| Sf. Gutt

Markaþurrð á hæsta stigi!


Óhætt er að segja að einn framherja Liverpool eigi við markaþurrð á hæsta stigi að stríða. Hann hefur ekki skorað eitt einasta mark í að verða ár.


Um er að ræða Portúgalann Diogo Jota. Hann skoraði síðast fyrir Liverpool 10. apríl í fyrra í 2:2 jafntefli við Manchester City í Manchester. Þannig ef hann nær ekki að skora á móti Arsenal á páskadegi verður, á annan dag páska, liðið eitt ár frá síðasta marki hans!


Reyndar missti Diogo af stórum hluta þessarar leiktíðar vegna meiðsla. En hann er búinn að taka þátt í 18 leikjum á þessari sparktíð. Það segir sér sjálft að 18 leikir án marks fyrir framherja er ekki í lagi. Reyndar hefur Diogo lagt upp sjö mörk á leiktíðinni sem er í sjálfu sér fínn árangur.

En nú er staðan sú að Diogo Jota er búinn að spila 31 leik án þess að skora fyrir Liverpool. Hann skoraði reyndar eitt mark fyrir portúgalska landsliðið í haust. En 31 leikur án marks er staðreyndin fyrir félagslið hans!


Sem fyrr segir mætir Liverpool Arsenal á páskadag. Ef Diogo gæti valið sér lið til að spila á móti til að skora myndi hann sennilega velja Arsenal. Hann skoraði sitt fyrsta mark fyrir Liverpool á móti Arsenal 2021 og hefur skorað sjö mörk á móti Skyttunum. Það er hinn bóginn óvíst hvort Diogo fær tækifæri í leiknum gegn Arsenal. 


Hvernig sem allt velkist þá er Diogo búinn að reynast mjög vel frá því hann kom til Liverpool og skora 34 mörk. Það er líka algjörlega ljóst að það styttist í næsta mark Portúgalans!  

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan