| Sf. Gutt

Sigur á Nottingham Forest!


Liverpool vann sinn annan sigur í röð núna í vikunni og bætti stöðu sína. Nottingham Forest stóð í Liverpool á Anfield Road en Liverpool vann 3:2. 

Þriðja leikin í röð var sama byrjunarlið valið. Það er hið besta mál þegar það er hægt og vel gengur. Tveir fyrrum leikmenn Liverpool, Neco Williams og Taiwo Awoniyi, voru í byrjunarliði gestanna. Reyndar lék Taiwo aldrei með Liverpool en hann var leikmaður félagsins. 

Liverpool tók strax öll völd og sýnt var að Nottingham Forest myndi liggja í vörn. Liðið er í fallbaráttu og öll stig sem gull. Eftir sex mínútur hófu áhorfendur að klappa. Ástæðan var sú að stuðningsmenn Nottingham Forest tóku upp fána með áletrun til að hvetja alla að virða minningu þeirra 97 sem fórust af völdum harmleiksins á Hillsborough í Sheffield 1989. Nottingham Forest var einmitt mótherji Liverpool í leiknum örlagaríka. Fallega gert hjá stuðningsmönnum Nottingham Forest!

Þó svo að Liverpool hafi haft öll völd létu góð færi á sér standa. Á 26. mínútu átti Trent Alexander-Arnold fyrirgjöf á Virgil van Dijk en markmaður Forest sló skalla hans yfir. Aftur var bjargað í horn og nú tók Trent horn frá vinstri. Boltinn rataði á Cody Gakpo sem náði að stýra boltanum að markinu en Neco Williams var til varnar og bjargaði við marklínuna. Þegar fimm mínútur voru til hálfleiks gaf Trent aftur fyrir. Sending hans hitti á Diogo Jota sem fékk upplagt skallafæri við færstöng en skalli hans fór framhjá. Ekkert mark í hálfleik. 

Liverpol fékk óskabyrjun í síðari hálfleik. Fabinho Tavarez skallaði að marki af stuttu færi eftir horn. Diogo var vel vakandi og stangaði boltann í markið af enn styttra færi. Liverpool komið yfir eftir aðeins tvær mínútur! Mjög vel gert hjá Diogo að skjóta sér fram því varnarmaður Forest var við að skalla boltann í burtu á marklínunni þegar Portúgalinn varð fyrri til. 

En Forest neitaði að gefast upp og nokkrum andartökum seinna átti Morgan Gibbs-White skot sem Alisson Becker varði vel. Forest hélt áfram á sömu braut og jafnaði á 51. mínútu. Morgan sendi yfir til hægri á Neco sem var einn og óvaldaður utan við vítateiginn. Hann ákvað að skjóta að marki og í markið fór boltinn alla leið með viðkomu í Andrew Robertson. Alisson var nærri búinn að verja en snertingin hjá Andrew réði mestu um að boltinn fór í markið. Fyrrum leikmaður Liverpool búinn að jafna! 

Forysta Forest hélt í fjórar mínútur. Liverpool fékk þá aukaspyrnu vinstra megin. Andrew sendi inn í vítateiginn á Diogo sem fékk boltann gersamlega óvaldaður. Hann tók við boltanum á lofti og skoraði svo með skoti neðst út í hægra hornið. Frábært mark því Diogo hélt boltanum tvisvar á lofti áður en hann skoraði. Fyrst með brjótkassanum og svo lærinu. Boltinn snerti aldrei jörðina!

Tíu mínútum seinna var Diogo enn á ferðinni. Ibrahima Konaté sendi háa og langa sendingu inn í vítateig Forest á Diogo sem skallaði að marki. Boltinn virtist ætla yfir Keylor Navas markmann Forest en hann skutlaði sér aftur á bak og varði glæsilega með því að slá boltann yfir. 

Trúlega héldu margir að nú væri björninn unninn en Forest gafst ekki upp og jafnaði á 67. mínutu. Virgil náði ekki að skalla frá eftir langt innkast frá hægri. Boltinn fór beint á Morgan sem skoraði með viðkomu í tveimur leikmönnum Liverpool. Aftur er vel hugsanlegt að Alisson hefði varið ef boltinn hefði ekki breytt um stefnu. 

Það var stutt í næsta mark. Þremur mínútum seinna fékk Liverpool aukaspyrnu úti til hægri. Trent sendi inn í vítateiginn. Hann hitti beint á Mohamed Salah sem renndi sér á boltann og stýrði honum í markið af markteigslínunni. Liverpool komið yfir í þriðja sinn í leiknum!

Forest átti næstu sókn og enn skapaði langt innkast vandræði. Boltinn hrökk til Taiwo Awoniyi sem tók hjólhestaspyrnu sem fór rétt yfir. Liverpool varði sinn hlut en ekkert mátti út af bera. Á 78. mínútu fékk varmaðurinn Brennan Johnson færi rétt utan við markteiginn. Hann lyfti boltanum yfir Alisson. Boltinn stefndi í markið en fór sem betur fer í þverslána og Liverpool slapp. Liverpool náði að landa sigri sem lagar stöðu liðsins. 

Liverpool spilaði vel eftir hlé en fyrri hálfleikurinn var daufur. Forest sýndi meiri mótspyrnu en margir áttu von á. Steve Cooper, fyrrum unglingaþjálfari hjá Liverpool, getur verið ánægður með liðið sitt og fallbaráttan heldur áfram hjá Forest. Liverpool þarf nú að halda áfram á þeirri sigurbraut sem tveir sigrar í röð hafa markað. Trúlega þarf Liverpool að vinna alla leikina sem eftir eru til að eiga einhverja möguleika á fjórða sæti deildarinnar. Ekki er einu sinni víst að það dugi. En sigurinn í dag var góður!

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Konaté, van Dijk, Robertson, Henderson, Fabinho (Thiago 60. mín.), Jones (Milner 81. mín.), Salah, Gakpo (Núnez 60. mín.) og Jota (Díaz 81. mín.). Ónotaðir varamenn: Kelleher, Gomez, Elliott, Tsimikas og Matip.

Mörk Liverpool: Diogo Jota (47. og 55. mín.) og Mohamed Salah (70. mín.).

Nottingham Forest: Navas, Felipe (Dennis 87. mín.), Niakhaté, McKenna (Worrall 30. mín.), Williams, Freuler (Johnson 76. mín.), Mangala, Lodi (Ayew 87. mín.), Gibbs-White, dos Santos de Oliveira og Awoniyi (Surridge 87. mín.). Ónotaðir varamenn: Hennessey, Lingard, Toffolo og Hammond.

Mörk Nottingham Forest: Neco Williams (51. mín.) og Morgan Gibbs-White (67. mín.).

Gult spjald: Neco Williams. 

Áhorfendur á Anfield Road: 53.325.

Maður leiksins: Diogo Jota. Eftir markaþurrð í heilt ár og eina viku er hann nú kominn með fjögur mörk í tveimur leikjum. Seinna markið hans var alveg frábært!

Jürgen Klopp:  „Við höfðum þetta af. Ég er virkilega ánægður því við sýndum margt í leik okkar sem ég vil sjá.“ 



Fróðleikur

- Diogo Jota er nú kominn með fjögur mörk á leiktíðinni. 

- Mohamed Slaha skoraði í 27. sinn á keppnistímabilinu. 

- Jürgen Klopp stýrði Liverpool til sigurs í 100. sinn í deildarleik á Anfield.

- Sigrarnir 100 hafa komið í 144 leikjum.

- James Milner spilaði sinn 850. leik á atvinnumannaferli sínum!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan