotspur: Harry Kane (41. mín.), Son Heung-Min (77. mín.) og Richarlison (90. mín.).

Gul spjöld:
Son Heung-Min og Richarlison.

Áhorfendur á Anfield Road: 53.275.

Maður leiksins: Diogo Jota. Það er ekki annað hægt en að velja Portúgalann fyrir að skora sigurmarkið í leiknum!

Jürgen Klopp: Guði sé lof fyrir að Diogo Jota skyldi bjarga okkur. Frábær tilfinning. 

Fróðleikur

- Curtis Jones skoraði sitt fyrsta mark á leiktíðinni. 

- Luis Díaz skoraði fimmta mark sitt á keppnistímabilinu.

- Mohamed Salah skoraði í 28. sinn á sparktíðinni. 

- Diogo Jota skoraði fimmta mark sitt á leiktíðinni. 

- Mohamed er nú búinn að skora 184 mörk fyrir Liverpool og er orðinn sjötti markahæsti leikmaður í sögu félagsins.

- Egyptinn lék sinn 300. leik fyrir hönd Liverpool.  

- Mohamed skoraði úr víti eftir að hafa mistekist úr tveimur síðustu á undan. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan